mánudagur, 24. mars 2008

Spurt og svarað

Hvað er eiginlega málið með nánustu ættingja mína og spurningakeppnir? Hvaða árátta er eiginlega í gangi þannig að þetta fólk getur ekki látið sér nægja að sitja heima hjá sér og spila Trivial eins og eðlilegar manneskjur?

Arna (sem er svo mikil náfrænka mín að hún er eiginlega miklu meira) er nýbúin að brillera í Gettu betur og var bara hársbreidd frá sigri í úrslitunum. Og rétt í þessu var Siggi bróðir minn í úrslitum í spurningakeppni fjölmiðlanna - og stóð sig með miklum ágætum þótt hitt liðið ynni samt.

Ætli það sé hægt að spá fyrir um gengi pabba í Útsvari út frá þessu?

sunnudagur, 23. mars 2008

Málsháttarklúður

Varúð! Þessi bloggfærsla er tuð af sama tagi og bréf frá "konu í Vesturbænum".

Það er alkunna að málshátturinn er mikilvægasti parturinn af páskaegginu. Mörg síðustu ár hef ég þrjóskast við að kaupa Nóa-Síríus-egg þótt mér finnist súkkulaðið í þeim ekkert gott, bara vegna þess að í þeim hafa allavega verið alvöru málshættir, ólíkt heimatilbúna kjaftæðinu sem hefur t.d. verið í Mónu-eggjunum.

Núna ákvað ég hins vegar að breyta til. Eiginlega langaði mig í egg úr dökku súkkulaði en leit að slíku fyrirbæri bar engan árangur. Á endanum ákvað ég að taka sjensinn á Freyju-eggi og braut það með tilhlökkun um hádegisbil í dag. Vonbrigðin voru ómæld þegar í ljós kom eitthvert mesta bull sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Hinn svokallaði málsháttur reyndist hljóða svo:

"Betri er lítill fiskur en tómur fiskur."

Ég velti því fyrir mér smástund um hvort "tómur" væri þarna í merkingunni "eintómur" og merkingin væri þá að þótt fiskur væri góður væri samt betra að fá bara smávegis af honum en að troða sig út. Hér væri því boðuð hófsemi. Eða hvort fiskur ætti að hafa trúarlegar vísanir, og þetta væri þá tilraun til að innprenta manni að lítil trú væri betri en annaðhvort innantóm trú eða ofsatrú. (Sjálfri finnst mér eigið trúleysi alveg ágætt, takk fyrir.)

Svo áttaði ég mig á því að málshátturinn hafði bara brenglast og þarna hefði átt að standa "betri er lítill fiskur en tómur diskur."

Fávitar.

föstudagur, 21. mars 2008

Hattífatti

Ég vissi að ég væri skrýtin - en er þetta ekki einum of?logo
Hvem er du i Mummidalen?

Mitt resultat:
Hattifnatt
Du er Hattifnatt! Du er merkelig du!
Ta denne quizen på Start.no

fimmtudagur, 13. mars 2008

Erna öfugsnúna?

Í morgun fór ég í vinnuna í grænu pilsi og með eitthvað svart sem trefil en kom áðan heim með svart sjal bundið um neðripartinn og með grænt fyrrverandi pils um hálsinn.

Lærdómur dagsins: Þegar fötin reynast í tætlum er gott að eiga stóra klúta.

miðvikudagur, 5. mars 2008

Misheyrn dagsins

E: Ég er að reyna að lesa lög um sértryggð skuldabréf ...
Þ: Ha - ljóð um sértryggð skuldabréf?!
E: Hmmm, kannski gengi betur að lesa þetta með ljóðrænu hugarfari ...

Það er bara eitthvað við orðalag eins og "gagnaðilar útgefanda í afleiðusamningum" sem fyllir mig löngun til að einbeita mér að einhverju öðru. Næstum hverju sem er. Og reyndar dugar orðið "afleiðusamningar" yfirleitt eitt til að afvegaleiða ráð og rænu.