fimmtudagur, 20. nóvember 2003

Í mér blundar kverúlant. En eins og fram kom þegar ég birti formlega játningu á vandamálinu í kommentakerfinu hjá Þórdísi fyrir nokkru, þá reyni ég að halda aftur af þessu fóli því ég óttast að stjórnleysið verði algert ef skrímslið sleppur laust. En stundum get ég ekki hamið mig. Í gær skrifaði ég tveimur vinkonum mínum t.d. tölvupóst og kverúlantaðist svolítið. (Nota bene – ekki yfir þeim sjálfum heldur öðrum málum.) Hvorug hefur svarað mér. Ætli það sé til marks um að nöldur sé ekki vænlegt til vinsælda?

laugardagur, 15. nóvember 2003

Mikið er alltaf gaman að fá Bókatíðindin. Ég sest alltaf niður með þau undireins og þau koma inn um bréfalúguna og skoða þau vandlega. Síðustu árin hefur þessi fyrsta fletting samt breyst töluvert – en ég áttaði mig ekki á því fyrr en í gær. Einu sinni fletti ég heftinu og merkti við bækurnar sem mig langaði í. Núna merki ég fyrst við bækurnar sem ég er búin að lesa.

föstudagur, 14. nóvember 2003

Löngu kominn tími á persónuleikapróf.

Dancing in the dark is bad for you
You are "Dancer In The Dark".
You put all you have into work just to make ends meet.
Give yourself a vacation or you may end up killing someone.

What Indie Film Personality Are You?
brought to you by Quizilla

miðvikudagur, 12. nóvember 2003

Gærdagurinn var skrýtinn en gærkvöldið var fínt. Það rofaði til þegar ég komst heim og gat haldið áfram að lesa glænýju bókina eftir Helen Fielding um Oliviu Joules og ofvirka ímyndunaraflið. James Bond paródía með meiru. Unaðslega léttúðug.

Ég á líka splunkunýja bók eftir Minette Walters. Það finnst mér ekki síður skemmtilegt.

Mér nægði nefnilega ekki að kaupa gommu af bókum í London um daginn. Ó, nei, ég pantaði fleiri bækur hjá Amazon.co.uk skömmu eftir að ég kom heim, þrátt fyrir að vísakortið væri að niðurlotum komið. (Fyrrnefndar bækur HF og MW voru ekki komnar út þegar ég var í London. En ég þurfti nauðsynlega að eignast þær. Nauðsynlega, tilfinnanlega og skilyrðislaust.)

Svo verð ég að fara að koma höndum yfir nýjar íslenskar bækur. Þetta gengur ekki lengur.

Eiginlega þyrfti ég nokkurra daga frí í vinnunni til að lesa.

þriðjudagur, 11. nóvember 2003

Arrrg. Andstyggðardagur.

mánudagur, 10. nóvember 2003

Ég reyndi að gerast Öskubuska í morgun. Missti af mér skóinn á harðahlaupum. Reyndar var engin höll í nágrenninu (nema í mjög yfirfærðri merkingu) og því síður prins (ekki einu sinni í yfirfærðri merkingu). Verð greinilega að vinna betur í tímasetningunum.

föstudagur, 7. nóvember 2003

Skítaveður. Ég var svo bjartsýn að reyna að nota regnhlíf í morgun. Hún dó.