föstudagur, 26. september 2003

Heyrðu nú mig. „Elitísk og innihaldsrýr.“ Hvurslags svívirðingar eru þetta?!

You are literary fiction!
What fiction genre are you?

brought to you by Quizilla


Verð ég ekki að taka prófið aftur og hagræða niðurstöðunum?
Var að uppgötva að ég hef gleymt símanum mínum heima í morgun. Þoli ekki svona.

fimmtudagur, 25. september 2003

Úpps! Var að uppgötva að ég er ekkert búin að blogga í viku. Mikið getur tíminn liðið hratt þegar það er alltof mikið að gera.

fimmtudagur, 18. september 2003

Bókahilluskortur er krónískt vandamál hjá mér. Einfaldasta og besta ráðið væri auðvitað að kaupa fleiri bókahillur (nota bene: sagði ekki bara „einfaldasta“ heldur líka „besta“, það er ekki inni í myndinni að hætta að kaupa bækur). Og fjölgun á bókahillum þeim sem til ráðstöfunar eru á heimilinu (er að æfa mig í stofnanamáli) er búin að vera á dagskrá óralengi en alltaf tefur eitthvað fyrir. Fyrir tæpum tveimur árum keypti ég næstum helling af hillum – en ákvað síðan að peningunum væri betur varið í ferð til Parísar.

Nú virðist orðið til mynstur. Um daginn datt mér nefnilega í hug að sennilega væri sniðugt að kaupa bókahillur þegar nýtt vísa-tímabil byrjaði. (Já, ég er svo dæmigerður Íslendingur að vísa-kortið er mikilvægasta heimilistækið.) Í dag er átjándi og þar með komið nýtt vísa-tímabil – en er ég farin að huga að bókahillukaupum? Ó nei. Ég keypti nefnilega farseðil til London í staðinn!

Ætla semsagt að leika mér í London í fjóra daga seint í október. Hlakka ekkert smá til!

Veraldlegir hlutir geta alveg beðið. Held bara áfram að beita gamalkunnum aðferðum til að takast á við bókahilluvandann. Þær helstu eru:
  1. Endurskipulagning. Hef afbragðs árangur að baki í að raða bókunum upp á nýtt og finna leiðir til að nýta plássið betur. Bý að því að hafa unnið skrilljón sumur í Seli hérna í fyrndinni – það var ómetanleg þjálfun í að búa til pláss úr engu.
  2. Lána Svansý bækur. Hef gert það ítrekað með ágætis árangri – hún er með helling af bókum sem ég á – og þegar hún hefur ætlað að skila þeim hef ég hvað eftir annað sett upp kæruleysissvip og sagt: „Æ, ekki núna, tek þær bara næst ...“ Næst getur verið mjög afstætt hugtak.
Mikið getur fréttamat fólks verið mismunandi. Fréttablaðinu virðist ekki finnast það fréttnæmt að Flateyjargáta eftir Viktor Arnar Ingólfsson sé tilnefnd til Glerlykilsins. Í staðinn er blaðið með frétt um að Röddin eftir Arnald Indriðason sé ekki tilnefnd. Tilnefning Flateyjargátu er svo nefnt í framhaldi af þessu. Af blaðinu mætti helst skilja að Arnaldur ætti að vera tilnefndur sjálfkrafa af því að hann hefur selst svo vel.

Kannski væri þessi framsetning skiljanleg ef Flateyjargáta væri alger hörmung en Röddin snilldarverk. Þannig er það bara ekki. Vissulega er Röddin mjög góð bók – en það er Flateyjargáta bara líka. Frumleg saga, spennandi og skemmtilegar gátur og mikil stemmning – það er eitthvað virkilega flott við andrúmsloftið í bókinni. Hún fór strax á topp-fimm-listann minn yfir ánægjulegustu lesninguna á síðasta ári.

Einhvern veginn fyndist mér miklu frekar ástæða til að gleðjast yfir því að sama árið hafi komið út fleiri en ein glæpasaga í toppklassa en að hneykslast á því að þekktasti höfundurinn (þótt góður sé) hafi ekki verið tilnefndur. Jamm og já.
Fyrsti vettlingadagur haustsins er runninn upp. Komst að því þegar ég var rétt komin út úr húsi í morgun að það væri kalt og sneri við til að sækja vettlinga. Afleiðingin varð sú að ég missti af strætó. En ég er nú alvön því. Og ég fraus allavega ekki í hel við að ganga í vinnuna. Vettlingar eru góð uppfinning.

þriðjudagur, 16. september 2003

Er ekki best að tepokablogga aðeins um síðustu daga?

Í fréttum er það helst að um helgina átti ég frí. Algjört 100% frí. Mesti munur. Reyndar hafa alveg liðið helgar síðustu mánuðina án þess að að vottur af vinnuafköstum mældist hjá mér – en það er langt síðan ég hef getað verið laus við samviskubit yfir því að vinna ekki. Það gerir gæfumuninn. Sennilega verður nokkur bið á að þetta endurtaki sig, ég er allavega búin að taka að mér nýtt aukaverkefni sem leggur næstu helgi undir sig. Og þegar því lýkur tekur annað trúlega við. Og svo enn annað. Og svo fer vinnuálagið að þyngjast í föstu vinnunni.

En allavega: naut þess semsagt að eiga frí og slappaði vel af, en gerði líka alveg helling, fór t.d. á bókmenntahátíðar-upplestur á föstudagskvöldið, og hafði reyndar stungið af úr vinnunni fyrr um daginn til að hlusta á pallborðsumræðurnar (sem voru því miður mun síðri en glæpasagnaumræðurnar daginn áður). Svo fór ég á þýðingamálþingið á bókmenntahátíðinni á sunnudaginn, fróðlegt að heyra í erlendu útgefendunum þar. Og á sunnudaginn hlustaði ég á Jón Yngva flytja fyrirlestur um íslenskar sveitasögur í Danmörku kringum stríð. Mjög gaman.

Í rauninni hefði ég átt að koma mjög vel undan þessari helgi, en vinnudagurinn í gær varð samt frekar misheppnaður. Morðtilraunir sólarinnar gerðu sitt til að klúðra deginum, og það bætti ekki úr skák að vera föst í texta á samansúrruðu stofnanamáli af verstu gerð. Það hafði umtalsverð áhrif á hugarástandið, sem var orðið svo óendanlega steikt að æskilegt var farið að mega teljast að á boðstólum yrðu úrræði sem gerðu aðilum kleift að verða þess valdandi með einum eða öðrum hætti að verknaður af því tagi er afsteiking gæti kallast yrði uppi á teningnum ...

Steikin í hausnum á mér var orðin svo well done að á endanum var ég farin að snúa út úr piparkökusöngnum:
Þegar lagafrumvarp fæðist
frumvarpssemjandi skal ekki
.........
Framhaldið er leyndó.

mánudagur, 15. september 2003

Sólin er að drepa mig. Hún skín eins og hún eigi lífið að leysa og það er engin leið að verjast henni. Gardínurnar á skrifstofunni minni eiga að vera ógurlega tæknilegar og halda sólargeislunum úti án þess að byrgja manni sýn – en þær virka andskotann ekki neitt. Held að ég flýi fram á kaffistofu.
Tvíræðni er skemmtileg. Slagorð nýliðinnar viku símenntunar var: Víða liggja námsleiðir – og ég sé bara fyrir mér helling af fólki sem er svo illa haldið af námsleiða að það liggur á víð og dreif fyrir hunda og manna fótum. Kannski svolítið óheppilegt.

laugardagur, 13. september 2003

Það er ofboðslega notalegt að sitja með aðeins rauðvín uppi í sófa og hekla og hlusta til skiptis á Getz/Gilberto og Belle and Sebastian.
Mér leiðist samt svolítið.

föstudagur, 12. september 2003

Í gær komst ég loksins eitthvað á bókmenntahátíðina. Stalst úr vinnunni til að fylgjast með glæpasagnaumræðunum klukkan þrjú (tímasetningin á þessum pallborðsumræðum er ekki alveg hönnuð fyrir fólk í venjulegri vinnu). Það var mjög skemmtilegt, Kata stjórnaði þessu ákaflega vel, og ég komst að því að Boris Akúnin (eða Gregorí Tsjkhartísvílí eins og hann heitir víst í alvörunni) er augljóslega snillingur! Hann var mjög fyndinn og skemmtilegur, og allt sem hann sagði var flott. Best fannst mér hvernig hann líkti texta við rússneskar matrúsku-dúkkur: plottið væri kannski stærsta matrúskan og sú sem allir sæju, en sumir lesendur opnuðu hana og gætu fundið fleiri matrúskur inni í henni. Kannski væri til ein matrúska fyrir lesendur sem hefðu forsendur til að skilja sögulegar tilvísanir, önnur matrúska fyrir lesendur með þekkingu á einhverju öðru, og þannig mætti lengi telja, ein matrúska væri fyrir vini hans, önnur fyrir konuna hans, og svo ein pínulítil bara fyrir hann sjálfan.
Báðar bækurnar sem hafa verið þýddar á íslensku eftir Akúnin, Ríkisráðið og Krýningarhátíðin eru verulega flottar; fyndið sambland af Sherlock Holmes, Tolstoj og ótalmörgu öðru. En svo eru þær líka skemmtilega ólíkar þótt þær séu um sama spæjarann. Vona að það verði þýtt meira eftir Akúnin fljótlega.

Svo fór ég líka á upplesturinn í gærkvöld þar sem m.a. lásu Mikael Niemi og Arto Paasilinna. Rokkað í Vittula eftir Niemi er dásamleg bók, og það var frábært að heyra hann lesa úr henni, hann las svo skemmtilega. Paasilinna var líka mjög góður, enda er Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð einhver fyndnasta bók sem ég hef lesið (eins og fram hefur komið áður). Hún er nýkomin út, kostar bara um 1600 kr. í bókabúð (og á Edduvefnum er tilboð með 20% afslætti). Kaupið hana! Núna!
Mikið ofboðslega er þetta flottur pistill hjá Unni.

þriðjudagur, 9. september 2003

Leit allt í einu á síðustu færslurnar svona saman og varð ekki um sel. Örstuttar og armæðufullar. En af þessu skal ekki draga þá ályktun að ég sé sokkin í þunglyndi, heldur er þetta bara til marks um hvað bloggið endurspeglar raunveruleikann stundum illa. Því að þótt líf mitt sé tiltölulega tíðindalaust þessa dagana er það alls ekki slæmt. Og þótt ég sé svolítið andlaus er ég engan veginn í fýlu.

Er bara að berjast við að klára verk sem ég átti að vera búin með fyrir svo óralöngu síðan en hefur ýmist skort tíma eða einbeitingu. Sem er synd, því verkið er í rauninni mjög skemmtilegt. En það er óþolandi að dragnast með svonalagað í eilífðartíma án þess að geta klárað. Nú er þetta samt að hafast – enda er ég orðin það hrikalega sein að ég er komin á gamalkunnar slóðir í tilraunum á sjálfri mér, semsé að athuga hversu miklum svefni er hægt að fórna fyrir vinnu.

Það bætir svo sem ekki úr skák að ég hef verið ótrúlega dugleg við að finna mér fáránlegustu hluti aðra að gera. (Sú veiki virðist reyndar hafa verið að ganga, m.v. þessa bloggfærslu Þórdísar og kommentin við hana). Ég tók m.a. til í handavinnudótinu mínu um helgina. Það hafði beðið í ótalmarga mánuði og var fjarri því að vera aðkallandi núna. En ég gerði það samt. Og það sem meira er: Ég horfði á allan landsleikinn á laugardaginn. Held að ég ætti að hafa áhyggjur af sjálfri mér – þessi hegðun er svo úr karakter að það hálfa væri nóg. (Reyndar rifjast það upp fyrir mér núna að árið sem ég bjó í Þýskalandi horfði ég ótrúlega mikið á íþróttastöðvarnar í sjónvarpinu, þ.e. miðað við aðrar stöðvar. En það segir reyndar meira um þýskt sjónvarp en margt annað.)

En jæja, burtséð frá þessu er allt gott að frétta. Þótt reyndar sé ekkert að frétta. En eru engar fréttir ekki (stundum) góðar fréttir?

Er ég að verða óþarflega steikt núna?
Ég er svöng. Eða ég held það.
Ármann er að dissa Vesturálmuna. Hann kann greinilega ekki gott að meta. Ætli hann fari að pönkast á Alias næst?

föstudagur, 5. september 2003

Æ, hvað ég er þreytt.

fimmtudagur, 4. september 2003

miðvikudagur, 3. september 2003

Mikið er ég ánægð með menningarhornið á Múrnum. Kata fer þar rækilega á kostum þessa dagana. Múrstiklurnar eru stórskemmtilegar en ennþá betra var þó að fá nýja grein í uppáhaldsgreinaflokkinn minn: fróðleikshorn um fagra menn. Á því hafði orðið alltof löng bið. Meira svona!
Fastir liðir eins og venjulega:
Er (aftur) hætt störfum hjá Eddu (þótt ég eigi nú trúlega eftir að frílansa þar áfram) og byrjaði (enn og aftur) á nefndasviði Alþingis á mánudaginn. Er á sömu skrifstofu og síðast, björt og fín með útsýni yfir Austurvöll og finnst þetta ákaflega heimilislegt (enda er þetta þriðja skiptið sem ég vinn hérna). Svo er ég meira að segja ráðin í heilt ár sem er viðburður. Kannski er líf mitt að komast í pínulítið fastar skorður? Spurning hvort ég fríka út eftir nokkra mánuði af óhóflegu starfsöryggi?! Ég hef nefnilega verið mesta flökkukind og (næstum) aldrei verið ráðin nema tímabundið í vinnu, sjaldan meira en þrjá mánuði í einu, einstaka sinnum örlítið lengur. Starfsferillinn minnir einna helst á flókinn bútasaum.

Einu sinni á ævinni hef ég reyndar verið með ótímabundinn ráðningarsamning. En þá sagði ég upp eftir fjóra mánuði. (Vann einn og hálfan mánuð eftir það en náði semsagt ekki hálfu ári á vinnustaðnum.) - Óhófleg öryggistilfinning var reyndar ekki ástæðan, heldur ákvað ég einfaldlega að starfsöryggi væri ekki nógu góð ástæða til að vinna á stað þar sem ég væri óánægð. Síðan eru liðin rúm tvö ár og sífellt staðfestist sú skoðun mín að þetta sé einhver besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni.