fimmtudagur, 27. júlí 2006

Hvernig í ósköpunum er hægt að vera á móti vopnahléi? Finnst Condoleezu Rice ekki búið að drepa nógu marga?

Minni á mótmæli við bandaríska sendiráðið á morgun (föstudag) kl. 17.30.

þriðjudagur, 25. júlí 2006

Fyrir um viku byrjaði næstum-því-árlegt sundátak mitt. Það er afar einfalt, felur bara í sér að synda nokkurn veginn á hverjum degi, a.m.k. 1000 metra hverju sinni, en ég held það sjaldnast út lengur en tæpan mánuð, sennilega vegna þess að mér finnst ekki nógu gaman að synda. En það er góð hreyfing, góð hreyfing, góð hreyfing... (ætli ég nái bráðum að heilaþvo mig til að halda þessu áfram í tvo mánuði?)

Annar galli er að nú í sumar er óþarflega mikið um konur á trúnó í búningsklefunum í Vesturbæjarlauginni. Sumar senur eru undarlegri en aðrar. Í gær heyrði ég t.d. í tveimur konum sem töluðu ensku til að byrja með en skiptu yfir í dönsku þegar talið barst að persónulegum málum. Ég held allavega að þetta hafi verið sömu konurnar. Annars var ég gleraugnalaus þannig að það er ekkert að marka.

mánudagur, 17. júlí 2006

Daginn eftir að ég kvartaði yfir því að sumarið væri leiðinlegt ákvað ég að hætta að láta mér leiðast og dreif mig á salsanámskeið. Bætir, hressir, kætir. Bíð spennt eftir næsta námskeiði.

Þar að auki hef ég ýmis tilhlökkunarefni næstu mánuðina. Hér eru þau helstu:
  • tónleikarnir með Belle & Sebastian, og Emilílönu, á Borgarfirði eystra nú í júlílok, og stutt frí í Mývatnssveit og á Akureyri eftir það,
  • tveggja vikna ítölskunám í Napólí í september (og stopp í Berlín og Róm á leiðinni þangað),
  • helgarferð til Berlínar með vinnufélögunum í októberlok - og ég ætla út viku á undan þeim (ekki búin að ákveða hvað ég geri, en það er líklegt að ég skipti vikunni milli Leipzig og Berlínar).

Jamm, ég er búin að komast yfir það að Ítalir skuli hafa unnið Þjóðverjana í fótboltanum - tók bara þýsku línuna sem felur í sér að gleðjast einlæglega yfir þriðja sætinu og bara öllu heimsmeistaramótinu, og líta á þýska liðið sem "Weltmeister der Herzen". Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram að læra ítölsku og ég er semsagt búin að skrá mig í málaskóla í Napoli í tvær vikur í september. Og þetta stefnir í að verða afbragðs ferðalag: ég flýg til Berlínar þriðjudaginn 29. ágúst fyrir sáralítinn pening, þökk sé heita pottinum hjá Iceland Express, flýg síðan áfram til Rómar þremur dögum seinna (á föstudegi), verð þar væntanlega fram á sunnudag og tek þá lest til Napólí og verð semsagt á ítölskunámskeiði í tvær vikur. Því miður neyðist ég sennilega til að koma heim aftur - en nákvæmlega hvenær og hvernig kemur bara í ljós síðar.

Það skyggir fátt á gleðina núna - nema reyndar strætóhatararnir. Mæli með greininni hans Ármanns um efnið.

fimmtudagur, 13. júlí 2006

Ég held að Zidane hljóti að stefna á karríer í harðhausamyndum.

miðvikudagur, 12. júlí 2006

Það er að rifjast upp að mér finnst sumarið leiðinlegasta árstíðin á Íslandi. Mér tókst blessunarlega að gleyma því í fyrrasumar (enda var ég þá í burtu allan júlí) og nú í júní var nógu mikið að gera til að mér tækist að gleyma því aftur. En nú verða staðreyndirnar ekki umflúnar lengur.

Sko: ég man eftir einum kosti við íslenskt sumar: Það er bjart. (Nema reyndar þegar veðrið er grátt.)

Gallarnir eru hins vegar ýmsir. Núna er mötuneytið í vinnunni t.d. í sumarfríi, stór hluti vinnufélaganna í sumarfríi, það er kalt, bíóin keppast við að sýna myndir sem ég hef ekki áhuga á... Svona gæti ég kvartað og kveinað lengi. Já - og HM er búið.

Næstu ár ætla ég að stefna að sumarfríi í júlí. Og koma mér eitthvað langt, langt í burtu.

miðvikudagur, 5. júlí 2006

Ég er ennþá miður mín; Bernd Schneider hefði svo gjörsamlega átt að skora eftir góðu sendinguna frá Klose í gær - og ég held að Podolski þurfi nauðsynlega að fá skallanámskeið hjá Klose. Helvítis djöfull. Sennilega þarf ég að lesa Fever Pitch í kvöld sem eins konar þerapíu.

þriðjudagur, 4. júlí 2006

Helvítis Ítalir. Það liggur við að ég hætti við að halda áfram að læra þetta tungumál og þar með mögulega fyrirhugaða Ítalíuferð í september. Úff, hvað það tekur á að halda svona eindregið með ákveðnu liði. Ég ætla að passa mig á því framvegis, annars verð ég taugahrúga innan fárra ára.
Það er eitthvað verulega mikið athugavert við land þar sem staðalbúnaður á "sumrin" er húfa og vettlingar og þetta "sumar" virðist ekki ætla að vera eitt af þeim bestu. Í Tjarnargötunni á morgun gekk ég fram á vesældarlega útlendinga að vandræðast yfir korti. Ég bauð fram aðstoð mína og gat auðveldlega vísað þeim veginn að Þjóðminjasafninu. Áður en við leiðir skildust spurðu þau hikandi: "Er alltaf svona kalt hérna?" Aumingja fólkið. Aumingja við öll.
Tíminn líður... Ég er auðvitað löngu komin frá Ísafirði. Þar komst ég að því að á laugardagsmorgnum fer rúta yfir á Brjánslæk sem hefði hentað mér ágætlega (sjá hörmungasögu í síðustu bloggfærslu) en úr því ég var búin að panta flugið suður á föstudagskvöldinu hélt ég mig bara við það. Og við náðum að gera býsna margt þótt dagarnir væru ekki nema tveir: gengum mikið um Ísafjörð, borðuðum helling af góðum mat þar (ég var mjög ánægð með ísfirska matsölustaði), fórum á tónleika með Flís á miðvikudagskvöldinu, fórum út í Vigur á fimmtudaginn, keyrðum í bæði Bolungarvík og Súðavík sama kvöld, keyrðum enn meira daginn eftir, alla leið í Selárdal á endanum sem var frábært - og þetta var allt sérlega skemmtilegt, veðrið frábært og ferðin bara fullkomin. Mér finnst Ísafjörður líka afbragðs bær. Alvöru bær með miðbæ og svoleiðis, ekki eins og flestir íslenskir þéttbýlisstaðir sem eru stök hús sem eru nálægt hvert öðru eins og fyrir hálfgerða tilviljun. Og það virðist heilmikill metnaður til að gera góða hluti þarna á svæðinu. Ég ætla ekki að láta tuttugu ár líða þangað ég fer aftur til Ísafjarðar (ég hafði semsagt komið þangað einu sinni áður - það var víst 1986 og síðan munu vera tuttugu ár sem mér finnst ótrúlegt).

En nú er liðin ein og hálf vika frá því að ég kom aftur. Síðan hefur fátt gerst - og þó: ég er dottin á kaf í fótboltann! Vona að Þjóðverjar hafi þetta - ég er orðin mjög stressuð fyrir kvöldið og finnst þýskir fjölmiðlar orðnir óhóflega sigurvissir. En þýska liðið ætti fullkomlega skilið að fara alla leið.

Ég er svo langt leidd í fótboltaáhuganum að á föstudaginn klæddi ég mig í þýsku fánalitina - og aftur í dag. Þar að auki var ég að lakka neglurnar í sömu litum. Svo vona ég að Stefán verði búinn að endurnýja Köstritzer-birgðirnar í Friðarhúsi fyrir kvöldið.