þriðjudagur, 25. júlí 2006

Fyrir um viku byrjaði næstum-því-árlegt sundátak mitt. Það er afar einfalt, felur bara í sér að synda nokkurn veginn á hverjum degi, a.m.k. 1000 metra hverju sinni, en ég held það sjaldnast út lengur en tæpan mánuð, sennilega vegna þess að mér finnst ekki nógu gaman að synda. En það er góð hreyfing, góð hreyfing, góð hreyfing... (ætli ég nái bráðum að heilaþvo mig til að halda þessu áfram í tvo mánuði?)

Annar galli er að nú í sumar er óþarflega mikið um konur á trúnó í búningsklefunum í Vesturbæjarlauginni. Sumar senur eru undarlegri en aðrar. Í gær heyrði ég t.d. í tveimur konum sem töluðu ensku til að byrja með en skiptu yfir í dönsku þegar talið barst að persónulegum málum. Ég held allavega að þetta hafi verið sömu konurnar. Annars var ég gleraugnalaus þannig að það er ekkert að marka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli