Nú virðist orðið til mynstur. Um daginn datt mér nefnilega í hug að sennilega væri sniðugt að kaupa bókahillur þegar nýtt vísa-tímabil byrjaði. (Já, ég er svo dæmigerður Íslendingur að vísa-kortið er mikilvægasta heimilistækið.) Í dag er átjándi og þar með komið nýtt vísa-tímabil – en er ég farin að huga að bókahillukaupum? Ó nei. Ég keypti nefnilega farseðil til London í staðinn!
Ætla semsagt að leika mér í London í fjóra daga seint í október. Hlakka ekkert smá til!
Veraldlegir hlutir geta alveg beðið. Held bara áfram að beita gamalkunnum aðferðum til að takast á við bókahilluvandann. Þær helstu eru:
- Endurskipulagning. Hef afbragðs árangur að baki í að raða bókunum upp á nýtt og finna leiðir til að nýta plássið betur. Bý að því að hafa unnið skrilljón sumur í Seli hérna í fyrndinni – það var ómetanleg þjálfun í að búa til pláss úr engu.
- Lána Svansý bækur. Hef gert það ítrekað með ágætis árangri – hún er með helling af bókum sem ég á – og þegar hún hefur ætlað að skila þeim hef ég hvað eftir annað sett upp kæruleysissvip og sagt: „Æ, ekki núna, tek þær bara næst ...“ Næst getur verið mjög afstætt hugtak.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli