miðvikudagur, 29. maí 2002

Ármann reynir að halda því fram að ég sé óheillakráka og hafi valdið því að bloggið fór í verkfall. Ætli þessi ásökun sé nokkuð sprottin af orðum mínum um talnameðferð og stafsetningu hans (sjá hér að neðan)? Ég myndi frekar kenna Svanhildi vinkonu minni um — ekki bara vegna þess að hún var sjálf að opna bloggsíðu og hvetja alla sem hún þekkir til að gera slíkt hið sama. Nei, umrædd Svanhildur stóð líka fyrir óbeinni hvatningu til þjóðarinnar um að fara að blogga því hún sér um morgunútvarpið á Rás 2 og tók viðtal við nokkra bloggara á þriðjudagsmorguninn.

Svansý er annars nýbúin að kaupa sér hjól og er ákaflega hamingjusöm yfir því. Ég held að ég fari ekki að dæmi hennar. Hef ekki reynt að hjóla reglulega síðan eitt af þeim allmörgu sumrum þegar ég vann í sveitinni minni (Mývatnssveit) við að selja túristum póstkort og kaffi, kannski kleinu með, og annað álíka. Eftir nokkur sumur í þessu starfi var ég líka orðin frekar þjálfuð í að útskýra hvernig gervigígar myndast, hvernig skyr er búið til og fleira skemmtilegt. Leiðin heiman af Grænavatni og í vinnuna lá fyrst í norður, svo í vestur. Á þeirri leið var yfirleitt vindur eða gola úr norðvestri. Á heimleiðinni þurfti ég síðan — eins og glöggt fólk hefur þegar reiknað út — fyrst að fara í austur og síðan í suður. Þá var hann yfirleitt á suðaustan. Það er ekki gaman að hjóla á móti vindi. Eftir eitt sumar af slíku gafst ég upp á hjólreiðunum. Næsta sumar gekk ég í vinnuna. Fimm kílómetra leið. Og heim aftur. Það var mun skemmtilegra.

Andúð mín á hjólreiðum tengist því e.t.v. líka að ég ólst upp á Akureyri. Landslagið þar er ekki hannað fyrir slíka iðju. Maður er reyndar ákaflega fljótur að hjóla niður í bæ — en það er töluvert mikið meira vesen að komast aftur upp eftir.

Held að ég haldi mig bara við tvo jafnfljóta og risastóru skærgulu bílana.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli