fimmtudagur, 24. febrúar 2005

Flókið sjónvarpskvöld í gær. Kom heim í miðjum Gettubeturþætti (með unaðslega sterkt nautakjötssalat af Krúa Thai, namminamm), horfði á þáttinn til enda, skipti þá yfir á Skjá 1 til að horfa á wannabe módelin skæla úr sér augun, skipti svo aftur yfir á ríkissjónvarpið til að horfa á Regnhlífarnar en tók afganginn af ANTM upp á meðan, horfði á hann að Regnhlífunum loknum, og síðan á fyrri hlutann af Gettu betur sem ég hafði einmitt tekið upp (þótt móðguninni yfir því að GB skuli hafa máð ER út úr dagskránni linni ekkert).

Endaði kvöldið samt á því að skipta yfir í bók og rifja upp Skugga-Baldur; las bókina þegar hún kom út og ætlaði strax að lesa hana aftur en kom því ekki í verk fyrr en þetta skemmtilega tilefni gafst í gær. Bókin er a.m.k. jafn góð og mig minnti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli