föstudagur, 31. maí 2002

Missti enn og aftur af strætó í morgun. Úff! Var heldur ekki með ferskasta móti því seinnipartinn í gær var móttaka fyrir Söguþingsfólk með léttum veitingum (í réttri merkingu orðanna léttar veitingar) Síðan var haldið áfram uppi í Sögufélagshúsi um kvöldið. Þetta var ferlega gaman, enda fjölmargt skemmtilegt fólk á svæðinu.

Undirbúningur Söguþingsins virðist vera prýðilegur en sumir voru óheyrilega svekktir yfir að hafa ekki fengið taupoka. Það var einkum Stefán sem átaldi Sverri harðlega fyrir þessa yfirsjón. Báðir tveir eru annars afbragðs bloggarar en frá þeim hefur ekkert sést í dag, enda sennilega uppteknir á þinginu. Sverrir er frekar viðkvæmur fyrir því að það sé vísað á bloggsíðuna hans, og færðist undan að svara því hvort mér væri það heimilt. Þannig að það er ekki um annað að ræða en taka áhættuna hér og nú — bíð svo spennt eftir að sjá hvort Sverrir krefst lögbanns.

fimmtudagur, 30. maí 2002

Hvernig getur höfundur Nancy-bókanna verið látinn þegar það var verksmiðja sem skrifaði þær? Það er kannski sitthvað til í því að ídeal lesandi þeirra sé sjö ára en það þýðir ekki að maður þurfi að vaxa upp úr þeim um það leyti — allavega á ég góðar minningar úr menntaskóla um okkur Svansý að lesa Nancy-bækur í stærðfræðitímum.

Sumir eru duglegri að varðveita barnið í sér en aðrir.

Við lesendur Nancy-bókanna vorum reyndar misduglegar að fylgjast með í stærðfræði- og eðlisfræðitímum — tókst iðulega að finna nóg annað að gera. Meðal helstu afreka er sennilega útsaumur á jóladúkum og ýmsu þess háttar, stundum fengu strákarnir meira að segja að sauma nokkur spor. Áður hafði ég reynt að prjóna leista og vettlinga en strákarnir í bekknum voru afskaplega viðkvæmir fyrir tifinu í sokkaprjónunum og gerðu þá útlæga með frekju og yfirgangi.

Nú kynni einhver að spyrja af hverju ég hafi verið á eðlisfræðibraut fyrst ég sýndi ekki meiri áhuga á helstu námsgreinunum þar. Svarið er ákaflega einfalt: Af því bara!
Skrapp og náði í ráðstefnugögnin fyrir Söguþingið sem byrjar á eftir. Verst að ég kemst sennilega ekkert á morgun sem er synd því þá er svo margt spennandi á dagskrá. Þýðir samt ekki að sýta það; laugardagurinn verður að duga. Sýnist að við séum þó nokkur skráð úr íslenskunni; þetta verður ábyggilega mjög skemmtilegt.
Missti af strætó í morgun — einu sinni sem oftar — þannig að ég fékk mér morgungöngu í vinnuna. Það var fínt, enda veðrið dásamlegt eins og það hefur reyndar verið ótrúlega marga daga í röð. Maður fer reyndar að hafa áhyggjur þegar veðrið í Reykjavík er búið að vera gott lengur en einn dag í einu — þetta hlýtur að enda með ósköpum. „Mönnum á nú eftir að hefnast fyrir þetta,“ sagði gömul kona víst einhvern tíma af svipuðu tilefni. En það er best að njóta veðurblíðunnar meðan hún varir — er á meðan er.

Samt einn galli við að missa af strætó í dag — þá gat ég ekki haldið áfram að lesa nýju dönsku bókina sem ég keypti í gær. Það eru nefnilega danskir dagar í Eymundsson og þar rakst ég á nýja skáldsögu eftir Hanne-Vibeke Holst sem mér finnst ákaflega skemmtilegur höfundur. Þessi bók heitir Kronprinsessen. Einhverjum gæti dottið í hug að hún fjallaði um þann möguleika að áður en dönsku prinsarnir fæddust hefðu Margrét og Hinrik eignast stúlku, en hún hefði verið lokuð inni á fávitahæli eða einhverju álíka. Þá væri kronprins Fredrik í rauninni ekki kronprins Fredrik heldur bara prins Fredrik. (Ætli það sé ekki hægt að koma þessari samsæriskenningu í dönsku slúðurblöðin?)

En bókin fjallar ekki um þetta, heldur um unga konu sem hefur verið aktíf í pólitík og umhverfisverndarsamtökum o.þ.h. og hefur alltaf verið „frontkæmperen“ í fjölskyldunni sinni, en er við upphaf bókarinnar að draga sig út úr því öllu því maðurinn hennar hefur fengið vinnu í Uganda í tvö ár og hún hefur ákveðið að „udfylde rollen som medfølgende hustru“ eins og það er orðað á kápunni. Þá býðst henni pludselig að verða ráðherra, og hún segir já. Er ekki komin mikið lengra í bókinni en líst vel á.

miðvikudagur, 29. maí 2002

Ármann reynir að halda því fram að ég sé óheillakráka og hafi valdið því að bloggið fór í verkfall. Ætli þessi ásökun sé nokkuð sprottin af orðum mínum um talnameðferð og stafsetningu hans (sjá hér að neðan)? Ég myndi frekar kenna Svanhildi vinkonu minni um — ekki bara vegna þess að hún var sjálf að opna bloggsíðu og hvetja alla sem hún þekkir til að gera slíkt hið sama. Nei, umrædd Svanhildur stóð líka fyrir óbeinni hvatningu til þjóðarinnar um að fara að blogga því hún sér um morgunútvarpið á Rás 2 og tók viðtal við nokkra bloggara á þriðjudagsmorguninn.

Svansý er annars nýbúin að kaupa sér hjól og er ákaflega hamingjusöm yfir því. Ég held að ég fari ekki að dæmi hennar. Hef ekki reynt að hjóla reglulega síðan eitt af þeim allmörgu sumrum þegar ég vann í sveitinni minni (Mývatnssveit) við að selja túristum póstkort og kaffi, kannski kleinu með, og annað álíka. Eftir nokkur sumur í þessu starfi var ég líka orðin frekar þjálfuð í að útskýra hvernig gervigígar myndast, hvernig skyr er búið til og fleira skemmtilegt. Leiðin heiman af Grænavatni og í vinnuna lá fyrst í norður, svo í vestur. Á þeirri leið var yfirleitt vindur eða gola úr norðvestri. Á heimleiðinni þurfti ég síðan — eins og glöggt fólk hefur þegar reiknað út — fyrst að fara í austur og síðan í suður. Þá var hann yfirleitt á suðaustan. Það er ekki gaman að hjóla á móti vindi. Eftir eitt sumar af slíku gafst ég upp á hjólreiðunum. Næsta sumar gekk ég í vinnuna. Fimm kílómetra leið. Og heim aftur. Það var mun skemmtilegra.

Andúð mín á hjólreiðum tengist því e.t.v. líka að ég ólst upp á Akureyri. Landslagið þar er ekki hannað fyrir slíka iðju. Maður er reyndar ákaflega fljótur að hjóla niður í bæ — en það er töluvert mikið meira vesen að komast aftur upp eftir.

Held að ég haldi mig bara við tvo jafnfljóta og risastóru skærgulu bílana.
Loksins tókst mér að koma einhverju inn á þessa blessaða síðu; reyndi stöðugt í vinnunni en ekkert gekk, tölvan var með endalausa stæla. Nú er ég hins vegar komin heim eftir keiluferð starfsmannafélagsins. Lagði mig alla fram um að reyna að útvega liðinu mínu skammarverðlaunin en tókst ekki; aðrir í liðinu gátu of mikið. Ég var meira að prófa alla möguleika á að koma kúlunni í rennurnar!
Er Ármann hættur að kunna að telja? Í grein á Múrnum segist hann ætla að rifja upp brot úr átta íslenskum sjónvarpsleikritum en ég sé ekki betur en brotin séu tíu. Svo skrifar hann seint í fyrstu línunni í staðinn fyrir sýnt! Þetta er mjög ískyggilegt!

En greinin er bráðskemmtileg, enda úr miklu að moða; það er ótrúlegt hvað sjónvarpinu hefur tekist að búa til mörg einkennileg leikrit. Var fyrri hluti níunda áratugarins ekki einn helsti blómatími vondra sjónvarpsleikrita?

Hrædd um að ég standi mig ekki nógu vel í getrauninni hans Ármanns en kannast þó við hluta af þessu. Hét leikrit nr. 1 ekki Glerbrot? Kristín Jóhannesdóttir leikstýrði ábyggilega. Nr. 2 hringir líka einhverjum bjöllum - átti ábyggilega að vera e-r nútímaútgáfa af Djáknanum á Myrká — kannski hét það Djákninn?
Nr. 5 hlýtur að vera Bleikar slaufur e. Steinunni Sig. Og nr. 8 hét ábyggilega Ást í kjörbúð. Snilldarlegt nafn! Kannast mjög við nr. 3 en get ekki munað hvað það heitir. Þetta er ekki leikritið sem gerðist að hluta í sjónvarpshúsinu - þar sem einhver gekk um með ákaflega rauða hárkollu — er það nokkuð? Raunir háskólastúdentsins (nr. 6) eru mér í fersku minni þótt ekki geti ég munað nafnið. Þetta var sérstaklega fyndið leikrit fyrir Árngerðinga — en ótrúlegt svindl að skrifstofa Matthíasar væri höfð í Aðalbyggingunni. Leikritið um Snorra Sturluson (nr. 4) hlýtur að hafa verið fyrir mitt minni. Átta mig ekki á 7, 9 og 10, en Dísa frænka mín heldur að það síðastnefnda hafi heitið Félagsheimilið. Hún furðar sig hins vegar á því að Ármann skuli ekki nefna Lénharð fógeta sem mun hafa verið sýndur á svipuðum tíma og verið afar slæmur. Telur þó að það kunni að hafa verið fyrir hans minni.

Þessar upplýsingar frá Dísu, að á 8. áratugnum hafi Lénharður fógeti verið sýndur sem sjónvarpsleikrit, opna mér nýja sýn á litla senu í hinni prýðilegu bók Enginn veit hver annars konu hlýtur eftir Snjólaugu Bragadóttur, sem gerist á þessum tíma. Þar kemur við sögu persóna sem kallast Lenni, en heitir Lénharður — og þegar hann upplýsir um það nafn lætur hann vita að það sé lélegur brandari ef einhver bæti við „fógeti“ — hann hafi heyrt það heldur oft! Þetta virðist sem sé vera vísun í samtíma bókarinnar sem ég hef aldrei gert mér grein fyrir. Svona er maður alltaf að læra eitthvað nýtt.

þriðjudagur, 28. maí 2002

Við Svansý erum greinilega í sömu vandræðum með klukkuna hérna í blogginu. Ef maður stillir á GMT fær maður ekki GMT heldur breskan sumartíma en ef maður stillir á GMT mínus 1 klst fær maður tveimur klst minna. Þannig að maður neyðist sennilega til að vera einum tíma á undan eða eftir. "Tíminn vill ei tengja sig við mig ..."

Svansý hefði átt að drífa sig á tónleikana sem hún ætlaði á. Reyndi að segja henni að þegar maður er þreyttur og ónýtur í hausnum sé einmitt svo hollt að fara á skemmtilega tónleika. Bætir, hressir, kætir. En hún hefur greinilega ekki tekið mark á mér. Hrmpf! ;)

Annars hef ég fulla samúð með fólki sem þarf að fara á fætur um miðja nótt. Þegar ég fer að eigin mati á fætur fyrir allar aldir er langt liðið á daginn hjá Svansý.
Í fréttum Ríkissjónvarpsins var verið að segja að Nató+Pútín-fundurinn í Róm þætti marka endalok kalda stríðsins. Var það ekki líka sagt um Nató-fundinn hér á landi um daginn? Og um skrilljón fundi á undan honum?

Ferlega var friðarráðstefna SHA helgina fyrir Nató-fundinn annars góð. Og mótmælin á Hagatorgi.

Veit að það er dálítið liðið síðan. En sumt er vel þess virði að rifja upp.
Jæja, þá er komið að því að ég láti undan exhibisjónískum hvötum mínum (og áskorun Svanhildar) og fari að tjá mig á þessum vettvangi. Hef aldrei getað haldið venjulega dagbók - af ýmsum ástæðum. Til dæmis hef ég iðulega verið í vandræðum með innbyggða lesandann. Þ.e.a.s.: Venjuleg dagbók er bara fyrir mann sjálfan, er það ekki? Og þess vegna ætti maður að geta skrifað hvað sem er í hana? En hins vegar er engin leið að treysta því fullkomlega að slík dagbók sé óhult fyrir öðrum - til dæmis gæti maður lent í slysi og snöggdrepist! Þannig að maður skrifar ekki hvað sem er. Mikil sjálfsritskoðun! Mikil flækja!

Kannski leysir það vandann að halda svona hálfopinbera dagbók. Kannski.