miðvikudagur, 30. apríl 2008

Margprjónaða peysan

Í fyrradag var ég búin að prjóna rúmlega hálfa lopapeysuermi og bolinn upp að handvegi.

Sama dag rakti ég upp ermina því ég hafði klúðrað útaukningunni.

Í gær rakti ég upp allan bolinn því ég var með alltof margar lykkjur á prjóninum.

Það verður spennandi að sjá hvað mér tekst að prjóna sömu peysuna oft áður en yfir lýkur.

þriðjudagur, 29. apríl 2008

... og silfurbláan Eyjafjallatind ...

Eyjafjallajökull 26. apríl


Jökullinn var fagur, veðrið var frábært og ferðin gekk að öllu leyti fullkomlega.

Tvær sprungur urðu á vegi okkar en þær hljóðuðu ekki neitt, enda kannski ekki dauðadjúpar þótt önnur væri drjúg. Við höfðum bara lausleg kynni af þeim: leiðsögumaðurinn lenti með löppina upp að mjöðm í annarri og barmurinn gaf sig þegar Álfhildur klofaði yfir hina en einhvern veginn tókst henni að detta aftur fyrir sig og lenda sitjandi á bakkanum hinum megin. Svo klofaði hún bara yfir aftur eða tók létt stökk eins og við hin. Úr því að svona vel fór var þetta bara skemmtilegt ævintýri og ágætis áminning um að við værum á jökli en ekki bara að ganga á eitthvert fjall í snjó. (Og við vorum auðvitað vandlega bundin í línu, þannig að það hefði aldrei farið illa.)

Við höfðum fínasta útsýni á leiðinni upp, horfðum á 'landið fagurt og frítt og fannhvíta jöklanna tinda' en undireins og við komum á tindinn skall á hrímþoka þannig að hár og augnhár á sumum hélaði. Auðvitað hefði verið gaman að sjá norður yfir en þetta jók samt skemmtilega á ævintýrablæinn.

Svo birti aftur á leiðinni niður.

Og þegar göngunni var að ljúka heyrðist í lóu. Ég held að hún hafi ekki sagt okkur til neinna synda.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
P.S. Smávegis tölulegar upplýsingar:
  • Gangan frá Seljavöllum á Hámund, hæsta tind Eyjafjallajökuls, tók sex tíma og korter.
  • Hækkunin var meira en 1600 m (frá um 50 m.y.s. í 1666 m.y.s.).
  • Við vorum fest í línuna eftir um þriggja tíma göngu, í um 900 m hæð ef ég man rétt
  • Á toppnum vorum við í um þrjú korter, borðuðum nesti í hrímþoku á Hámundi og gengum svo á Guðnastein.
  • Gangan niður tók svo um tvo tíma og fjörutíu mínútur.

sunnudagur, 27. apríl 2008

Fornmaður?

Í gær hafði ég öxi í hönd og lét ófriðlega.

(Þar sem ég er rúðustrikuð skal tekið fram að síðasti parturinn er lygi af bókmenntalegri nauðsyn.)

föstudagur, 25. apríl 2008

Misjöfn verða morgunverkin

Á morgun verður haldið á Eyjafjallajökul. Tilhugsunin um einn hluta ferðarinnar er svolítið uggvænleg: nauðsyn þess að vakna upp úr klukkan sex. Það verður töluverð tilbreyting frá hefðbundnum laugardögum þegar morgunverkin felast helst í svefni.

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Ung í eyra

The teen repellent will no longer foil you, but you can still hear some pretty high tones.

The highest pitched ultrasonic mosquito ringtone that I can hear is 16.7kHz
Find out which ultrasonic ringtones you can hear!

þriðjudagur, 22. apríl 2008

Skundi

Þegar gönguhópurinn minn var stofnaður tók drjúga stund að finna hentugt heiti en á endanum var kosið milli nafnanna Gangvirkið og Skundi. Valið var erfitt þangað til bókmenntanördinn gerði sér ljóst að valið stæði milli Ólafs Jóhanns Sigurðssonar og Enid Blyton. Sem betur fer höfðu aðrir í hópnum svipaðan smekk og einróma sátt náðist um Skunda.

mánudagur, 21. apríl 2008

Hvur rækallinn röndóttur

Tilhugsunin um röndótta þemadagnn var lengi erfið því ég á nákvæmlega ekkert röndótt. Á endanum blasti lausnin þó við - og hún var einlit. Í dag er ég ein rauð rönd.

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Tæknileg framleiðsla

"... hluti mannslíkama sem er einangraður frá honum eða framleiddur á annan hátt með tæknilegri aðferð ..."

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Hafnir á vegum?

"Jafnsetning hafnanna felur í sér að þær séu svipað á vegi staddar hvað það varðar að uppfylla staðalkröfur."