Mikið getur fréttamat fólks verið mismunandi. Fréttablaðinu virðist ekki finnast það fréttnæmt að Flateyjargáta eftir Viktor Arnar Ingólfsson sé tilnefnd til Glerlykilsins. Í staðinn er blaðið með frétt um að Röddin eftir Arnald Indriðason sé ekki tilnefnd. Tilnefning Flateyjargátu er svo nefnt í framhaldi af þessu. Af blaðinu mætti helst skilja að Arnaldur ætti að vera tilnefndur sjálfkrafa af því að hann hefur selst svo vel.
Kannski væri þessi framsetning skiljanleg ef Flateyjargáta væri alger hörmung en Röddin snilldarverk. Þannig er það bara ekki. Vissulega er Röddin mjög góð bók – en það er Flateyjargáta bara líka. Frumleg saga, spennandi og skemmtilegar gátur og mikil stemmning – það er eitthvað virkilega flott við andrúmsloftið í bókinni. Hún fór strax á topp-fimm-listann minn yfir ánægjulegustu lesninguna á síðasta ári.
Einhvern veginn fyndist mér miklu frekar ástæða til að gleðjast yfir því að sama árið hafi komið út fleiri en ein glæpasaga í toppklassa en að hneykslast á því að þekktasti höfundurinn (þótt góður sé) hafi ekki verið tilnefndur. Jamm og já.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli