þriðjudagur, 29. apríl 2008

... og silfurbláan Eyjafjallatind ...

Eyjafjallajökull 26. apríl


Jökullinn var fagur, veðrið var frábært og ferðin gekk að öllu leyti fullkomlega.

Tvær sprungur urðu á vegi okkar en þær hljóðuðu ekki neitt, enda kannski ekki dauðadjúpar þótt önnur væri drjúg. Við höfðum bara lausleg kynni af þeim: leiðsögumaðurinn lenti með löppina upp að mjöðm í annarri og barmurinn gaf sig þegar Álfhildur klofaði yfir hina en einhvern veginn tókst henni að detta aftur fyrir sig og lenda sitjandi á bakkanum hinum megin. Svo klofaði hún bara yfir aftur eða tók létt stökk eins og við hin. Úr því að svona vel fór var þetta bara skemmtilegt ævintýri og ágætis áminning um að við værum á jökli en ekki bara að ganga á eitthvert fjall í snjó. (Og við vorum auðvitað vandlega bundin í línu, þannig að það hefði aldrei farið illa.)

Við höfðum fínasta útsýni á leiðinni upp, horfðum á 'landið fagurt og frítt og fannhvíta jöklanna tinda' en undireins og við komum á tindinn skall á hrímþoka þannig að hár og augnhár á sumum hélaði. Auðvitað hefði verið gaman að sjá norður yfir en þetta jók samt skemmtilega á ævintýrablæinn.

Svo birti aftur á leiðinni niður.

Og þegar göngunni var að ljúka heyrðist í lóu. Ég held að hún hafi ekki sagt okkur til neinna synda.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
P.S. Smávegis tölulegar upplýsingar:
  • Gangan frá Seljavöllum á Hámund, hæsta tind Eyjafjallajökuls, tók sex tíma og korter.
  • Hækkunin var meira en 1600 m (frá um 50 m.y.s. í 1666 m.y.s.).
  • Við vorum fest í línuna eftir um þriggja tíma göngu, í um 900 m hæð ef ég man rétt
  • Á toppnum vorum við í um þrjú korter, borðuðum nesti í hrímþoku á Hámundi og gengum svo á Guðnastein.
  • Gangan niður tók svo um tvo tíma og fjörutíu mínútur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli