miðvikudagur, 29. mars 2006

Á Rialto-markaðnum


Á Rialto-markaðnum
Originally uploaded by ernae.
Loksins er ég búin að setja Feneyjamyndirnar inn á flickr-síðuna mína. Með sama áframhaldi er aldrei að vita nema ég komi afgangnum af Ítalíumyndunum þangað innan árs frá því að þær voru teknar ...

þriðjudagur, 28. mars 2006

Áhugafólk um hvernig bækur raðast í bókahillur ætti að lesa þessa bloggfærslu hjá Örnu frænku minni.
Fyrir nokkru hélt ég að sudoku-fíknin væri að ganga yfir hjá mér. Stundum voru farnir að líða dagar án þess að ég leysti a.m.k. tíu sudoku-þrautir - jafnvel dagar þar sem ég leysti ekki eina einustu. Þá fann ég síðu með manndráps-sudoku ("killer sudoku") og meira-en-sudoku og ánetjaðist að sjálfsögðu. Ískyggilegt. Hvað ætli gerist næst?

mánudagur, 27. mars 2006

Ég er búin að blogga heilmikið í huganum upp á síðkastið. Ótrúlegt að hugskeytin skuli ekki hafa skilað sér hingað inn. Ekki að það sé eitthvað að frétta, þvert á móti, líf mitt er afar tíðindalaust - en hins vegar ekki endilega leiðinlegt. Síðustu viku er ég t.d. búin að gera svo margt skemmtilegt að það hálfa væri nóg, t.d. fór ég á frábæran fyrirlestur Andra Snæs á mánudagskvöldið og eignaðist nýja uppáhaldsbók (Draumalandið - sem seinkaði för minni til hefðbundins draumalands því ég gat ekki hætt að lesa fyrr en vel var liðið á nótt). Ég sá Chaplin-myndina Sirkus í Bæjarbíói á þriðjudagskvöldið (hrikalega fyndin og skemmtileg), fór á föstudagskvöldið á Lisu Ekdahl tónleikana sem voru æðislegir, sat skemmtilegt myndhvarfamálþing í gær og dreif mig svo á Túskildingsóperuna (frábær fyrir hlé en það hefði mátt skera niður megnið af atriðunum eftir hlé).

Skemmtilegur atburður af allt öðru tagi er að á fimmtudagskvöldið horfði ég á einhverja leiðinlegustu kvikmynd sem ég hef nokkurn tíma séð - en það var samt gaman því að 1) ég var í svo góðum félagsskap, 2) margar aðrar kvikmyndir verða bærilegar eða jafnvel góðar við samanburðinn, 3) ég fékk rækilega útrás fyrir uppsafnaða kaldhæðni. - Það var líka huggun harmi gegn að fólkinu í kvikmyndinni virtist leiðast a.m.k. eins mikið en okkur sem horfðum á hana. En ég mæli samt ekki með Dauðanum í Feneyjum nema fólk vilji kynna sér sérstaklega hversu langdregnar og melódramatískar bíómyndir er fræðilega mögulegt að búa til.