föstudagur, 30. ágúst 2002

Það er greinilega að koma haust. Síminn hjá mér er ósjaldan búinn að hringja síðustu dagana: fólk að athuga hvort ég geti tekið að mér hlutastörf, afmörkuð verkefni, eina og eina próförk og svo framvegis. Þótt mér veiti ekki af aukavinnu (vantar pening) hef ég oftast orðið að segja nei, því ég er smám saman að gera mér grein fyrir því að það komast ekki fleiri en 24 tímar fyrir í sólarhringnum. Hef reyndar að baki áralangar tilraunir í að fjölga þeim en þær hafa því miður engan árangur borið.
Labbaði þó inn á orðabókardeild áðan og bauðst til að taka próförk að nokkrum síður þar – einhvers staðar verður maður að fá útrás fyrir allra afbrigðilegustu tilhneigingarnar!
Á blogginu hennar Ásu í dag getur fólk lesið um húsleit hjá „hundakonunni“ á Akureyri. Ég held að enginn sem hefur alist upp á Akureyri velkist í vafa um það hver konan er, enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem hún hefur komið sér í kynni við lögregluna, hafi ég getið mér rétt til.
Ása er annars líka með bráðskemmtilega könnun á síðunni sinni um það hvaða gömlu sjónvarpsþætti fólk vilji láta endursýna (einkum unglingaþætti). Hvet alla til að taka þátt í henni – enn sem komið er virðist ég vera sú eina sem hef greitt Fame atkvæði – trúi ekki öðru en til séu fleiri sem vildu sjá þá ágætu þætti aftur! Auðvitað mætti bæta ýmsum þáttum við listann hennar Ásu – þó sakna ég ekki verulega nema eins: þáttanna um Parker Lewis. Þeir voru ótrúleg snilld og hafa auk þess óvænta tengingu við Bráðavaktina! Þegar hún byrjaði í sjónvarpinu (þ.e. fyrsta serían) gat maður ekki annað en hrópað upp yfir sig: „Nei sko – Kubiac er í afgreiðslunni!!!“
Bráðavaktarþátturinn um daginn var annars töluverð vonbrigði. Svona er að hlakka of mikið til einhvers. Þarna hélt áfram sú ískyggilega þróun sem einkenndi síðustu seríu mjög, að handritshöfundarnir voru að gera stöðugar tilraunir með formið. Í sjónvarpsþáttum eins og þessum er það umtalsvert áhyggjuefni, því það vekur þá spurningu hvort fólkinu detti ekkert í hug til að skrifa um.

fimmtudagur, 29. ágúst 2002

Um síðustu helgi færði ég heimilisbókhaldið mitt og í fyrradag fékk ég gígantískan vísareikning. Hvort tveggja sagði mér það sama og fyrri heimilisbókhaldsfærslur og vísareikningar: Erna, þú verður að skera niður kaffihúsakostnaðinn. Borða að minnsta kosti sjaldnar úti. Oft var þörf en nú er nauðsyn! Og hvernig hafa sparnaðaráformin gengið? Ja ... í gær borðaði ég kvöldmat á Alþjóðakaffihúsinu, í dag fékk ég mér hádegismat í danska bakaríinu, hvort tveggja í góðum félagsskap. Kannski gengi mér betur að spara ef ég hætti að hitta fólk?

miðvikudagur, 28. ágúst 2002

Vei, vei, veeeeiiiii!!!!! Bráðavaktin byrjar aftur í sjónvarpinu í kvöld! :) Ég verð reyndar ekki heima, en þar sem ég er ótrúlega forsjál (á köflum) hafði ég rænu á því í gærkvöld að prógrammera vídóið mitt til að taka hana upp. Tímastillir á vídeói er frábær uppfinning, án hans hefði ég „neyðst“ (!) til að fórna félagslífinu í kvöld. Nú er bara að vona að dr. Greene drepist sem fyrst. Óttast þó að áhorfendum verði gert að afbera heilaæxlið margfalt lengur en öllu hófi gegnir.
Á leiðinni í vinnuna í morgun fannst mér ég sjá hreyfingu fyrir innan glugga á hinu sílokaða Þjóðminjasafni. Ætli það sé eitthvað verið að vinna í húsinu núna? Gæti verið von um að safnið verði opnað aftur fyrir næstu aldamót? Eða var þetta kannski eintóm óskhyggja?
Loksins er þetta #%$ netsamband farið að virka aftur. Ekki seinna vænna, það var orðið stutt í fráhvarfseinkenni.

þriðjudagur, 27. ágúst 2002

Er ekkert nýtt að frétta af stóra rúllustigamálinu, öðru nafni Bræður berjast? Óvissan er óbærileg!
Var óheyrilega þreytt í gærkvöld, hafði ekki orku til neins nema leggjast upp í sófa með tærnar upp í loft, sem var reyndar ágætt. Glápti líka á vídeó – horfði á High Fidelity einu sinni enn. Þeim tíma er alltaf vel varið, myndin er frábær – og stenst meira að segja samanburð við bókina sem er ekkert smá góð. Annars lítur út fyrir að það sé sé eitthvert ómeðvitað John Cusack þema í gangi þessa dagana. Í fyrrakvöld horfði ég á Cradle Will Rock, og svo var Grosse Pointe Blank í sjónvarpinu á föstudaginn (var reyndar svo þreytt að ég sofnaði í henni miðri, en það var óvart). Kannski ég ætti að horfa á America's Sweethearts í kvöld?

mánudagur, 26. ágúst 2002

Ármanni má benda á að úrvalið af bókum á útlensku á Borgarbókasafninu niðri í bæ er býsna gott, ekki síst af krimmum. Bókasafnið hefur oftast reynst mér mun betur en bókabúðir bæjarins.
Fátt gerðist markvert í lífi mínu um helgina, en þó dreif ég mig loksins á sumarsýninguna í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, á blaðaljósmyndum frá tímabilinu 1965–75. Mjög skemmtileg sýning.

föstudagur, 23. ágúst 2002

Gaman, gaman, það er til „quiz“ á netinu um bloggóhólisma! Prófið er að finna hérna. Ég fékk 52 stig af hundrað.
Get ekki stillt mig um að bæta enn einni tilvitnun í Ameríkubréf við. Nú er komið að nýjum bréfritara, konu sem er meðal annars að segja dánarfregnir og bætir svo við: „Aðrir man ég ekki um að hafi dáið sem þið þekkið, samt er alltaf að deyja hér fólk af öllum þjóðum. Núna í vikunni drap maður konuna sína og sjálfan sig á eftir, það er altítt hér að fólk ferst fljótlega. Lögmaður drap sig í Rauðá í næstliðinni viku, en það er algengt hér og þykir það ekki neinar fréttir.“
Úr sama bréfi: „Ég er kominn á þá trú sem Jón heitinn Sigurðsson sjálfsagt hefir haft, að fyrir þann sem láta vill líf sitt verða til einhvers góðs fyrir þjóð sína er langbest að lifa erlendis. Því úti á Íslandi er því miður öllum góðum áformum gjarnt til að kafna í moðreyk.“
Ó já.
Enn úr Ameríkubréfum, aftur úr skrifum Friðriks Bergmanns til Einars H. Kvarans: „Af öllu því sem hægt er fyrir þjóð vora að vinna á yfirstandandi tíð er ekkert jafnáríðandi og það að hafa vekjandi áhrif á hugsunarhátt hennar og leiðrétta allt það óskaplega öfugstreymi sem þar er.“
Ég stakk af úr vinnunni um hádegi til að fara á fund í stjórn Aðstoðarmannasjóðs H.Í. Er komin aftur að skrifborðinu mínu núna, en það er mesta furða. Ferðin til baka gekk nefnilega fremur brösulega, og eru strætóferðir mínar þó ekki alltaf tíðindalausar. Þegar fundurinn var búinn var ég rétt búin að missa af fimmunni, og þar sem ég nennti ekki að hanga á strætóstoppistöðinni í tuttugu mínútur ákvað ég að ganga niður í bæ og taka strætó þar. Þegar niður í Austurstræti var komið var tvisturinn á stoppistöðinni, og þar sem hann fer líka upp á Suðurlandsbraut stökk ég að sjálfsögðu til og náði vagninum rétt áður en hann renndi aftur af stað. Svo settist ég niður og fór að lesa í rólegheitum. Eftir dálítinn tíma leit ég upp úr blaðinu, og hvert er ég þá komin? Lengst vestur á Vesturgötu! Ég tók semsé strætó í vitlausa átt og var ekkert að flýta mér að uppgötva það. En þetta fór allt vel á endanum, ég er allavega komin aftur í vinnuna núna.
Meira úr Ameríkubréfum. Friðrik Bergmann skrifar Einari H. Kvaran árið 1896: „En meir og meir vex mér í augum hvað okkar menntuðu menn eru ónýtir menn og spilltir menn og hve lítill kærleikur er í sálum þeirra til þess þjóðfélags sem þeir heyra til ...“
Skítaveður.

fimmtudagur, 22. ágúst 2002

Óskaplega er dagurinn lengi að líða.
Er að lesa próförk að Ameríkubréfum – það verk hefur orðið útundan heldur lengi, en nú fer að liggja á því. Þar er ýmislegt skemmtilegt, í einu bréfi frá 1937 segir meðal annars: „... séra K.K. Olafson ætlar að halda fyrirlestur hér í kirkjunni um Halldór Kiljan Laxness hérna á föstudaginn kemur og það er þörf að einhver taki í lurginn á þeim strák. Við erum [búin] að lesa allar sögurnar hans og okkur er bara óglatt að hugsa um þær en við erum líklega ekki nógu menntuð til að dæma um þær.“

miðvikudagur, 21. ágúst 2002

Risarækjuboð hjá Jelenu í kvöld. Það verður án efa ævintýralegt!
Þótt veðrið sé áfram grátt er hausinn á mér sem betur fer í aðeins betra sambandi í dag en í gær. Ég var algjört tabula rasa þegar liðið var á daginn, og auk þess orðin verulega pirruð á öllu. Fékk mér að éta á leiðinni heim og greyið sem afgreiddi mig reyndi að slá á létta strengi í mesta sakleysi. Ég mátti hafa mig alla við svo ég hvæsti ekki með afbrigðum illyrmislega á hann.

þriðjudagur, 20. ágúst 2002

Ármann hefur skrásett skemmtilegt minningabrot um Mola flugustrák í dag. Ég kannast mjög vel við það viðhorf til bóka sem þar er lýst. Af samskiptum minum og bókanna um Mola er hins vegar það að segja að ég las þær vissulega en fannst Köngull kónguló svo ógnvekjandi að það var á mörkunum að ég gæti það. Kannski hef ég verið óþarflega viðkvæmt barn? Málin hafa hins vegar þróast þannig að líkt og Ármann styð ég kóngulær nútímans heilshugar í flugnaveiðum sínum, og þær eru ófáar utan á húsinu mínu. Við erum bestu vinir, svo framarlega sem þær halda sig utanhúss.
Rigning. Grámygla. Mig langar heim að sofa.

mánudagur, 19. ágúst 2002

Svona lýsti Jóhannes Helgi Reykjavíkurlífinu í Birtingi árið 1955:
„Á daginn slæpist ungviðið á speglasjoppum, sláandi fimmklall fyrir ísglundri og vindlingum; á nóttunni þegar hleypt hefur verið út úr danshúsunum slæst það kringum pylsuvagnana og ryðst ölmótt og illa til reika fram og aftur um miðbæinn og spýr og grætur utan í húsveggi fram eftir nóttu.“

Það fólk sem stöðugt hneykslast á „ástandinu í miðbænum nú til dags“ hefði gott af að lesa þetta. Merkilegt hvernig sumir virðast halda að aldrei hafi sést drukkið fólk í miðbæ Reykjavíkur fyrr en á síðustu árum. Var það ekki Oscar Wilde sem sagði (fyrir meira en heilli öld) að heimurinn hefði ekkert versnað, það væri bara fréttaflutningurinn sem hefði batnað.

sunnudagur, 18. ágúst 2002

Þá er ég búin að henda kommenta-kerfinu út af síðunni. Það var alltaf í klessu þannig að ég leyfi því alla vega að hvíla sig í bili.
Menningarnóttin var frábær eins og venjulega, þrátt fyrir að ýmislegt hafi farið öðruvísi en áætlað var. Til dæmis ætlaði ég að byrja á vísnatónleikum í Hljómskálanum klukkan fjögur en þegar ég kom þangað var allt orðið troðfullt og fólki ekki lengur hleypt inn. Mál manna var að það yrði nauðsynlegt að koma á staðinn klukkutíma fyrir næstu tónleika ef maður ætti að komast inn, þannig að ég gaf upp alla von um það. Fór í staðinn og hlustaði á djass í bakgarðinum hjá Jómfrúnni, horfði á örleikrit í Íslandsbanka, fór á tónleika með KC-kvartettinum svokallaða í búð á Skólavörðustíg og þvældist síðan bara um. Mjög fínt.

Við Kata hittumst svo um kvöldmatarleytið og fengum okkur að borða. Síðan höfðum við planað að fara á Rímur og rapp og sjá til eftir það, en gera alla vega sitthvað fleira um kvöldið.

Rímur og rapp byrjaði klukkan átta. Þá var tilkynnt að þetta yrði um tveggja og hálfs tíma dagskrá, sem var ansi mikið meira en við höfðum búist við, en við hugsuðum með okkur: jæja, við sitjum rólegar í bili og sjáum svo til.

Dagskráin hófst og var fullkomlega absúrd á köflum en oft bráðskemmtileg. En þegar klukkan var orðin hálfellefu og þeir tveir og hálfu tímar liðnir sem boðaðir höfðu verið í upphafi tilkynnti Eva María (sem var kynnir) að nú væri Lúðrasveit Reykjavíkur að koma sér fyrir, og Steindór Andersen myndi kveða með henni. Svo taldi hún upp þau atriði sem voru eftir, sem voru ófá. Við Kata litum á Stefán og Steinunni sem sátu við hliðina á okkur og veltum fyrir okkur hvað þetta ætti eftir að taka langan tíma í viðbót. Hálftíma? Já, eigum við ekki að vera bjartsýn?

Raunin varð sú að lúðrasveitaratriðið eitt tók næstum hálftíma — ég hef ekkert á móti lúðrasveitum, en það var augljóslega hugmynd dauðans að hafa hana með. Næsta atriði á eftir var absúrdleikþáttur sem var álíka langur og ennþá leiðinlegri. Við hristum höfuðuð, þetta var orðið einum of. En fyrst við vorum búin að þrauka svona lengi var eiginlega ekki hægt að fara án þess að sjá lokaatriðin, þar á meðal Erp. Sem betur fer brást hann ekki væntingum okkar. En dagskránni lauk ekki fyrr en korter yfir tólf! Ég hélt að engum dytti í hug að skipuleggja atburð á menningarnótt sem ætti að vera lengri en klukkutími, hvað þá að láta hann teygjast á fimmta tíma. Lít á það sem meiriháttar afrek að hafa lifað þetta af!

Eins og gefur að skilja var menningarnæturdagskráin löngu búin að mestu þegar við komum af þessari absúrdsamkomu, en sem betur fer voru einhverjar leifar þó eftir. Við brugðum okkur á Kaffi Vín og hlustuðum á dixielandhljómsveitina Öndina sem var frábær, og fórum svo á eftir hljómsveitinni í skrúðgöngu niður Laugaveginn. Að dilla sér við dixieland og dansa conga niður Laugaveginn — meðan á því stóð uppgötvaði ég að þetta hlyti alltaf að hafa verið óuppfylltur draumur!

föstudagur, 16. ágúst 2002

Sumaróperan er frábær! Var að koma heim af Dídó og Eneasi eftir Purcell – uppfærslan var mjög skemmtileg, söngurinn að mestu leyti afbragðs góður og tónlistin vægast sagt himnesk. Það er bara ein sýning eftir og hún verður í Borgarleikhúsinu á sunnudagskvöld; hvet alla til að að drífa sig. Ég gæti vel hugsað mér að fara aftur.
Akkuru er ekkert búið að uppfæra Múrinn í dag? Mig vantar Múrskammtinn minn!
Kári bróðir minn er TVÍTUGUR í dag! Hann fær skrilljón hamingjuóskir!

fimmtudagur, 15. ágúst 2002

Sjónvarpshandbókin var að koma inn um bréfalúguna hjá mér. Þar komst ég að því að sunnudaginn 25. ágúst kl. 20 er þáttur á dagskrá Ríkissjónvarpsins sem lýst er svo: „Árni Johnsen hefur umsjón með þættinum Bundinn er bátlaus maður sem er ferðasaga frá Færeyjum.“ Veit ekki hvort ég á að hlæja að þessu eða gráta. En það er ljóst hvar fáránleikaverðlaun mánaðarins eiga heima.
Molbúarnir eru með könnun á síðunni sinni um það hvaða ökutæki sé mest ógnvekjandi af öllum. Ég þekki ekkert af þessum tækjum – sé að þetta er sennilega töluvert lókal – en get ekki annað en bent á það að þarna vantar eitt ökutæki. Hvaða ökutæki? spyrja þá sennilega einhverjir. Það kemur fram í eftirfarandi sögu.

Einu sinni vorum við Kári bróðir minn (sem er einn af fyrrgreindum Molbúum) á leiðinni austur í Mývatnssveit og lentum á eftir bíl í Víkurskarðinu sem virtist í fyrstu venjulegur sendibíll. Þar kom að ég gat farið fram úr honum og þá gerðum við óþægilega uppgötvun: þetta var nefnilega Brúðubíllinn. Umtalsvert áfall, en þó ekkert á við það þegar við vorum komin ögn lengra. Þá æpti Kári upp yfir sig: „Neeeiii!!!!!!! Helga Steffensen er við stýrið!!!“
Ég fékk svo mikið sjokk að ég keyrði næstum út af.

Eins og flestir vita hefur Brúðubíllinn valdið íslenskum börnum sálarkvölum áratugum saman. Vonandi hafa nógu margir átt sama láni að fagna og nokkrir fastagestir (eða íbúar) á kaffistofunni í Árnagarði sem starfræktu óformlegan stuðningshóp um tíma í hittiðfyrra og veittu hver öðrum síðbúna áfallahjálp. Við það varð meðal annars til hið hentuga lýsingarorð lillagulur. Kannski verður sagan af því sögð síðar á þessari síðu.
Svar við kommenti Kristbjarnar á færsluna hér fyrir neðan, ég get nefnilega ekki kommenterað í Enetation-dótinu í vinnunni, held að ég fari að henda því út hvort eð er því það virðist þyngja síðuna og virkar ekki nema endrum og sinnum ... Þetta er orðinn svolítið langur útúrdúr. Það sem ég ætlaði að segja: Já, ég heyrði sko um „Danube“ í sjónvarpsfréttunum í gær. Stundum held ég að sumir svokallaðir „fréttamenn“ hafi ekki áttað sig á því að tilgangurinn með heilanum er að maður geti hugsað.

miðvikudagur, 14. ágúst 2002

Einhverjir lesendur muna kannski eftir sjónvarpsvandræðum mínum sem hófust fyrir tæpum hálfum mánuði. Skjárinn tók upp á því að verða hvítur og þar kom að hann fór jafnvel að slökkva á sér. Í síðustu viku kom ég tækinu loksins í viðgerð og fékk það til baka í dag. Eiginlega kunni ég líka ágætlega við að vera sjónvarpslaus svona um hásumar (enda er næstum ekkert skemmtilegt búið að vera í sjónvarpinu síðustu vikurnar). Og þetta vakti smá nostalgíu um þann tíma þegar það var ekkert sjónvarp í júlí. Mín vegna mætti alveg endurvekja þann sið að leggja niður sjónvarpsútsendingar um tíma á sumrin. En svo er líka fínt að geta aftur farið að glápa.
Nei sko, lífsmark frá Bjarna í bloggheimum! Það var kominn tími til! Hann er enn í sumarfríi, sem er gott mál fyrir mig, því ég er hálfgerð förukona í vinnunni, flakka milli borða þeirra sem eru í fríi og á mánudaginn lagði ég undir mig borðið hans Bjarna. Þar kann ég ágætlega við mig, fyrir utan það að tölvan er hræðileg. En hann fer að koma aftur og þá þarf ég að finna mér nýjan samastað.
Tek undir ábendingar Þórdísar til götunafnanefndarmannsins. Það er löngu kominn tími til að endurvekja þá byltingarkenndu hugmynd að götunöfn geti endað á -gata, -vegur, -stígur o.s.frv. Ef slíkt kæmist í framkvæmd yrði það mikið fagnaðarefni.

Þórdísi þekki ég annars ekki neitt, en hún er ákaflega skemmtilegur bloggari. Örleikritin úr daglega lífinu eru til dæmis snilld!

þriðjudagur, 13. ágúst 2002

Svansý og Kristbjörn eru farin að skipuleggja endurfundi bekkjarins okkar, eins og lesa má í kommentunum við þetta blogg hennar Svansýjar. Þar hefur verið nefndur sá möguleiki að halda vöfflu- eða pönnukökukaffiboð, en niðurstaðan virðist orðin að smala fólki út að borða. Það líst mér vel á. Vöfflu/pönnukökuhugmyndin er samt frábær og væri mjög í anda bekkjarins. Það hafa ekki allir bekkir (nota bene í menntaskóla) haldið bekkjarpartí þar sem mestallt kvöldið var spilað á spil og það eina blandaða sem inn fyrir varir fólks kom var bland í poka. Helsta frávikið frá þröngum stíg dyggðarinnar fólst í því að ekki var spiluð félagsvist heldur morðingi.

Fleiri partí voru mjög í þessum anda. Önnur voru hins vegar umtalsvert líflegri; orðin annaðhvort–eða lýsa sennilega partíhaldi bekkjarins í hnotskurn. Ég man til dæmis vel (mesta furða) eftir góðu partíi heima hjá Svansý. Þegar nokkuð var liðið á kvöldið og innbyrt áfengismagn farið að segja til sín voru flestir komnir ofan í heita pottinn á sólpallinum, ýmist í sundbolum af Svansý eða stuttbuxum af Svansý eða bolum af Svansý eða náttkjólum af Svansý. Eða fáklæddari.

Spurning hvort það væri réttast að skipuleggja sundlaugarpartí til að halda minningunni á lofti? Reyndar ætlaði bekkurinn alltaf í nætursund og var stundum kominn vel áleiðis með að framkvæma þá hugmynd. Einu sinni (reyndar eftir fyrrgreint morðingjapartí) var nokkur hópur til dæmis kominn út á Svalbarðseyri og einhverjir búnir að klifra yfir sundlaugargirðinguna. Það leit út fyrir að loksins ætlaði ekkert að standa í vegi fyrir því að við kæmumst í nætursund. Þangað til í ljós kom að það var ekkert vatn í sundlauginni!

mánudagur, 12. ágúst 2002

Smá viðbót við bloggið um laugardagskvöldið. Á „vinskessufundinn“ kom Una nefnilega með eftirrétt sem var vægast sagt guðdómlegur. Nú veit ég hvernig kakan „Dásamlegur dauði“ í A Murder is Announced eftir Agöthu Christie hlýtur að hafa verið.
Leitin að Ísfólkinu hélt áfram í dag, því á leiðinni heim úr vinnunni kom ég við í Góða hirðinum þar sem er hægt að fá bækur fyrir lítinn pening, en því miður voru engar Ísfólksbækur til þar frekar en í Kolaportinu. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég héldi áfram að kaupa einkennilegar bækur (þótt ekki væri það Nancy í þetta skiptið) því ég rakst á þá ágætu bók Holdið er torvelt að temja eftir Snjólaugu Bragadóttur og greip hana samstundis. Þá held ég að mér sé búið að takast að eignast allar bækur Snjólaugar (sem eru tólf) nema þá fyrstu, Næturstað. Auglýsi hér með eftir henni!

Ég keypti líka tvær matreiðslubækur, og Lottu í Ólátagötu eftir Astrid Lindgren, og Dóru eftir Ragnheiði Jónsdóttur (sem ég átti reyndar fyrir en í annarri útgáfu), og krimma eftir Ian Rankin, The Falls. Hef áður lesið einn krimma eftir Rankin, sem var ágætur, þótt sjónvarpsþættirnir hafi það fram yfir bækurnar að þá fær maður að sjá og heyra í John Hannah, sem leikur lögguna John Rebus.

Síðast en ekki síst festi ég kaup á bókinni Abba: The Name of the Game sem er án efa stórfróðleg þótt ég efist um að hún standist snilldarlegri Múrgrein Kötu snúning. En hún kostaði bara fimmtíukall eins og aðrar bækur á útlensku í búðinni, þannig að það var ekki annað hægt en leyfa henni að fljóta með. Og verðið er að öðru leyti eftir þessu. Íslensk skáldverk kosta 200 kr., þýdd skáldverk 100 kr., barnabækur eru líka á 100 kr. og bækur á útlensku eru sem sagt á 50 kr. Annars konar bækur eru reyndar verðlagðar sérstaklega, til dæmis kostuðu matreiðslubækurnar sem ég keypti 300 kr. hvor og voru því mun dýrari en hinar bækurnar þótt seint geti þetta talist há upphæð. Fullkomlega til fyrirmyndar og ákaflega gott fyrir bókasjúklinga eins og mig.
Það er rétt hjá Ásu að ég var að leita að Ísfólksbókum í Kolaportinu á laugardaginn. En sú leit bar því miður engan árangur. Hins vegar rakst ég á Nancy-bók sem ég ákvað að kaupa, og þegar ég sá síðan Nancy-bók á ensku í næsta bás á eftir var ekki hægt annað en að kaupa hana líka. Kápumyndin á henni er með eindæmum ljót.

Hvað á það annars að þýða, Ása, að njósna svona um mig úr fjarlægð?! Mér finnst svindl að þú vitir núna hvernig ég lít út en ég þekki þig ekki í sjón!!!

Þótt engar Ísfólksbækur hafi orðið á vegi mínum um helgina var hún samt prýðileg. Úr Kolaportinu lá leiðin til að fylgjast með Gay Pride; gangan var stórglæsileg og þjóðhátíðarstemmning í bænum. Því miður gat ég ekki fylgst með nema stutta stund niðri á Ingólfstorgi, vegna þess að Hanna vinkona mín er á landinu í örfáa daga (hún býr í Malmö og vinnur í Kaupmannahöfn, en er reyndar að fara að flytja aftur til baka yfir sundið), og hún og nokkrar vinkonur okkar í viðbót voru að koma í mat til mín. Þar sem planið var ekki að gefa þeim hrátt lambalæri að éta komst ég að því að sennilega væri best að drífa sig heim og fara að elda. Á leiðinni hitti ég að vísu heilmargt fólk sem ég þekkti og þurfti að spjalla við, þannig að tíminn var orðinn ansi naumur þegar ég loksins komst heim. Sem betur fer hafði ég gert forréttinn daginn áður, annars hefði þetta sennilega endað með ósköpum! En þetta hafðist allt á endanum og kvöldið var stórskemmtilegt.

föstudagur, 9. ágúst 2002

Var að telja Ísfólksbækurnar mínar og komst að því að ég á 34 sem þýðir að mig vantar 13. (Þær eru nefnilega 47 samtals.) Reyndar á ég eina af þeim sem mig vantar á dönsku, en þótt danska sé skemmtilegt tungumál telst hún ekki alveg með. Svo á ég tvö íslensk eintök af einni bókinni og eina á ég bæði á íslensku og norsku. En mig vantar semsé þrettán. Er einhver þarna úti sem vill losna við Ísfólksbækur nr. 3, 4, 9, 13, 16, 19, 22, 26, 27, 36, 37, 38 og 40??? Þá skal ég alveg taka þær að mér!
Svansý spekúlerar í því hvort Ríki ljóssins hafi hætt að koma út á íslensku í miðjum klíðum. Fyrir þá sem ekki vita er þetta líka bókaflokkur eftir Margit Sandemo, sem kom á eftir Ísfólkinu og Galdrameistaranum. Ég las Galdrameistarann, sá bókaflokkur byrjaði ágætlega en rann síðan heldur út í sandinn. Var samt í lagi, en það var einum of þegar hún fór að blanda persónum úr Ísfólkinu inn í söguþráðinn. Það var gott þar sem það átti heima (þ.e. í sínum eigin bókaflokki), en ekki nógu gott að Sandemo skyldi ekki takast að skrifa sig frá því. Ríki ljóssins reyndi ég að lesa en komst ekki einu sinni gegnum fyrstu bókina. Hún var einfaldlega of vond. Og þar var blandað inn í söguþráðinn bæði persónum úr Ísfólkinu og Galdrameistaranum. Fólk á að læra af mistökunum, ekki endurtaka þau í margfalt verri mynd.
Hér er vefsíða um Ísfólkið og aðrar bækur eftir Margit Sandemo.
Hvet alla til að taka Ísfólks-könnunina á bloggsíðunni hennar Svanhildar; hún er semsé að kanna hvort fólk hafi lesið Ísfólkið. Það hef ég sko gert. Allar fjörutíu og sjö bækurnar, oft og mörgum sinnum. Byrjaði meira að segja þegar ég var átta ára — já, ég var mjög einkennilegt barn. Held samt að ég hafi ekki beðið tjón á sálu minni við þetta. Til að byrja með las ég bækurnar alltaf hjá frænku minni en þar sem ég bjó næstum því á Amtsbókasafninu á Akureyri þegar ég var barn fór ég innan tíðar að nýta mér þjónustu þess til að nálgast þessar bækur eins og ótalmargar aðrar. Reyndar var alltaf nokkuð erfitt að fá nýjar Ísfólksbækur, en það leið ekki á löngu þangað til ég uppgötvaði hina ágætu pöntunarþjónustu safnsins, og lét skrá mig á pöntunarlista eftir nýjum Ísfólksbókum strax og þeir voru opnaðir. Innan tíðar hætti ég reyndar að þurfa að hafa fyrir því sjálf, þar sem ég var í góðu sambandi við bókaverðina (eins og fyrr segir bjó ég eiginlega á safninu), sem fóru að setja mig sjálfkrafa efst á biðlistana eftir Ísfólkinu. Þetta var sko almennileg þjónusta.

Og Ísfólkið var og er frábært, þótt fyrri helmingurinn af seríunni beri óneitanlega af þeim síðari. Ég lít ennþá öðruhverju í þessar bækur. Verst að ég á ekki allar. Hefur þó áskotnast meirihlutinn en vantar sitthvað inn í.

miðvikudagur, 7. ágúst 2002

Kertafleytingin í gær var afbragðs samkoma eins og venjulega (þótt það sé varla hægt að gleðjast yfir henni þar sem maður vildi óska að tilefni hennar hefði aldrei orðið til). Ávarp Hjálmars Hjálmarssonar var afbragðs gott, hann gerði að umtalsefni hluti sem öllum væri hollt að hafa í huga. Best að vitna beint í endursögn Stefáns á friðarvefnum: „Hann [þ.e. Hjálmar] setti kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki í samhengi við stöðu alþjóðamála nú um stundir og minnti á, að þó oft væri rætt um að mesta hættan varðandi kjarnorkuvopn fælist í því að vitfirringar kæmu yfir þau höndum þá mætti ekki gleyma að í það eina skipti sem slíkum vopnum hefur verið beitt þá hafi það verið ákvörðun skarpgreindra leiðtoga lýðræðisríkis.“
Mjög þörf áminning.
Afskaplega skil ég Hilmu vel að vera lítið hrifin af Húsavík. Það álit er reyndar ekki óalgengt meðal Þingeyinga enda ýmis tilefni til.

Fyrir allmörgum árum var Brynja frænka mín mikið að velta fyrir sér dauðanum, hversu gamalt fólk þyrfti að vera til að deyja og þar fram eftir götunum. Þetta var að haustlagi þannig að um þessar mundir var verið að flytja lömbin út á Húsavík til slátrunar. Henni fannst sjálfgefið að fleiri ættu eftir að leggja leið sína þangað og bar fram spurninguna: „Amma, hvenær ferð þú á sláturhúsið?“

Þetta var reyndar sérlega fyndið því að sjúkrahúsið á Húsavík, þar sem Þingeyingar enda ósjaldan ævidaga sína, hefur á köflum mátt teljast eins konar sláturhús. Einu sinni þurfti frænka mín að leggjast þar inn og var sett í botnlangaskurð. Það var frumleg lækningaaðferð — síðar kom nefnilega í ljós að hún var með lungnabólgu!

þriðjudagur, 6. ágúst 2002

En hvað það var notalegt að fá þriggja daga helgi, mér tókst að slappa ótrúlega vel af. En svo er líka ágætt að koma aftur í daglega amstrið.

sunnudagur, 4. ágúst 2002

„Mér finnst rigningin góð ...“ Ekki síst þegar ég heyri hana bylja á húsinu og get verið inni í rólegheitum. Þegar maður býr uppi í risi í bárujárnsklæddu timburhúsi eins og ég og rúmið manns er undir súð sem rigningin dynjur kröftuglega á er ógurlega gott að halda sig undir sæng. Færa sig í mesta lagi fram í sófa eins og ég gerði langt fram eftir degi í dag. Svo dreif ég mig reyndar á fætur og fór í langan, langan göngutúr. Það rigndi svo mikið að göturnar breyttust í lækjarfarvegi og ég hefði orðið holdvot inn að beini ef það hefði ekki rifjast upp fyrir mér áður en ég lagði af stað að ég á fína, rauða regnhlíf. Ef ég ætti líka stígvél hefði ég hoppað í pollunum.

En nú er ég komin heim aftur og ætla að fara að elda mér eitthvað gott og halda svo áfram að liggja í leti. Því miður virðist sjónvarpið mitt aftur vera að tapa sér þannig að mér virðist ætla að ganga illa að horfa á allar myndirnar um geðveiku konurnar sem ég var búin að taka á vídeó. Kannski ég dragi fram bækur um sama efni í staðinn?

laugardagur, 3. ágúst 2002

Var að koma af bæjarrölti í rigningunni sem var ósköp notalegt, fór fyrst á eitt kaffihús, svo á annað, gekk síðan um og gerði nokkrar tilraunir til að fara á eitt kaffihús í viðbót. Þær tvær fyrstu mistókust þar sem viðkomandi kaffihús voru bæði lokuð en sú þriðja tókst. Ætlaði samt að vera pínu aðhaldssöm og ekki fá mér að borða úti, en lét freistast á þessu þriðja kaffihúsi, Húsi málarans, til að fá mér fisk dagsins, sem reyndist vera grillaður lax, sinnepssmurður með saffranhrísgrjónum og guðdómlegri sítrónusósu. (Hvað eru mörg s í því?!) Óheyrilega gott og kostaði bara 990 kr. Mjög ánægð með svona.

Á bæjarröltinu kom ég líka við í Eymundsson þar sem ég freistaðist líka til að eyða peningum og keypti tvo geisladiska á 2 fyrir 1000 kr. tilboði, Arena með Duran Duran og Blondie – the essential collection sem stendur þó ekki alveg undir nafni, Heart of Glass er til dæmis ekki með, en er samt skemmtilegur diskur. Gaman. Reyndar á ég Arena á gamaldags vínylplötu, en sú sorglega staðreynd að ég á ekki plötuspilara hefur komið í veg fyrir að ég hafi getað hlustað á hana býsna lengi. Sem er mikil synd.

Arena hefur meðal annars það sögulega gildi í lífi mínu að vera fyrsta platan sem ég keypti mér sjálf. Það gerðist í Vöruhúsi KEA þegar ég var svona tíu ára og ég greiddi fyrir með inneignarnótu sem ég hafði fengið fyrir að vera eitt af þrjátíu börnum í bráðskemmtilegri auglýsingu fyrir KEA-hangikjöt! Reyndar minnir mig að inneignarnótan hafi ekki dugað alveg fyrir plötunni þannig að einhverju fé þurfti að bæta við svo hún gæti komist í eigu mína en það er önnur saga. Þetta var á þeim tímum þegar stríðið milli aðdáenda Wham og Duran Duran stóð sem hæst með lesendabréfum í dagblöðum og ég veit ekki hverju. Eins og skarpir lesendur eru sennilega þegar búnir að geta sér til hélt ég með Duran Duran. Orðalagið „að halda með“ í þessu samhengi er auðvitað ótrúlega fyndið en það var vægast sagt útbreitt á þessum tíma. Spurningin „hvort heldurðu með Wham eða Duran Duran“ heyrðist stöðugt á skólalóðum úti um allt land. Einhver þriðji (eða fjórði eða fimmti) valkostur taldist ekki vera til.

Þetta voru án efa athyglisverðir og undarlegir tímar þótt maður vissi það ekki þá. Svoleiðis uppgötvast sennilega aldrei fyrr en eftir á. Og ótrúlegustu hlutir hafa breyst. Vöruhús KEA er til dæmis ekki lengur til! Allt er í heiminum hverfult!

föstudagur, 2. ágúst 2002

Kom við á bókasafninu á leiðinni heim úr vinnu og tók tvær vídeóspólur til að horfa á um helgina, Girl Interrupted og Konur á barmi taugaáfalls. Hmmm, kannski svolítið ískyggilegt mynstur í þessu?!
Var að gera frábæra uppgötvun: Tvær af uppáhalds bókarpersónunum mínum eru vægast sagt andlega skyldar. Bridget Jones er í rauninni Þórbergur Þórðarson endurholdgaður! Bæði í eilífri leit að lífsspeki (Þórbergur hefði heldur betur verið á kafi í sjálfshjálparbókum eins og Bridget ef þær hefðu verið komnar til sögunnar á yngri árum hans), reglulega á tauginni yfir því að þegar einhver hafi sagt eða gert eitthvað meini hann í rauninni eitthvað annað, að þeirri tilhneigingu ógleymdri að ætla stöðugt að bæta sig á allan hátt og gera endalausa lista yfir plön sín í því skyni.

fimmtudagur, 1. ágúst 2002

Gaaaaahhhh!!! HVAÐ ER AÐ SJÓNVARPINU MÍNU??? Á skjánum sést aðra stundina það sem er verið að senda út (gott) en hina stundina verður skjárinn hvítur með mjóum hvítum línum (öðruvísi hvítum en afg. af skjánum) þversum (alls ekki gott). Hins vegar heyrist hljóðið allan tímann. Sem þýðir að þessa stundina er ég einkum að hlusta á Sex and the City.
Ef einhver veit hvernig á þessu stendur og vill miðla af visku sinni má það gjarnan.