laugardagur, 30. desember 2006

Hugsað á Þorláksmessu (eftir að hafa heyrt óendanlega margar "hugheilar" jólakveðjur):

Næsta ár ætla ég að senda jólakveðju "með hálfum huga".

föstudagur, 29. desember 2006

Ég verð mjög sjaldan lasin en þegar það gerist er það ótrúlega oft í árslok. Annaðhvort hlýt ég að hafa ofnæmi fyrir jólunum eða ég höndla afslöppun engan veginn. Á aðfangadag og jóladag var ég hálflasin - eða varla það, kannski frekar einn-fjórða-lasin. Síðan hefur þetta ágerst smám saman en ég held að versti dagurinn hafi verið í gær og nú sé ég að hjarna við. Reyndar er ég enn slöpp en kvefið er allavega á undanhaldi og röddin hætt við að umbreytast í bassa, enda er ég búin að drekka ómælt magn af ýmiss konar tei með hunangi og koníaki. (Koníaksbirgðirnar mínar eru á þrotum.) Auk þess hef ég setið stillt og prúð heima hjá mér í allan dag, saumað út og hlustað á Rás 1. Með sama áframhaldi hlýt ég að verða orðin fullfrísk á gamlárskvöld.

sunnudagur, 24. desember 2006

Sokkabuxurnar fengust þannig að ég slapp frá jólakettinum.

Gleðileg jól!
Ég er alveg að fara í jólaköttinn! Get ég ekki bjargað mér með því að drífa mig út í snatri og kaupa sokkabuxur?

laugardagur, 23. desember 2006

Ég nennti ekki út að kaupa jólaseríur - það var miklu notalegra að sitja bara heima og hlusta á jólakveðjur í útvarpinu. En svo komst ég í flugvél á endanum og er semsagt komin norður í foreldrahús núna. Búin að fá mér ostabrauð með tómastsósu og drekka mjólk með (það er hefð) og nú er komið að laufabrauðsskurði. Þá styttist í að jólin megi koma.
Það er röð út úr dyrum á flugvellinum! Ég átti pantað flug til Akureyarar um hádegi en það frestaðist eins og við mátti búast og var nokkrum sinnum í athugun á hálftíma fresti. Svo fékk ég tilkynningu um að það væri orðið fært en fyrst þyrfti að flytja fólk sem átti að fljúga í gær; ég ætti að athuga með flug klukkan fjögur. Ég ákvað samt að rölta út á flugvöll í von um að nógu margir hefðu hætt við að treysta á flugið og keyrt norður, eða hefðu ekki verið tilbúnir að mæta strax á flugvöllinn. Það var óhófleg bjartsýni. Ég ákvað bara að ganga heim aftur og bíða róleg eftir að röðin komi að mér.

Kannski ég noti tímann í að fara og kaupa jólaseríur. Þegar ég dró fram jóladótið fann ég kassa utan af seríum - en seríurnar sjálfar voru víðsfjarri.

föstudagur, 8. desember 2006

Er nokkuð nauðsynlegt að eiga sér líf utan vinnu?

sunnudagur, 3. desember 2006

Það hlýtur að vera lygi að desember sé byrjaður - ég hélt að það væri rétt komið haust. Reyndar er ekkert nýtt að mér gangi misvel að tengja mig við tímann og tímann við mig en þetta hefur allt verið óvenjumikið á skjön síðustu mánuði. Sumarfrí í september fer greinilega illa með tímaskynið. Síðan ég kom úr fríinu hef ég heldur ekki náð að hugsa um mjög margt nema vinnuna og öðru hverju inn á milli kúrsinn sem ég hef verið í uppi í háskóla, sem er einhver besti og skemmtilegasti kúrs sem ég hef tekið - eini gallinn er að honum lýkur á morgun og það með munnlegu prófi. Ég sveiflast milli þess að vera annars vegar frekar afslöppuð yfir því og hins vegar vel stressuð og fullviss um að allt fari í steik. Kannski ég fái tilfelli um miðnætti, lesi og undirbúi mig langt fram á nótt, mæti hroðalega illa sofin í prófið og klúðri því þess vegna. Það væri sérlega bjánalegt.