sunnudagur, 18. ágúst 2002

Menningarnóttin var frábær eins og venjulega, þrátt fyrir að ýmislegt hafi farið öðruvísi en áætlað var. Til dæmis ætlaði ég að byrja á vísnatónleikum í Hljómskálanum klukkan fjögur en þegar ég kom þangað var allt orðið troðfullt og fólki ekki lengur hleypt inn. Mál manna var að það yrði nauðsynlegt að koma á staðinn klukkutíma fyrir næstu tónleika ef maður ætti að komast inn, þannig að ég gaf upp alla von um það. Fór í staðinn og hlustaði á djass í bakgarðinum hjá Jómfrúnni, horfði á örleikrit í Íslandsbanka, fór á tónleika með KC-kvartettinum svokallaða í búð á Skólavörðustíg og þvældist síðan bara um. Mjög fínt.

Við Kata hittumst svo um kvöldmatarleytið og fengum okkur að borða. Síðan höfðum við planað að fara á Rímur og rapp og sjá til eftir það, en gera alla vega sitthvað fleira um kvöldið.

Rímur og rapp byrjaði klukkan átta. Þá var tilkynnt að þetta yrði um tveggja og hálfs tíma dagskrá, sem var ansi mikið meira en við höfðum búist við, en við hugsuðum með okkur: jæja, við sitjum rólegar í bili og sjáum svo til.

Dagskráin hófst og var fullkomlega absúrd á köflum en oft bráðskemmtileg. En þegar klukkan var orðin hálfellefu og þeir tveir og hálfu tímar liðnir sem boðaðir höfðu verið í upphafi tilkynnti Eva María (sem var kynnir) að nú væri Lúðrasveit Reykjavíkur að koma sér fyrir, og Steindór Andersen myndi kveða með henni. Svo taldi hún upp þau atriði sem voru eftir, sem voru ófá. Við Kata litum á Stefán og Steinunni sem sátu við hliðina á okkur og veltum fyrir okkur hvað þetta ætti eftir að taka langan tíma í viðbót. Hálftíma? Já, eigum við ekki að vera bjartsýn?

Raunin varð sú að lúðrasveitaratriðið eitt tók næstum hálftíma — ég hef ekkert á móti lúðrasveitum, en það var augljóslega hugmynd dauðans að hafa hana með. Næsta atriði á eftir var absúrdleikþáttur sem var álíka langur og ennþá leiðinlegri. Við hristum höfuðuð, þetta var orðið einum of. En fyrst við vorum búin að þrauka svona lengi var eiginlega ekki hægt að fara án þess að sjá lokaatriðin, þar á meðal Erp. Sem betur fer brást hann ekki væntingum okkar. En dagskránni lauk ekki fyrr en korter yfir tólf! Ég hélt að engum dytti í hug að skipuleggja atburð á menningarnótt sem ætti að vera lengri en klukkutími, hvað þá að láta hann teygjast á fimmta tíma. Lít á það sem meiriháttar afrek að hafa lifað þetta af!

Eins og gefur að skilja var menningarnæturdagskráin löngu búin að mestu þegar við komum af þessari absúrdsamkomu, en sem betur fer voru einhverjar leifar þó eftir. Við brugðum okkur á Kaffi Vín og hlustuðum á dixielandhljómsveitina Öndina sem var frábær, og fórum svo á eftir hljómsveitinni í skrúðgöngu niður Laugaveginn. Að dilla sér við dixieland og dansa conga niður Laugaveginn — meðan á því stóð uppgötvaði ég að þetta hlyti alltaf að hafa verið óuppfylltur draumur!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli