þriðjudagur, 24. maí 2005

Húrra! Það er ekkert smá gaman að ganga inn í búð, benda og segja "ég ætla að fá svona tölvu", borga og ganga út með nýju græjuna. Þetta gerði ég einmitt í dag. Nú þarf ég bara að fara að gera eitthvað í netmálunum heima hjá mér.

föstudagur, 20. maí 2005

Ísraelska söngkonan og sú rúmenska voru í harðri samkeppni um hvor kæmist nær því að missa brjóstin upp úr hálsmálinu í gær. Það verður spennandi að sjá hvernig sú keppni þróast í úrslitunum.

Uppáhaldslögin mín komust áfram (Noregur, Ungverjaland, Sviss, Moldóva, Króatía) þannig að ég er býsna sátt. Mér finnst svosem óskiljanlegt af hverju Makedóníu og Ísrael gekk vel en það væri ekkert gaman ef manni væri aldrei komið á óvart. Og þótt ég hafi búist við því fyrirfram (eins og 99% Íslendinga) að Selma rúllaði þessu upp var ég ekkert hissa eftir keppnina sjálfa, því þótt lagið væri alveg þokkalegt og þær stæðu sig ágætlega fannst mér bæði atriðið og lagið verða frekar flatt í sjónvarpinu, þetta skar sig ekki úr að nokkru leyti og var afar laust við að vera eftirminnilegt.

Ég gef lítið fyrir kenningarnar um þessa furðulegu og/eða skelfilegu Austur-Evrópu sem hafi einhvern annan tónlistarsmekk en "við" og kjósi "okkur" ekki þess vegna. Það er t.d. ekki beinlínis eins og íslenska lagið hafi haft einhver sérstök vesturevrópsk eða norræn sérkenni. Og mér finnst ekkert skrýtið að hlutfallslega fleiri austurevrópulönd hafi komist áfram - þau voru bara almennt með betri lög (og Makedónía er þá undantekningin sem sannar regluna).

fimmtudagur, 19. maí 2005

Uppáhaldssjónvarpsþættirnir mínir síðustu vikur hafa að sjálfsögðu verið norrænu Júróvisjónþættirnir. Vitsmunalegt spjall (reyndar misvitsmunalegt í þessu tilfelli) um léttvæg málefni á norsku, dönsku, sænsku og finnlandssænsku er bara æðislegt.

Ég hef samt saknað rauðu, gulu og grænu hnappanna frá í fyrra og finnst synd að settið hafi verið gert smartara. Þetta var svo fallega hallærislegt í fyrra. Hef líka saknað sænsku konunnar frá því í fyrra, hún var svo ágætlega skelegg, allt annað en þessi leiðinlega Charlotte sem er upptekin af tvennu, annars vegar sjálfri sér, hins vegar því hvort lögin "pössuðu" í keppnina. Það minnti reyndar mjög á umræðurnar í Þýskalandi árið 2000 þegar lagið sem vann undankeppni var bara dár og spé í staðinn fyrir að vera "Schlager" og Schlager-mafían í landinu varð brjáluð. (Ég skrifaði fræðslupistil um málið fyrir Stúdentablaðið veturinn á eftir, kannski ég ætti að draga hann fram.)
Finnlandssvíinn er annars uppáhaldspersónan mín í þessum þáttum, hann er frábær og fötin hans líka!

Það eina sem dregur úr sorginni yfir að þættirnir skuli vera búnir er að það skuli vera komið að keppninni sjálfri. Mér finnst norska glysrokkið fullkomin snilld og held líka mikið upp á lögin frá Sviss, Ungverjalandi og Moldóvu. Króatíska lagið finnst mér flott og það pólska líka (jamm, ég fíla þjóðlagatónlist og þjóðlagapopp/-rokk).

Ég er ekkert sérlega hrifin af austurríska laginu en það fær samt stóran plús fyrir jóðlið.

Söngkonan frá Andorra geiflaði sig svo hroðalega í myndbandinu að lagið varð sjálfkrafa hörmulegt. Var hins vegar að hlusta án þess að horfa um leið og lagið skánaði til muna við það. Plús fyrir að syngja á katalónsku.

Vore nordiske venner standa sig afar misvel. Norska lagið er auðvitað æði eins og ég er búin að segja en það finnska heillar mig ekki (þótt lagið sé ekkert endilega beinlínis vont) og mér fannst danska lagið líka slappt þegar ég heyrði það fyrst en kannski venst það sæmilega. (Og þótt ég ætli ekki að blogga um lögin sem eru ekki í undankeppninni get ég ekki látið hjá líða að nefna í þessu samhengi hvað sænska lagið er misheppnað.)

Litháíska og eistneska lagið eru óspennandi og þótt það lettneska sé svosem sætt er það óhóflega vemmilegt.

Búlgarska myndbandið var eitt af mörgum sem minnti óhóflega á íslenskar leiksýningar út af öllu vatnssullinu. Kannski er lagið skárra en mér fannst í fyrstu, þrátt fyrir hina glötuðu alrímsklifun Lorraine in the rain. Ég er allavega búin að fá það rækilega á heilann - en reyndar eru það ekki endilega meðmæli.

Slóvenía sullaði líka í vatni. Æi.

Leiðinleg lög sem óþarft er að eyða fleiri orðum á, sum meira að segja ýmist hundleiðinleg eða skelfileg nema hvort tveggja sé: Hvíta-Rússland, Ísrael, Rúmenía, Mónakó, Portúgal, Belgía, Makedónía.

Ég ætla rétt að vona að hollenska Whitney Houston eftirherman komist ekki áfram. Hún fær hallærisverðlaun ársins.

Svo er spurning hvort írsku sifjaspellin verða Albanía þessa árs. Eins og allir hljóta að muna var Albanía með skelfilegasta myndband sem sést hefur í fyrra og maður gerði fyrirfram ráð fyrir núll stigum á línuna, nema kannski einstaka samúðaratkvæðum. Svo rúllaði stelpan þessu upp á sviðinu og maður komst að því að lagið var fínt.
Held samt að írska lagið sé of glatað til að það sama gerist. Bíð spennt að sjá hvort það verður riverdance á sviðinu eins og í vídeóinu. Það jók gildið umtalsvert - þ.e. súrrelíska gildið.

mánudagur, 16. maí 2005

Vildi að ég væri í alvöru borg en ekki þykjustu borg. Reykjavík er smábær með mikilmennskubrjálæði.
Ég á frí í dag - húrra - því í gær tókst mér loksins að skila af mér verkefni sem hafði dregist óþarflega lengi. Þannig að ég á semsagt frí. Eini gallinn að ég hef ekki hugmynd um hvað ég á af mér að gera. Auðvitað veit ég um ótalmargt sem ég gæti gert, t.d. þrifið, en það er ekki sjens að ég nenni því. Það er ábyggilega hægt að deyja úr leti.

föstudagur, 13. maí 2005

Og enn versnar það. Meðaleinkunnin í bókmenntagetrauninni heldur áfram að lækka og er orðin 35,2 (þegar 42 hafa tekið prófið).
Þar að auki er ísskápurinn minn dáinn. Ég nenni ekki svoleiðis veseni.

fimmtudagur, 12. maí 2005

Ekki batnar það. Meðaleinkunnin í bókmenntagetrauninni er komin niður í 36,7 (þegar 33 hafa tekið prófið). Örfáum, þar á meðal móður minni, hefur þó tekist að nýta sér þetta próf til að bæta fyrir hraklega frammistöðu í fyrra prófinu og hafa náð á samanlögðu - sem er tvímælalaust örlítill léttir, þrátt fyrir allt.

miðvikudagur, 11. maí 2005

Fólk veldur mér vonbrigðum og það unnvörpum. Meðaleinkunnin í bókmenntaprófinu var lengi framan af ívið hærri en í prófinu um mig en nú hefur dæmið snúist við. Tölurnar eru svohljóðandi:
Þekkirðu Ernu?: Meðaleinkunn 39,2 (þegar 52 hafa tekið prófið).
Bókmenntagetraunin: Meðaleinkunn 37,8 (þegar 23 hafa tekið prófið).

Ég er miður mín yfir þessari almennu vanþekkingu.
Jæja, þá er það bókmenntagetraunin. (Höndum núið saman og glott djöfullega.) Sumar spurningarnar eru kannski ekki þær léttustu en aðrar eiga að liggja nokkuð ljósar fyrir.
Gjörið svo vel:
Úr hvaða bók?

þriðjudagur, 10. maí 2005

Ég hef ekki orðið vör við nógu mikla iðrun og yfirbót hjá öllum þeim svokölluðu vinum mínum sem hafa kolfallið á prófinu. Á tímabili var ég að því komin að viðurkenna að kannski væru sumar spurningarnar erfiðar - en fyrst komin eru tvö dæmi um 80 stig og önnur tvö um 70 stig hef ég ákveðið að það sé ekkert að þessu prófi. Í ljósi heildarútkomunnar hef ég þó ákveðið að telja 50 stig viðunandi árangur þótt það sé alveg á mörkunum. Aðrir eiga sjens á að komast aftur í náðina með almennilegri frammistöðu í bókmenntagetraun sem kemur seinna í vikunni (auðvitað verð ég að herma eftir Þórdísi og Tótu pönk og búa til svoleiðis próf).

mánudagur, 9. maí 2005

Óskaplega er fólk í miklum vandræðum með prófið mitt. Meðalskorið er undir 40 stigum og ótrúlega fólk hefur klikkað svakalega. Frænka mín sem bjó yfir umtalsverðum innherjaupplýsingum fékk ekki nema 70 stig, ákveðin vinkona mín sem hefði átt að geta fengið 80-100 stig náði ekki nema 50 stigum (nefni engin nöfn en fyrstu fimm stafirnir eru Svanh), og meira að segja bróðir minn fékk bara 50 stig. Hann stendur sig þó vel miðað við kyn. Aðrir karlmenn hafa ekki fengið nema 20-30 stig. Bráðabirgðaniðurstaðan af prófinu er því augljós: Karlmenn skilja mig greinilega ekki.
Ætli ég fylgi ekki straumnum og geri próf um sjálfa mig. Reyndar gerði ég svona próf fyrir löngu en það var bara fyrir útvalda.

En hér er semsagt getraunin:
Þekkirðu Ernu?


Svo má sjá hérna hvernig fólk hefur staðið sig.

þriðjudagur, 3. maí 2005

Af hverju í ósköpunum er ég með 'Ein bißchen Frieden' á heilanum? Þetta er næstum verra en 'Pósturinn Páll'.

mánudagur, 2. maí 2005

Ég er ekki endurnærð eftir helgina, enda meira en nóg að gera. Framan af gekk á með stöðugum skemmtilegheitum - fyrst var það hin stórfína doktorsvörn Sverris og frábær veisla að henni lokinni, mikið stuð og gleði. Það er svo merkilega gaman að skemmta sér með skemmtilegu fólki. Kvöldið eftir var svo veisla hjá Hugrúnu af góðu tilefni, þannig að skemmtanadagsverkin (eða -kvöldverkin eða -næsturverkin) urðu býsna drjúg.

Ég skrópaði bæði í morgunkaffi SHA og kröfugöngunni í gær. Þurfti að sinna uppsöfnuðum verkefni því ég er búin að vera með milljón skrilljón hluti á bakinu sem er algjörlega óþolandi. Stórhættulegt að hafa komist á bragðið með að eiga öðru hverju frí á kvöldin og um helgar - það er greinilega ávanabindandi og eykur manni leti.