miðvikudagur, 7. febrúar 2007

Ég nota alltof mörg atviks- og lýsingarorð sem enda á -lega/-legur. Best að fara að lesa orðabækur.
Ég hata nýja fréttastefið. Ekki (bara) vegna þess að ég þoli ekki breytingar af þessu tagi heldur af því að það er ömurlega dauðyflislegt og hallærislegt.

þriðjudagur, 6. febrúar 2007

Fornöfn eru ágæt en öllu má nú ofgera. Í bók sem ég er að lesa er textinn á köflum svo morandi í fornöfnum (aðallega pfn. en í bland eru nokkur afn. og efn.) að ætla mætti að þetta væri málfræðiæfing fyrir skólabörn. Hér er dæmi:

"Hann hjálpaði henni að flytja og hringdi í hana reglulega næstu vikur til að heyra í henni hljóðið. Kannski fannst henni hann vera að sinna sér eins og hann sinnti viðskiptavinum sínum en samt talaði hún við hann og reyndi að vera eins lífleg í rómnum og hún gat."

Getraun dagsins er: Hver er bókin?
Síðan ég bloggaði síðast er ég m.a. búin að:
  • fagna áramótum (gleðilegt ár!),
  • fara til Strassborgar með viðkomu í Kaupmannahöfn og verða margs vísari um mannréttindadómstól Evrópu, Evrópuráðið, Norðurlandaráð og ýmislegt fleira,
  • sitja stofnfund félags landeigenda á Íslandi sem "umboðsmaður landeigenda" Grænavatns (býsna virðulegur titill),
  • eiga afmæli og halda upp á það - sem varð mér að vanda tilefni til að gleðjast óendanlega yfir því hvað ég á skemmtilega vini (það er svo gaman að fylla íbúðina af svona frábæru fólki),
  • fara heilmikið í bíó og einu sinni í leikhús (tónlistin og hreyfingarnar í Bakkynjum voru algjört æði),
  • taka punktatilboði Icelandair og panta mér flug til London um næstu helgi,
  • komast nokkrum skrefum nær því að byrja á MA-ritgerð,
  • já, og vinna töluvert, að sjálfsögðu
Bara nokkuð góð byrjun á árinu.