mánudagur, 28. febrúar 2005

Kannski blogga ég bráðum topp-5-listann minn yfir íslenskar skáldsögur síðasta árs, segi jafnvel líka frá því hvaða bók mér fannst leiðinlegust (sleppi samt íslenskum skáldsögum í þeim flokki því ég þjáist af kurteisi (verð að fara að gera eitthvað í þessu)), og hugsanlega býsnast ég innan tíðar yfir fólki sem fyllist hneykslun yfir því að mér skuli ekki finnast tiltekin bók æðislega meiriháttar.

En reyndar blogga ég sjaldnast um hluti sem mér finnst skipta máli, þannig að kannski læt ég þetta bara vera. Af þessu verður allavega ekki í dag. Ég er frekar andlaus. Farin heim að sauma.

fimmtudagur, 24. febrúar 2005

Kaffiuppáhellingin í Útvarpi ótta fær meðmæli mánaðarins. Tvímælalaust.
Flókið sjónvarpskvöld í gær. Kom heim í miðjum Gettubeturþætti (með unaðslega sterkt nautakjötssalat af Krúa Thai, namminamm), horfði á þáttinn til enda, skipti þá yfir á Skjá 1 til að horfa á wannabe módelin skæla úr sér augun, skipti svo aftur yfir á ríkissjónvarpið til að horfa á Regnhlífarnar en tók afganginn af ANTM upp á meðan, horfði á hann að Regnhlífunum loknum, og síðan á fyrri hlutann af Gettu betur sem ég hafði einmitt tekið upp (þótt móðguninni yfir því að GB skuli hafa máð ER út úr dagskránni linni ekkert).

Endaði kvöldið samt á því að skipta yfir í bók og rifja upp Skugga-Baldur; las bókina þegar hún kom út og ætlaði strax að lesa hana aftur en kom því ekki í verk fyrr en þetta skemmtilega tilefni gafst í gær. Bókin er a.m.k. jafn góð og mig minnti.

miðvikudagur, 23. febrúar 2005

Ja hérna, er aftur að koma þoka? Þetta eru dularfullir dagar.
Engin Bráðavakt í kvöld, frekar en venjulega um þessar mundir. Fúlt. Ljósið í myrkrinu er að America's Next Top Model skuli vera byrjað aftur. Ákveðnar tegundir amerískrar lágmenningar eru bráðnauðsynlegar.

þriðjudagur, 22. febrúar 2005

Þegar ég bíð eftir strætó í námunda við heimili mitt sé ég vagninn hinum megin við flugvöllinn áður en hann kemur til mín. (Hér teljast ekki með öll skiptin þegar ég er sein og rétt næ vagninum á hlaupum.) En í morgun sá ég ekkert. Þokan var svo massíf að það var engin leið fyrir stóran skærgulan bíl að sjást í gegn. En ég heyrði í honum ...

mánudagur, 7. febrúar 2005

Eftir heilmikið eip á ýmsum kommentakerfum í dag sé ég mig eiginlega tilneydda að blogga svolítið. Ómögulegt að vera bara sníkjubloggari. Annars held ég að það sé fátt að frétta. Ég er komin með tveggja vikna reynslu af því að vera þrítug og það er bara harla gott þótt afmælispartíið hafi mun rólegra að þessu sinni en það hefur verið síðustu ár. Ætli hækkandi aldur minn komi fyrst og fremst fram í aukinni stillingu gesta? (Þetta var nú samt ósköp gaman.)

Þegar ég hugsa mig um er reyndar ýmislegt að frétta. Byrja á sorgarfréttunum um snilldarhundinn Lubba (hund foreldra minna) sem er ekki lengur þessa heims. Það var keyrt á hann um daginn þegar hann var með pabba í hesthúsunum, einu sinni sem oftar, og það er sko ekki sanngjarnt.

Gleðifréttir nr. eitt eru hins vegar þær að ég verð allan júlí í málaskóla í Bologna á Ítalíu og hlakka óendanlega til. Skráði mig um daginn og borgaði staðfestingargjald og fékk um hæl staðfestingu til baka og var strax úthlutað stað til að búa á og fékk meira að segja sent kort sem búið var að merkja staðinn inn á og líka gönguleiðina í skólann. Finnst þetta allt lofa góðu og hlakka óendanlega til.

Það er aftur á móti allsherjarskandall að Sjónvarpið skuli ekki hafa látið sér nægja að henda Bráðavaktinni út af dagskrá síðustu tvo miðvikudaga (fyrir heimskulegan handbolta og tónlistarverðlaunin) heldur ætli að ryðja henni út af dagskrá í sjö vikur í viðbót fyrir fjandans Gettu betur. Mjög undarlegt að slíta seríuna svona í sundur og afar súrt í broti fyrir forfallna aðdáendur eins og mig sem hafa ekki misst af þætti í tíu ár, þrátt fyrir allar lægðirnar sem þátturinn hefur tekið á þessum tíma (enda hefur hann oftast komist upp úr þeim).