fimmtudagur, 18. desember 2003

Þrátt fyrir viðvarandi aumingjablogg er ég ekki (blogg)dauð. Bara svolítið heiladauð. A.m.k. á köflum. Í fyrradag fór ég t.d. í Bónus, ráfaði um búðina og reyndi að muna hvað ég þurfti að kaupa. Þegar ég var búin að standa fyrir framan eina hilluna alllanga stund – og horfa og horfa og horfa rækilega til að fullvissa mig að mig vantaði ekkert í henni – gerði ég óþægilega uppgötvun.

Í hillunni var kattamatur. Bara kattamatur.

Ég á ekki kött.

Mig langar ekki einu sinni í kött.

Skilningsstöðin í heilanum vissi greinilega ekkert hvað augun voru að horfa á. Kannski væri ráðlegast að leggjast í dvala fram á vor. (Þá meina ég líkamlegan dvala –til viðbótar við þann andlega.)

miðvikudagur, 3. desember 2003

Að gefnu tilefni skal tekið fram að bloggfærslan frá í fyrradag um mannvonsku vinnufélaganna byggist ekki á misskilningi eins og einhverjir héldu. Ó nei – hún byggist á vísvitandi oftúlkun og útúrsnúningum. Það væri ekkert gaman ef maður mætti ekki ýkja pínulítið.

Komment Kristbjarnar um að við í X-bekknum höfum öll verið meira og minna afbrigðileg er hins vegar hárrétt. Blessunarlega hef ég iðulega fengið að vera langdvölum í vernduðu umhverfi, bæði í skóla og vinnu. (Þ.e. umkringd fólki sem er a.m.k. jafnskrýtið og ég sjálf.) :-)

En fyrst ég er farin að klaga vinnufélagana get ég ekki látið hjá líða að minnast á kvikindislega og markvissa framkvæmd beitingar þöggunaraðgerða gagnvart mér í síðustu viku. Atvikin áttu sér stað á kaffistofunni, bæði fyrir og eftir hádegi einn daginn. Fólk hafði eitthvað á móti því að ég læsi upphátt fyrir það úr Bændablaðinu og Úr verinu. Óskiljanlegt hvað fólk getur verið tregt til að fræðast um undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.
Utanviðsigheit mín er trúlega að keyra úr hófi fram. Ég vinn á þriðju hæð í húsi einu við Austurvöll. Athugið: þriðju hæð. Áðan gekk ég inn í húsið, upp stigann, upp, upp, upp, inn úr stigaganginum – og uppgötvaði að ég var á fjórðu hæð. Endurtakist: fjórðu. Í staðinn fyrir þriðju. Það væri kannski ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þetta gerðist lika í síðustu viku. Getur þetta endað öðruvísi en með ósköpum?
Mikið er Oslóartréð úti á Austurvelli undarlegt í laginu. Úr glugganum frá mér er það allavega líkast því að neðstu greinarnar öðrum megin hafi verið sagaðar af.

P.S., hálftíma síðar: Jæja, það er nú eitthvað að jafna sig, aumingja tréð. Hefur sennilega bara verið svolítið vankað eftir ferðalagið.

mánudagur, 1. desember 2003

Þegar ég kom í vinnuna í morgun og sagðist hafa lesið fimm nýjar bækur um helgina (eða eiginlega sex að stuttri barnabók meðtalinni), þá horfðu vinnufélagarnir á mig eins og ég væri geðbiluð. Eða a.m.k. mjög afbrigðileg. Var það ekki ósanngjarnt og andstyggilegt af þeim?!
Hvað er annars búið að gerast síðan ég bloggaði síðast? (Þ.e. síðast m.v. bloggdaga, næstsíðast m.v. bloggfærslur.) Ja, það er nú það. Á tímabili velti ég því fyrir mér hvort ég gæti flutt lögheimilið í vinnuna. Í skilgreiningunni á lögheimili kemur fram að það sé m.a. sá staður þar sem bækistöð manns er að jafnaði [þ.e. í vinnunni í mínu tilfelli á þessum tíma] og þar sem hann dvelur í frístundum sínum [átti eiginlega ekki svoleiðis]. En svo kemur reyndar líka fram að lögheimilið skuli vera þar sem maður hefur svefnstað sinn. Þar með er kannski ekki lengur grundvöllur fyrir lögheimilisflutningi. Kannski ætti ég að reyna að fá dívan á skrifstofuna mína til að geta flutt almennilega hingað.

En jæja, þótt ég hafi ekki gert yfirþyrmandi margt annað en að vinna og sofa hefur mér þó blessunarlega hefur mér öðru hverju tekist að eiga félagslíf inn á milli. Eddupartýið um daginn var t.d. stórskemmtilegt – en hverjum datt eiginlega í hug að halda það á fimmtudagskvöldi? Mér fannst það nógu vond hugmynd fyrirfram, en þegar ég mætti í vinnuna klukkan níu morguninn eftir fannst mér hugmyndin beinlínis kvikindisleg. Eftir svona partý ætti að vera lágmark að geta sofið fram að hádegi.
Ég er ekki hætt að blogga. Stundum eru bara takmörk fyrir því hversu miklu er hægt að koma í verk, og svo eru blogglægðir hvorteðer fastur liður í lífi mínu. Er ekki annars nauðsynlegt að viðhalda hefðum? Jæja, annar fastur liður er tiltekt í tenglasafninu sem er búin að vera lengi á dagskrá að vanda. Það hefur t.d. dregist óhóflega að bjóða Hafdísi velkomna í bloggheima og endurgjalda linka á fleiri góða bloggara sem hafa verið svo vænir að tengja á mig (ath. að karlkynið í setningunni á undan er eingöngu málfræðilegt): Hugskot, Böggu og Gunnlaugu. Þekki enga þeirra svo ég viti, en reyndar er heilastöðin sem sér um slík mál vanvirk í mér, þannig að það er kannski ekki að marka. Þetta er andstyggðar fötlun.

Enn einn bloggari sem ég þekki ekki er Kristín – en ég er búin að lesa hana flesta daga í skrilljón mánuði og löngu kominn tími til að tengja.

Annars er þetta tenglasafn voðalegur óskapnaður; held að ég verði að fara að endurskipuleggja það. Núverandi fyrirkomulag á dilkadrætti virkar ekki nógu vel. Kannski ætti ég að hafa þetta allt í stafrófsröð. Eða sortera einhvern veginn öðruvísi. Salta málið í von um snilldarhugljómun.

fimmtudagur, 20. nóvember 2003

Í mér blundar kverúlant. En eins og fram kom þegar ég birti formlega játningu á vandamálinu í kommentakerfinu hjá Þórdísi fyrir nokkru, þá reyni ég að halda aftur af þessu fóli því ég óttast að stjórnleysið verði algert ef skrímslið sleppur laust. En stundum get ég ekki hamið mig. Í gær skrifaði ég tveimur vinkonum mínum t.d. tölvupóst og kverúlantaðist svolítið. (Nota bene – ekki yfir þeim sjálfum heldur öðrum málum.) Hvorug hefur svarað mér. Ætli það sé til marks um að nöldur sé ekki vænlegt til vinsælda?

laugardagur, 15. nóvember 2003

Mikið er alltaf gaman að fá Bókatíðindin. Ég sest alltaf niður með þau undireins og þau koma inn um bréfalúguna og skoða þau vandlega. Síðustu árin hefur þessi fyrsta fletting samt breyst töluvert – en ég áttaði mig ekki á því fyrr en í gær. Einu sinni fletti ég heftinu og merkti við bækurnar sem mig langaði í. Núna merki ég fyrst við bækurnar sem ég er búin að lesa.

föstudagur, 14. nóvember 2003

Löngu kominn tími á persónuleikapróf.

Dancing in the dark is bad for you
You are "Dancer In The Dark".
You put all you have into work just to make ends meet.
Give yourself a vacation or you may end up killing someone.

What Indie Film Personality Are You?
brought to you by Quizilla

miðvikudagur, 12. nóvember 2003

Gærdagurinn var skrýtinn en gærkvöldið var fínt. Það rofaði til þegar ég komst heim og gat haldið áfram að lesa glænýju bókina eftir Helen Fielding um Oliviu Joules og ofvirka ímyndunaraflið. James Bond paródía með meiru. Unaðslega léttúðug.

Ég á líka splunkunýja bók eftir Minette Walters. Það finnst mér ekki síður skemmtilegt.

Mér nægði nefnilega ekki að kaupa gommu af bókum í London um daginn. Ó, nei, ég pantaði fleiri bækur hjá Amazon.co.uk skömmu eftir að ég kom heim, þrátt fyrir að vísakortið væri að niðurlotum komið. (Fyrrnefndar bækur HF og MW voru ekki komnar út þegar ég var í London. En ég þurfti nauðsynlega að eignast þær. Nauðsynlega, tilfinnanlega og skilyrðislaust.)

Svo verð ég að fara að koma höndum yfir nýjar íslenskar bækur. Þetta gengur ekki lengur.

Eiginlega þyrfti ég nokkurra daga frí í vinnunni til að lesa.

þriðjudagur, 11. nóvember 2003

Arrrg. Andstyggðardagur.

mánudagur, 10. nóvember 2003

Ég reyndi að gerast Öskubuska í morgun. Missti af mér skóinn á harðahlaupum. Reyndar var engin höll í nágrenninu (nema í mjög yfirfærðri merkingu) og því síður prins (ekki einu sinni í yfirfærðri merkingu). Verð greinilega að vinna betur í tímasetningunum.

föstudagur, 7. nóvember 2003

Skítaveður. Ég var svo bjartsýn að reyna að nota regnhlíf í morgun. Hún dó.

miðvikudagur, 29. október 2003

Komin heim. Því miður. Þegar ég fór að heyra íslensku á flugvellinum í gærkvöld reyndi ég að loka eyrunum og þegar flugfreyjurnar gengu um flugvélina til að selja DV gróf ég mig á kaf í breska blaðið mitt. Svo hafa flugfreyjurnar hjá Iceland Express tekið upp þann sið Flugleiða að segja „velkomin heim“ við lendingu í Keflavík. Ég fann hjá mér hvöt til að æpa: „Nei, neeeeeiiiiiiii – ég vil ekki vera á þessu landi! Mig langar aftur til London!“ Tókst þó að halda aftur af mér. Með naumindum.

föstudagur, 24. október 2003

Rétt í þessu braut ég næstum gleraugun mín. Það hefði nú aldeilis verið heppilegt, svona rétt áður en lagt er upp í langferð. En jæja, nú ætla ég að leita mér að mat, svo er það Hótel Loftleiðir, þá flugstöðin og svo: London! :-)
Nenni ábyggilega ekkert að blogga þar, held að það verði annað að gera.

fimmtudagur, 23. október 2003

Í gær var Nanna að spekúlera í lestarnámi, einkum af hvaða bókum fólk hefði lært að lesa, og heilmiklar umræður urðu á kommentakerfinu hennar. Ég reyndi að leggja mitt af mörkum, en gat þó fátt sagt, því ég lærði að lesa fyrir mitt minni og hef aldrei vitað almennilega hvernig það gerðist. Rámaði bara í að hafa heyrt að mjólkurfernur hefðu komið eitthvað við sögu. Fannst kominn tími til að vita meira um málið, þannig að ég sendi mömmu tölvupóst og bað um skýrslu. Skelli svarinu hér inn til að halda því til haga – og vonandi getur einhver haft af þessu gagn og einnig nokkurt gaman. Og – best að vera fyrri til áður en einhver skýtur á mig: að sjálfsögðu er tilgangurinn líka að segja frægðarsögur af sjálfri mér! Besta aðferðin við slíkt er nefnilega að hafa sögurnar eftir öðrum! ;-) En allavega: hér er bréfið frá mömmu:
Þetta er nú spurning sem erfitt er að svara með afgerandi hætti. Eftir því sem ég man best var lestrarnám þitt mjög sjálfsprottið og fór í byrjun þannig fram að við svöruðum spurningum þínum um hvernig ætti að fara að því að lesa.

Byrjunin var auðvitað sú að mikið var lesið fyrir þig – þér til mikillar ánægju. Það fyrsta sem ég man og kalla má nám var þegar ég sat á Grænavatni og var að undirbúa mig fyrir enskukennslu í Skútustaðaskóla. Þá hreifst þú mjög af einni bls. eða opnu í kennslubókinni fyrir byrjendur en þar var stórum og litfögrum stöfum dreift á síðuna.

Eftir að hafa lært alla stafina man ég að þú spurðir oft um hvernig ætti að lesa og ég útskýrði með aðferðinni sem ég lærði í Ísaksskóla, þ.e. að hver stafur segði ákveðin hljóð, sumir kynnu að segja nafnið sitt sjálfir en aðrir (samhljóðarnir) „segðu“ ákveðin hljóð. Þetta var auðvitað önnur aðferð en pabbi þinn og amma höfðu lært eftir (þ.e. að kveða að).

Ég veit satt að segja ekki hvaða bækur ég á að tilgreina – en man mjög vel að þú spurðir út í fyrirsagnir í blöðum – mjólkurfernurnar voru vinsælar til æfinga. En auðvitað voru uppáhaldsbækurnar á þessum tíma Tumi og Emma í ýmsum útgáfum.

En eins og við höfum örugglega oft sagt þér uppgötvuðum við að þú værir komin af stað og búin að ná tökum á galdrinum þegar við vorum í bíltúr niðri við Reykjavíkurhöfn og allt í einu heyrðist úr barnastólnum í aftursætinu: E- s- j- a.

Þá sáum við að ekki var bara um að ræða sjónminni á nýmjólk eða setningar sem þú kunnir utan að úr Tuma og Emmu. Nákvæma dagsetningu hef ég ekki en þetta var örugglega á tímanum frá sept.–des. 1977.

Eitthvað rámar mig í að síðan hafi ýmislegt verið notað til æfinga – man að einhvern tíma höfðum við undir höndum „Gagn og gaman“ bók – en man ekki hvort það var á þinni tíð eða síðar þegar bræður þínir voru að ná tökum á galdrinum.

Ég skal svo bera mig saman við pabba þinn – það er ekki ólíklegt að hann geti bætt einhverju við og e.t.v. einhverju tilkomumeira lesefni – þótt ég efist um að þú getir státað þig af að hafa lært að lesa með því að stauta þig fram út Íslendingasögunum eða Biblíunni. Það er kannski best að ég sýni pabba þínum bréfið frá þér og biðji hann að svara – það væri fróðlegt að sjá hvort minni okkar ber saman!
Þannig var nú það. Bíð spennt eftir að komast að því hvort minningar pabba eru allt öðruvísi. :)

miðvikudagur, 22. október 2003

Í síðustu færslu spurði ég hvort fólk vildi mæla sérstaklega með einhverju í London. Gerði ráð fyrir að yfir mig helltust skemmtilegar ábendingar – en þær hafa eitthvað látið á sér standa. Kannski hefði ég átt að orða þetta öðruvísi. Sko, ég geri mjög fastlega ráð fyrir að þið hafið mörg, kæru lesendur, a.m.k. komið til London og einhver séu jafnvel ágætlega kunnug þar. Viljið þið ekki segja mér frá einhverju sem er í uppáhaldi hjá ykkur í þessari ágætu borg? Það er svo gaman að vita hvað öðrum finnst skemmtilegt, hvort sem maður er sjálfur á sömu bylgjulengd eða einhverri allt annarri.
Dagurinn einkennist af tilhlökkun. Óendanlegri tilhlökkun. Er að fara til London eftir tvo daga og get varla beðið. Hef aldrei komið þangað áður og veit alveg að fjórir dagar endast engan veginn fyrir allt sem mig langar til, en geri ábyggilega mitt besta. :) Er búin að panta miða á eina leiksýningu og finnst trúlegt að ég fari a.m.k. á eina aðra (t.d. Músagildruna – þegar maður hefur verið forfallinn Agöthu Christie aðdáandi frá barnæsku hlýtur það eiginlega að vera ómissandi). Er síðan ákveðin í að fara á Tate Modern en hugsa að ég láti það ráðast dálítið af veðri hvað ég fer mikið á önnur söfn. Geri fastlega ráð fyrir að ganga bara mikið um – og ganga og ganga og ganga ... Svo veit ég um marga spennandi markaði og bókabúðir og fleira og fleira og fleira – er með gríðarlangan lista yfir ótalmargt sem ég gæti hugsað mér að gera, en er fátt búin að negla niður – ætla bara að spila þetta svolítið eftir hendinni.
Vill fólk mæla sérstaklega með einhverju?

þriðjudagur, 21. október 2003

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir eru tvö kommentakerfi á þessari síðu. Ástæðan er að þegar ShoutOut-ið fór verkfall í sumar setti ég inn Haloscan til vara. Síðan komst ég að því að mér þætti það betra kerfi og vildi helst nota það áfram, en þar sem ég á svo mörg skemmtileg gömul komment í ShoutOut-inu tímdi ég ekki að henda því endanlega. Það er samt búið að vera svolítið bjánalegt að vera með bæði kerfin hlið við hlið. Ákvað að prófa að lita linkinn á ShoutOut-ið ljósgráan þannig að hann sæist verr í von um að það beindi fólki frekar inn á Haloscan-ið. Svo víxlaði ég kerfunum líka þannig að Haloscan-ið væri fyrir framan – annars leit þetta svo undarlega út. Svo er bara að bíða og sjá hvernig þetta gefst.
Nú er úr vöndu að ráða. Allavega ef mann langar að finna sér það til dundurs að búa til vandamál. Málið er þetta: samstarfsfólkið uppgötvaði bloggið mitt á einu bretti um daginn. Spurningin er hvort það á að hafa áhrif á skrifin og hvaða áhrif þá. Augljóslega gæti ég núna farið að tala illa um fólkið – sem hefur verið ómögulegt fram að þessu þar sem það er ekkert gaman að tala illa og kvikindislega um fólk án þess að það heyri til! En í þessu tilfelli gæti svona illt umtal orðið svolítið erfitt ef maður er ekki þeim mun lygnari. Sannast sagna er fólkið nefnilega frekar skemmtilegt og ferlega gaman að vinna með því – en um slíkt er ómögulegt að fjölyrða. Það yrði bara væmið og asnalegt.

Best að ég velti þessu fyrir mér um stund. Á þessi uppgötvun raunheimsins að umbylta blogginu mínu? Eða er best að allt verði við það sama? ;-)

sunnudagur, 19. október 2003

Hrikalega er ég búin að slappa vel af um helgina. Ætla ekki að telja saman klukkutímana sem ég hef sofið – veit bara að talan yrði stjarnfræðilega há. En það veitti heldur ekki af eftir vikuna þar sem ég var búin að ganga svo á svefntímann að svefngalsi var orðinn varanlegt ástand. Þegar einstaka setningar í tyrfnum lagatexta eru farnar að vera fyndnar og/eða fallegar – þá er nokkuð ljóst að sálarheillinni hefur verið stefnt í voða.

Æ, já, mikið er búið að vera gott að eiga frí. Á föstudaginn tókst mér semsagt að skila af mér próförkinni sem ég hafði verið með í aukavinnu (og sem hafði valdið öllum svefnskortinum) og þar sem ég hafði lokið umfangsmiklu verkefni í vinnunni daginn áður var ljóst að spennufallið yrði töluvert. Ákvað að hafna öllu því skemmtilega sem mér stóð til boða á föstudagskvöldið; taldi fullvíst að það myndi slokkna á mér snarlega við að setjast niður og slaka á og fannst mun skynsamlegra að það gerðist heima hjá mér en t.d. á sófanum heima hjá vinafólki mínu. Eða á kórtónleikum – efast um að aukaundirleikur í hrotuformi hefði verið mjög vinsæll.

Sófinn heima og vídeóspóla varð niðurstaðan. En ofboðslega getur verið erfitt að finna sér mynd á vídeóleigu. Ég væflaðist um leiguna í lengri tíma án þess að finna nokkuð. Samt var þarna auðvitað hellingur af myndum sem ég ætla einhvern tíma að sjá. Bara einhvern tíma seinna. Eftir hálftíma vandræðagang lá við að ég tæki Bridget Jones (og horfði þar með á hana í fimmta eða sjötta skipti) eða leitaði á náðir spólusafns heimilisins og horfði á Hroka og hleypidóma í tvöþúsund tuttugasta og sjöunda skipti. Með harðfylgi tókst mér þó á endanum að finna mátulega heilalausa mynd sem ég hafði ekki séð áður. Hitt hefði hvort tveggja verið of líkt skrípamynd af föstudagskvöldi einhleyprar konu sem á sér ekki líf. Hefði bara vantað kött.

Á laugardaginn – eftir meira en tólf tíma svefn – vaknaði ég svo við símhringingu Og var spurð hvort ég vildi taka að mér eina litla próförk. Og – ótrúlegt en satt – ég sagði nei. Því ég ætlaði að eiga frí. Ó, já, ég get þetta stundum. Samt var þetta meira að segja próförk að bók sem ég hlakka til að lesa. Og ég náði samt að segja nei. Segir kannski sitt um það hversu mikið ég var búin að vinna yfir mig.

Hélt svo áfram að sofa, slæpast og gera ekki neitt á alla mögulega vegu. Stundum er það óendanlega gott.

þriðjudagur, 14. október 2003

Las stjörnuspána mina í Mogganum og gat ekki annað en skellt upp úr. Í henni segir nefnilega:
Áætlanir sem tengjast lögfræði, framhaldsmenntun, útgáfu- og ferðamálum líta illa út.
Hér kemur vel á vondan, það liggur við að hér sé líf mitt í hnotskurn. Best að taka þetta lið fyrir lið:
  1. LÖGFRÆÐI: Ja, „heilkenni lagamálfars“ (skilgreining Kristbjarnar) setur verulega mark sitt á tilveru vesæls skjalalesara þessa dagana. Óþarft að segja meira um það.
  2. FRAMHALDSMENNTUN: Er krónískt í rúst. Held stundum að einhvern tíma takist mér að sinna MA-náminu aftur. En það víkur alltaf fyrir brauðstritinu.
  3. ÚTGÁFUMÁL: Hmmm – heima bíður eftir mér próförk að óheyrilega langri bók sem ég átti eiginlega að vera búin að lesa, eða ætlaði allavega að skila af mér á morgun, en sé varla fram á að það takist, þrátt fyrir beitingu svefnskorts og ofneyslu á kaffi síðustu daga. Verð væntanlega orðin ennþá svefnlausari og vitlausari þegar yfir lýkur en núna; nóg er nú samt.
  4. FERÐAMÁL: Neeei, nú hafna ég því að mark sé á stjörnuspánni takandi. Tilhugsunin um Lundúnaferðina eftir tíu daga hefur verið ljósið í myrkrinu í dag. Þau plön eru ekkert að renna út í sandinn.

föstudagur, 10. október 2003

Er farin að drekka of mikið kaffi. Enn og aftur.

fimmtudagur, 9. október 2003

Minesweeper er ávanabindandi andskoti.
Metin mín þessa stundina eru:
Beginner: 5 sek.
Intermediate: 39 sek.
Expert: 125 sek.

mánudagur, 6. október 2003

Grænavatnsfrænkur mínar taka sér bólfestu í bloggheimum þessa dagana, hver af annarri. Mikið er ég ánægð með þær. Fyrir nokkru fór Brynja að blogga; en hún dvelur um þessar mundir við óperustörf í Cambridge. Og nú er Guðný byrjuð líka; um hana mætti segja margt og mikið, en akkúrat um þessar mundir er mér ein spurning efst í huga: Ætlar konan að stofna dýragarð í Garðabænum?! ;-) Dálæti Guðnýjar á dýrum kemur kannski ekki á óvart – ein af mörgum skemmtilegum bernskuminningum mínum snýst um það þegar Guðný tók mig með að skoða mýsnar úti í Nýhúsum – við sátum þar hrikalega hljóðar (maður þorði varla að anda) og biðum þess að mýsnar færu á kreik að éta hænsnamatinn. Helsta iðja okkar nokkrum sumrum seinna var þó allnokkurs annars eðlis – þá var Guðný komin með bílpróf og þau voru ófá kvöldin sem við keyrðum einn hring kringum vatnið (keyptum e.t.v. ís úti í Reykjahlíð á leiðinni), og horfðum svo á Dirty Dancing þegar heim var komið. Hef ekki tölu á því hvað við horfðum oft á þá ágætu mynd þetta sumar – né því hvað ég hef horft oft á hana síðan. Alltaf jafn gaman (mér er alveg sama hversu margt er hægt að tína til á móti myndinni). Verð að fara að koma því í verk að halda Dirty Dancing vídeókvöldið sem er búið að vera á verkefnalistanum í a.m.k. tvö ár.

laugardagur, 4. október 2003

Þáttur úr leikritinu:
Þrautir á þingsetningardegi


Bjartur og fagur haustdagur í miðbæ Reykjavíkur.
Erna og Dísa – búrókratar í þjónustu hins opinbera – þjóta út úr skrifstofuhúsi við norðvesturhorn Austurvallar og skeiða yfir völlinn. Við kaðalgirðingu á jaðri hans er hópur fólks með kröfuspjöld, innan girðingarinnar einkennisklæddir lögreglumenn.
  • Erna: Hvað er klukkan? Erum við orðnar of seinar?
  • Dísa: Alveg á mörkunum – sleppum samt vonandi á undan þingmönnunum.
Þær nálgast kaðalgirðinguna. Taktföst talning heyrist og í ljós kemur einföld röð lögreglumanna sem marsera eins og strengjabrúður. Sumir mótmælenda hlæja dátt, aðrir flissa óskammfeilið – nokkrir láta sér nægja að brosa í kampinn.
Þegar Erna og Dísa ætla inn fyrir girðinguna stöðvar þær maður með derhúfu sem á stendur skýrum stöfum LÖGREGLAN.
  • E & D (óðamála): Við erum starfsmenn þingsins …
  • Löggan (tortryggin): Eruð þið með skilríki upp á það?
  • E & D (forviða): Neeeeiiii …
  • Löggan (valdsmannslega): Það getur hver sem er sagst vera starfsmaður þingsins.
  • (E & D eru ráðvilltar að sjá.)
  • Löggan (óþolinmóð): Eruð þið með annars konar skilríki?
  • (Dísa hristir höfuðið.)
  • E: Jaaaá … (Rótar í allstórri tuðru (sem hefði getað geymt margar skyrdollur) og finnur á endanum bleikt spjald sem hún réttir fram. Löggan virðist það vandlega fyrir sér og skráir loks kennitölu skírteinishafa í minnisbók sína. Lítur jafnframt á klukkuna og nóterar tímasetninguna af samviskusemi en sýnir töskunni engan áhuga.)
  • Löggan (náðarsamlegast): Jæja, farið þá inn fyrir.
Þær taka aftur á rás og hverfa brátt inn í Dómkirkjuna.

Tjaldið.

--------------------------
(Næsti þáttur leikritsins gerist innan veggja Dómkirkjunnar rétt eftir að fyrra þætti lýkur. Erna og Dísa sitja hjá kollegum sínum. Prósessía þingmanna birtist í dyrunum og þegar allir hafa sest hefst messa. Prédikun prestsins markast mjög af fréttum um að væntanlegt sé frumvarp um aðskilnað ríkis og kirkju. Hann leggur sig ákaflega fram um að vara við yfirvofandi hættu á „afkristnun“ samfélagsins og helst er að skilja að hann telji slíkt myndu leiða af sér alls kyns hörmungar, þar á meðal fjölkvæni. En það er önnur saga.)

föstudagur, 3. október 2003

Kansellístíllinn er að verða mér ískyggilega tamur. Í morgun sendi ég vinnufélögum mínum svohljóðandi bréf:
Á grundvelli þeirrar staðreyndar sem óformleg athugun leiddi í ljós og fól í sér að formlegir þátttakendur í starfi skjaladeildar voru með örfáum undantekningum ekki tiltakanlega fúsir að fá í hendur þingskjöl á pappír á einstaklingsbundnum grunni, var tekin óformleg ákvörðun um að finna slíku efni hentuga staðsetningu með miðlægum hætti, og hefur henni nú verið hrundið í framkvæmd.
Og þetta er hluti úr skeyti sem fór frá mér síðdegis:
Í tilefni af nýaflokinni framkvæmd vistunar þess sem nálgast að vera heildarmagn pappíra skjaladeildar frá fyrra þingi í kössum með viðeigandi hætti ...
Með sama áframhaldi verð ég orðin fullkomlega óskiljanleg í vor. Blessunarlega ætla kollegarnir að vera á varðbergi og grípa í taumana ef í óefni stefnir. Ég vona að blogglesendur mínir geri slíkt hið sama.

fimmtudagur, 2. október 2003

Þetta er að verða aumingjablogg dauðans. Og um þessar mundir er takmarkað útlit fyrir að áformum um úrbætur verði hrundið í framkvæmd með fullnægjandi hætti í nánustu framtíð (er að verða skemmd af stofnanamáli). Í bili verða örfá orð að duga til að láta vita að ég sé lífs.

Eftirtalin atriði hafa einkennt líf mitt síðustu vikuna: vinna, vettlingaprjón og pönnukökur. (Hljómar kannski svolítið galið. Nánari skýringar koma kannski síðar. Kannski.)

Kristbjörn lýsir athæfi löggunnar í gær. Ég var líka á svæðinu – þó ekki í mótmælaskyni – og fannst marseringin líka fyndin, en náði því miður ekki að fylgjast almennilega með, því ég var upptekin við að sannfæra sérlega samviskusaman lögreglumann um að ég væri víst starfsmaður Alþingis, og það væri óhætt að hleypa mér inn fyrir kaðalinn og í þingsetningarmessuna (já, trúleysinginn ég lagði mig sérstaklega fram um að komast í messu – veit að það er saga til næsta bæjar). Þetta var skemmtilega súrrealískur leikþáttur sem verður kannski bloggað um síðar.

föstudagur, 26. september 2003

Heyrðu nú mig. „Elitísk og innihaldsrýr.“ Hvurslags svívirðingar eru þetta?!

You are literary fiction!
What fiction genre are you?

brought to you by Quizilla


Verð ég ekki að taka prófið aftur og hagræða niðurstöðunum?
Var að uppgötva að ég hef gleymt símanum mínum heima í morgun. Þoli ekki svona.

fimmtudagur, 25. september 2003

Úpps! Var að uppgötva að ég er ekkert búin að blogga í viku. Mikið getur tíminn liðið hratt þegar það er alltof mikið að gera.

fimmtudagur, 18. september 2003

Bókahilluskortur er krónískt vandamál hjá mér. Einfaldasta og besta ráðið væri auðvitað að kaupa fleiri bókahillur (nota bene: sagði ekki bara „einfaldasta“ heldur líka „besta“, það er ekki inni í myndinni að hætta að kaupa bækur). Og fjölgun á bókahillum þeim sem til ráðstöfunar eru á heimilinu (er að æfa mig í stofnanamáli) er búin að vera á dagskrá óralengi en alltaf tefur eitthvað fyrir. Fyrir tæpum tveimur árum keypti ég næstum helling af hillum – en ákvað síðan að peningunum væri betur varið í ferð til Parísar.

Nú virðist orðið til mynstur. Um daginn datt mér nefnilega í hug að sennilega væri sniðugt að kaupa bókahillur þegar nýtt vísa-tímabil byrjaði. (Já, ég er svo dæmigerður Íslendingur að vísa-kortið er mikilvægasta heimilistækið.) Í dag er átjándi og þar með komið nýtt vísa-tímabil – en er ég farin að huga að bókahillukaupum? Ó nei. Ég keypti nefnilega farseðil til London í staðinn!

Ætla semsagt að leika mér í London í fjóra daga seint í október. Hlakka ekkert smá til!

Veraldlegir hlutir geta alveg beðið. Held bara áfram að beita gamalkunnum aðferðum til að takast á við bókahilluvandann. Þær helstu eru:
  1. Endurskipulagning. Hef afbragðs árangur að baki í að raða bókunum upp á nýtt og finna leiðir til að nýta plássið betur. Bý að því að hafa unnið skrilljón sumur í Seli hérna í fyrndinni – það var ómetanleg þjálfun í að búa til pláss úr engu.
  2. Lána Svansý bækur. Hef gert það ítrekað með ágætis árangri – hún er með helling af bókum sem ég á – og þegar hún hefur ætlað að skila þeim hef ég hvað eftir annað sett upp kæruleysissvip og sagt: „Æ, ekki núna, tek þær bara næst ...“ Næst getur verið mjög afstætt hugtak.
Mikið getur fréttamat fólks verið mismunandi. Fréttablaðinu virðist ekki finnast það fréttnæmt að Flateyjargáta eftir Viktor Arnar Ingólfsson sé tilnefnd til Glerlykilsins. Í staðinn er blaðið með frétt um að Röddin eftir Arnald Indriðason sé ekki tilnefnd. Tilnefning Flateyjargátu er svo nefnt í framhaldi af þessu. Af blaðinu mætti helst skilja að Arnaldur ætti að vera tilnefndur sjálfkrafa af því að hann hefur selst svo vel.

Kannski væri þessi framsetning skiljanleg ef Flateyjargáta væri alger hörmung en Röddin snilldarverk. Þannig er það bara ekki. Vissulega er Röddin mjög góð bók – en það er Flateyjargáta bara líka. Frumleg saga, spennandi og skemmtilegar gátur og mikil stemmning – það er eitthvað virkilega flott við andrúmsloftið í bókinni. Hún fór strax á topp-fimm-listann minn yfir ánægjulegustu lesninguna á síðasta ári.

Einhvern veginn fyndist mér miklu frekar ástæða til að gleðjast yfir því að sama árið hafi komið út fleiri en ein glæpasaga í toppklassa en að hneykslast á því að þekktasti höfundurinn (þótt góður sé) hafi ekki verið tilnefndur. Jamm og já.
Fyrsti vettlingadagur haustsins er runninn upp. Komst að því þegar ég var rétt komin út úr húsi í morgun að það væri kalt og sneri við til að sækja vettlinga. Afleiðingin varð sú að ég missti af strætó. En ég er nú alvön því. Og ég fraus allavega ekki í hel við að ganga í vinnuna. Vettlingar eru góð uppfinning.

þriðjudagur, 16. september 2003

Er ekki best að tepokablogga aðeins um síðustu daga?

Í fréttum er það helst að um helgina átti ég frí. Algjört 100% frí. Mesti munur. Reyndar hafa alveg liðið helgar síðustu mánuðina án þess að að vottur af vinnuafköstum mældist hjá mér – en það er langt síðan ég hef getað verið laus við samviskubit yfir því að vinna ekki. Það gerir gæfumuninn. Sennilega verður nokkur bið á að þetta endurtaki sig, ég er allavega búin að taka að mér nýtt aukaverkefni sem leggur næstu helgi undir sig. Og þegar því lýkur tekur annað trúlega við. Og svo enn annað. Og svo fer vinnuálagið að þyngjast í föstu vinnunni.

En allavega: naut þess semsagt að eiga frí og slappaði vel af, en gerði líka alveg helling, fór t.d. á bókmenntahátíðar-upplestur á föstudagskvöldið, og hafði reyndar stungið af úr vinnunni fyrr um daginn til að hlusta á pallborðsumræðurnar (sem voru því miður mun síðri en glæpasagnaumræðurnar daginn áður). Svo fór ég á þýðingamálþingið á bókmenntahátíðinni á sunnudaginn, fróðlegt að heyra í erlendu útgefendunum þar. Og á sunnudaginn hlustaði ég á Jón Yngva flytja fyrirlestur um íslenskar sveitasögur í Danmörku kringum stríð. Mjög gaman.

Í rauninni hefði ég átt að koma mjög vel undan þessari helgi, en vinnudagurinn í gær varð samt frekar misheppnaður. Morðtilraunir sólarinnar gerðu sitt til að klúðra deginum, og það bætti ekki úr skák að vera föst í texta á samansúrruðu stofnanamáli af verstu gerð. Það hafði umtalsverð áhrif á hugarástandið, sem var orðið svo óendanlega steikt að æskilegt var farið að mega teljast að á boðstólum yrðu úrræði sem gerðu aðilum kleift að verða þess valdandi með einum eða öðrum hætti að verknaður af því tagi er afsteiking gæti kallast yrði uppi á teningnum ...

Steikin í hausnum á mér var orðin svo well done að á endanum var ég farin að snúa út úr piparkökusöngnum:
Þegar lagafrumvarp fæðist
frumvarpssemjandi skal ekki
.........
Framhaldið er leyndó.

mánudagur, 15. september 2003

Sólin er að drepa mig. Hún skín eins og hún eigi lífið að leysa og það er engin leið að verjast henni. Gardínurnar á skrifstofunni minni eiga að vera ógurlega tæknilegar og halda sólargeislunum úti án þess að byrgja manni sýn – en þær virka andskotann ekki neitt. Held að ég flýi fram á kaffistofu.
Tvíræðni er skemmtileg. Slagorð nýliðinnar viku símenntunar var: Víða liggja námsleiðir – og ég sé bara fyrir mér helling af fólki sem er svo illa haldið af námsleiða að það liggur á víð og dreif fyrir hunda og manna fótum. Kannski svolítið óheppilegt.

laugardagur, 13. september 2003

Það er ofboðslega notalegt að sitja með aðeins rauðvín uppi í sófa og hekla og hlusta til skiptis á Getz/Gilberto og Belle and Sebastian.
Mér leiðist samt svolítið.

föstudagur, 12. september 2003

Í gær komst ég loksins eitthvað á bókmenntahátíðina. Stalst úr vinnunni til að fylgjast með glæpasagnaumræðunum klukkan þrjú (tímasetningin á þessum pallborðsumræðum er ekki alveg hönnuð fyrir fólk í venjulegri vinnu). Það var mjög skemmtilegt, Kata stjórnaði þessu ákaflega vel, og ég komst að því að Boris Akúnin (eða Gregorí Tsjkhartísvílí eins og hann heitir víst í alvörunni) er augljóslega snillingur! Hann var mjög fyndinn og skemmtilegur, og allt sem hann sagði var flott. Best fannst mér hvernig hann líkti texta við rússneskar matrúsku-dúkkur: plottið væri kannski stærsta matrúskan og sú sem allir sæju, en sumir lesendur opnuðu hana og gætu fundið fleiri matrúskur inni í henni. Kannski væri til ein matrúska fyrir lesendur sem hefðu forsendur til að skilja sögulegar tilvísanir, önnur matrúska fyrir lesendur með þekkingu á einhverju öðru, og þannig mætti lengi telja, ein matrúska væri fyrir vini hans, önnur fyrir konuna hans, og svo ein pínulítil bara fyrir hann sjálfan.
Báðar bækurnar sem hafa verið þýddar á íslensku eftir Akúnin, Ríkisráðið og Krýningarhátíðin eru verulega flottar; fyndið sambland af Sherlock Holmes, Tolstoj og ótalmörgu öðru. En svo eru þær líka skemmtilega ólíkar þótt þær séu um sama spæjarann. Vona að það verði þýtt meira eftir Akúnin fljótlega.

Svo fór ég líka á upplesturinn í gærkvöld þar sem m.a. lásu Mikael Niemi og Arto Paasilinna. Rokkað í Vittula eftir Niemi er dásamleg bók, og það var frábært að heyra hann lesa úr henni, hann las svo skemmtilega. Paasilinna var líka mjög góður, enda er Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð einhver fyndnasta bók sem ég hef lesið (eins og fram hefur komið áður). Hún er nýkomin út, kostar bara um 1600 kr. í bókabúð (og á Edduvefnum er tilboð með 20% afslætti). Kaupið hana! Núna!
Mikið ofboðslega er þetta flottur pistill hjá Unni.

þriðjudagur, 9. september 2003

Leit allt í einu á síðustu færslurnar svona saman og varð ekki um sel. Örstuttar og armæðufullar. En af þessu skal ekki draga þá ályktun að ég sé sokkin í þunglyndi, heldur er þetta bara til marks um hvað bloggið endurspeglar raunveruleikann stundum illa. Því að þótt líf mitt sé tiltölulega tíðindalaust þessa dagana er það alls ekki slæmt. Og þótt ég sé svolítið andlaus er ég engan veginn í fýlu.

Er bara að berjast við að klára verk sem ég átti að vera búin með fyrir svo óralöngu síðan en hefur ýmist skort tíma eða einbeitingu. Sem er synd, því verkið er í rauninni mjög skemmtilegt. En það er óþolandi að dragnast með svonalagað í eilífðartíma án þess að geta klárað. Nú er þetta samt að hafast – enda er ég orðin það hrikalega sein að ég er komin á gamalkunnar slóðir í tilraunum á sjálfri mér, semsé að athuga hversu miklum svefni er hægt að fórna fyrir vinnu.

Það bætir svo sem ekki úr skák að ég hef verið ótrúlega dugleg við að finna mér fáránlegustu hluti aðra að gera. (Sú veiki virðist reyndar hafa verið að ganga, m.v. þessa bloggfærslu Þórdísar og kommentin við hana). Ég tók m.a. til í handavinnudótinu mínu um helgina. Það hafði beðið í ótalmarga mánuði og var fjarri því að vera aðkallandi núna. En ég gerði það samt. Og það sem meira er: Ég horfði á allan landsleikinn á laugardaginn. Held að ég ætti að hafa áhyggjur af sjálfri mér – þessi hegðun er svo úr karakter að það hálfa væri nóg. (Reyndar rifjast það upp fyrir mér núna að árið sem ég bjó í Þýskalandi horfði ég ótrúlega mikið á íþróttastöðvarnar í sjónvarpinu, þ.e. miðað við aðrar stöðvar. En það segir reyndar meira um þýskt sjónvarp en margt annað.)

En jæja, burtséð frá þessu er allt gott að frétta. Þótt reyndar sé ekkert að frétta. En eru engar fréttir ekki (stundum) góðar fréttir?

Er ég að verða óþarflega steikt núna?
Ég er svöng. Eða ég held það.
Ármann er að dissa Vesturálmuna. Hann kann greinilega ekki gott að meta. Ætli hann fari að pönkast á Alias næst?

föstudagur, 5. september 2003

Æ, hvað ég er þreytt.

fimmtudagur, 4. september 2003

miðvikudagur, 3. september 2003

Mikið er ég ánægð með menningarhornið á Múrnum. Kata fer þar rækilega á kostum þessa dagana. Múrstiklurnar eru stórskemmtilegar en ennþá betra var þó að fá nýja grein í uppáhaldsgreinaflokkinn minn: fróðleikshorn um fagra menn. Á því hafði orðið alltof löng bið. Meira svona!
Fastir liðir eins og venjulega:
Er (aftur) hætt störfum hjá Eddu (þótt ég eigi nú trúlega eftir að frílansa þar áfram) og byrjaði (enn og aftur) á nefndasviði Alþingis á mánudaginn. Er á sömu skrifstofu og síðast, björt og fín með útsýni yfir Austurvöll og finnst þetta ákaflega heimilislegt (enda er þetta þriðja skiptið sem ég vinn hérna). Svo er ég meira að segja ráðin í heilt ár sem er viðburður. Kannski er líf mitt að komast í pínulítið fastar skorður? Spurning hvort ég fríka út eftir nokkra mánuði af óhóflegu starfsöryggi?! Ég hef nefnilega verið mesta flökkukind og (næstum) aldrei verið ráðin nema tímabundið í vinnu, sjaldan meira en þrjá mánuði í einu, einstaka sinnum örlítið lengur. Starfsferillinn minnir einna helst á flókinn bútasaum.

Einu sinni á ævinni hef ég reyndar verið með ótímabundinn ráðningarsamning. En þá sagði ég upp eftir fjóra mánuði. (Vann einn og hálfan mánuð eftir það en náði semsagt ekki hálfu ári á vinnustaðnum.) - Óhófleg öryggistilfinning var reyndar ekki ástæðan, heldur ákvað ég einfaldlega að starfsöryggi væri ekki nógu góð ástæða til að vinna á stað þar sem ég væri óánægð. Síðan eru liðin rúm tvö ár og sífellt staðfestist sú skoðun mín að þetta sé einhver besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni.

fimmtudagur, 28. ágúst 2003

Alltaf uppgötvast eitthvað nýtt sem vantar í spendýrabókina hans Bjarna. Ég óttast allavega að ekkert hafi verið hugað að því allra mikilvægasta: semsé því hvernig dýrin henta til átu. Bjarni virðist reyndar farinn að leggja einhver drög að þessu á blogginu sínu (sjá færsluna um flóðsvínið) en betur má ef duga skal. Legg til að Nanna verði ráðin til að sjá um uppskriftir í bókina.
Misjöfn verða morgunverkin. Nú var ég loksins að fjölga tenglum á vinstri vængnum en það er búið að standa til í marga mánuði. Nýju tenglarnir vísa sumir á fólk sem ég þekki vel, aðrir á fólk sem ég þekki ekki neitt og enn aðrir á fólk sem er einhvers staðar þar á milli. En allt á það sameiginlegt að vera miklir ágætisbloggarar.
P.S. Ég hef ábyggilega gleymt einhverjum eins og venjulega. Kvartanir sendist á kommentakerfið.

miðvikudagur, 27. ágúst 2003

Getur einhver sagt mér af hverju konur keppa í 100 m grindahlaupi en karlar í 110 m?
Umdeildanlegt getur verið hvaða spendýr skuli teljast íslensk. Nú er unnið að stórri og mikilli bók um íslensk spendýr sem kemur trúlega út á næsta ári. Bjarni hefur gerst spendýrafræðingur vinnustaðarins og hefur umsjón með verkinu, en er reglulega hafður að háði og spotti fyrir þá sök að þarna sé notast við nokkuð víða skilgreiningu á íslenskum spendýrum. Einkum hefur Páll Valsson verið duglegur við að fussa og sveia yfir þeirri fásinnu (að eigin mati) að þarna verði fjallað um fleiri dýr en tófuna.

Í gær uppgötvaði ég hins vegar að sjónarhornið er fjarri því að vera of vítt – þvert á móti virðist það ætla að vera svívirðilega þröngt. Menn hafa nefnilega hengt sig óhóflega í hefðbundna rökhugsun og einhvern leiðinda hlutveruleika við afmörkun efnisins.

Brýnt er að tveimur köflum verði bætt við bókina:
  1. Kafla um yfirfærða merkingu. Eins og allir vita er fjöldi fólks (ekki síst Íslendinga) apar, asnar og jafnvel svín.
  2. Kafla um þykjustudýr. Í íslenskum þjóðsögum er sagt frá mörgum skemmtilegum dýrum sem eiga skilyrðislaust að teljast með. Nykur, urðarköttur, skoffín og álíka dýr eru augljóslega rammíslenskust allra spendýra.
Hér með er þessu komið á framfæri sem vinsamlegri ábendingu. Búast má við harkalegri aðgerðum ef málið verður hunsað.

þriðjudagur, 26. ágúst 2003

Blogglaus helgi að baki – og blogglaus mánudagur reyndar líka. En aumingjablogg ber að forðast og svo ekki verði hægt að væna mig um slíka skömm (í þetta skiptið) kemur hér eitt stykki tepokablogg. Meira verður það nú ekki því andleysið er yfirþyrmandi og fátt að frétta. Helgin var sú skrilljónasta í röð þar sem áform um ofurdugnað runnu út í sandinn – allan tímann var ég ofsalega mikið á leiðinni að stefna að því að fara bráðum að koma mér að því að vera hrikalega dugleg að vinna ...

En það fór nú eins og það fór. Ég hefði sennilega alveg getað farið á Norlit-ráðstefnuna sem ég hafði samt ekki tíma til því ég þurfti að koma svo mörgu í verk. En stundum verða afköstin í að gera ekkert bara óendanleg. Eini dugnaðurinn sem ég sýndi af mér um helgina fólst í strauingum. Slíka iðju hef ég ekki stundað í óhófi síðustu ár, enda straujaði ég mér eiginlega til óbóta sumrin þegar ég var þrettán, fjórtán og fimmtán og stundaði barnapíustörf (ásamt óendanlegum strauingum) hjá frændfólki mínu „heima“ á Grænavatni.

[Viðbót nokkru eftir að þetta var skrifað: Á einhverri stærðfræðisíðu (mjög neðarlega) fann ég ofsalega fínar Grænavatns-myndir. Fyndið hvað maður grefur upp á ólíklegustu stöðum á netinu. Ef myndir á borð við þessar færa ekki öllum heim sanninn um það að sveitin mín sé sú fallegasta í heimi er fólki ekki viðbjargandi!]

Þegar ég fór að búa ein beitti ég árum saman snilldartrikki til að forðast strauingapervertisma: ég tók nefnilega meðvitaða ákvörðun um að eiga ekki strauborð. Með því móti verður svo mikið vesen að strauja (maður þarf þá að rýma til á einhverju borði og tína til eitthvert drasl til að breiða á það) að slíkur verknaður verður ekki stundaður nema einstaklega brýna nauðsyn beri til. En paradísarmissir varð í fyrra þegar móðir mín ákvað að þetta væri ófremdarástand og keypti handa mér strauborð (án þess að biðja mig um leyfi). Síðan hefur straujárnið verið notað mun oftar en áður. Og ég skal gera þá játningu að ég er aftur farin að strauja rúmfötin mín. Og bendlaböndin með ef svoleiðis dót er að þvælast fyrir. (Lengra nær strauingabilunin samt ekki. Ég hef heyrt um fólk sem straujar handklæði og nærbrækur, en það ætti nú bara að leggja inn á stofnun.)

Svo horfði ég slatta á vídeó og á HM í frjálsum. Mæli með skrifum rafmagnsbloggarans um hið síðarnefnda. (Sá pistill er ekki svo galinn þótt sama sé ekki að segja um villigötur Stefáns í Andrésar-málum. Ég hef sagt það áður og segi það enn: Íslenskur Andrés flokkast undir menningarspjöll.)

Já, alveg rétt, jarðskjálftinn. Í miðju vídeóglápi aðfaranótt laugardagsins truflaði einhver bölvaður hvinur mig. Skildi ekkert í því að flugvélum væri leyft að taka á loft klukkan tvö að nóttu, sérstaklega svona háværum kvikindum. En fljótlega eftir að bylgjuhreyfingar gengu um fleira en gluggarúðurnar og risahönd virtist kippa snöggt í húsið áttaði ég mig á þeim möguleika að náttúrufræðilegri skýringar gætu verið á málinu. Var samt tiltölulega róleg þangað til ég kveikti á útvarpinu og heyrði mann segja ofurrólegri röddu að gott væri að leita skjóls í bílum og hafa með sér vasaljós. Þar sem ég á hvorki vasaljós né bíl virtist augljóst að dagar mínir væru taldir. Í stöðunni var ekkert til ráða nema taka örlögunum af stóískri ró og fá sér meira rauðvín.

Útvarpið var annars stórfyndið þessa nótt. Lesið endilega absúrdleikritið hans Palla, þar eru nokkur prýðisdæmi.

föstudagur, 22. ágúst 2003

Hvort er betra: stundarbrjálæði eða meðvitaður brotavilji?
Málsatvik eru þessu: Eftir tveggja daga umhugsun fór ég og keypti skóna sem voru næstum orðnir hluti af slysainnkaupunum í fyrradag. (Flokkast sandalar með átta sentímetra pinnahæl ekki örugglega undir nauðsynjar?) Þegar ég kom aftur í vinnuna og sýndi Siggu nýju fínu skóna mína fékk ég mikinn og góðan stuðning – en hún benti mér samt á þá óþægilegu staðreynd að eiginlega hefði verið betra að kaupa þá um leið og allt hitt. Þá gæti ég nefnilega kennt um stundarbrjálæði. Núna hefði ég hins vegar tekið yfirvegaða ákvörðun um verknaðinn sem væri svolítið ískyggilegra. Það lýsti nefnilega sérdeildis meðvituðum brotavilja. Jafnvel einbeittum sérdeilis meðvituðum brotavilja.
Þessu get ég ekki neitað . Viðurkenni glæpinn – jafnvel fúslega. Veit líka að refsingin verður ekki umflúin. Vísa-reikningurinn á ekki eftir að gufa upp.
Nú vantar mig bara gott tækifæri til að nota skóna.
Hah! Frýjuorðin virkuðu – Nanna er byrjuð að blogga aftur (þ.e. Nanna Jóns, Kristjana Nanna, eða hvað ég á að kalla hana til aðgreiningar frá hinni blogg-Nönnunni). Hún er boðin velkomin aftur í bloggheima og óskað sem lengstra blogglífdaga. (P.S. Nanna, ofsalega líst mér vel á þetta MA-skrall sem þú ert að boða í næstu viku.)

fimmtudagur, 21. ágúst 2003

Tíminn líður skelfilega hratt. Í gær fór ég í klippingu – og þótt einhverjir kynnu að halda að það væri ekki í frásögur færandi væri það mesti misskilningur því að núna voru heilir níu mánuðir liðnir síðan ég hafði síðast hleypt skærum í hausinn á mér. Þá var reyndar liðið ár frá því næst á undan, þannig að ég er augljóslega á réttri leið. Kannski tekst mér að koma mér næst af stað eftir hálft ár. Aldrei að vita.

Svo ætlaði ég eiginlega að sitja heima í gærkvöld og vinna – en fannst ég alltof mikil pæja svona nýklippt og í nýjum skóm og í nýju pilsi til að það væri réttlætanlegt að hanga ein heima, svo ég hringdi í Kristjönu Nönnu og dró hana á kaffihús. Á leiðinni heim gerði ég svo (enn eina) tilraun til að hvetja hana til að byrja að blogga – en þá varð hún kindarleg á svipinn og aulaði svo út úr sér uppljóstrun: Nanna byrjaði semsagt blogg í vor án þess að segja nokkrum manni frá því en hætti fljótt vegna þess að henni fannst bloggið ekki henta sér. Þvílíkt og annað eins. Reyndar er það að sumu leyti skiljanlegt fyrst hún hélt þessu leyndu. Blogg er fullkomlega tilgangslaust í tómarúmi, það verður fyrst skemmtilegt þegar einhvers konar díalógur er kominn á við önnur blogg.

Þess vegna ætla ég að vera andstyggileg og kvikindisleg vinkona og vísa hér á bloggið hennar Nönnu í von um að það geti rekið hana af stað aftur. Nanna vildi reyndar ekki gefa mér upp slóðina – en það var nú ekki mikill vandi að giska á hana; hér fann ég semsagt þetta efnilega blogg. Hvet eindregið til þess að þráðurinn verði tekinn upp á ný – ég skal alveg hjálpa til við linkagerð og þess háttar.
Slysin gera ekki boð á undan sér. Í gær keypti ég óvart þrjú pils og eina skó. Og sá aðra skó í búðinni sem mig langar hrikalega í. Ég held að mig vanti þá ábyggilega.
Hah! Þetta er ágætt.


YOU ARE MANDRAKE
What herb are you?
brought to you by Quizilla

föstudagur, 15. ágúst 2003

Meðmæli dagsins: Pistill Þórdísar um bloggheim vs. raunheim o.fl. Ég er sammála hverju einasta orði sem þarna stendur.
Nanna spekúlerar í því hvort Fréttablaðið hafi ekki bráðum efni á að ráða sér prófarkalesara, og bendir á klausu af forsíðunni sem kæmist trúlega nokkuð áleiðis í keppni um sem flestar villur í sem stystum texta. Þetta eru ekki einu frumlegheitin í stafsetningu sem blaðið í dag geymir, því þar er m.a. viðtal við Charlotte Bøving, leikkonu – eða ég geri ráð fyrir að hún sé viðmælandinn. Sú hugmynd byggist reyndar eingöngu á ályktunarhæfni, því bæði fornafn og eftirnafn er skrifað á ýmsa vegu en aldrei tekst að hafa það rétt. Aumingja konan er ýmist kölluð „Carlotte Bövin“ eða „Carloette“. Finnst Fréttablaðinu kannski úrelt krafa að blaðamenn eigi að hafa einhverja hugmynd um hvað viðmælendur þeirra heita? Eða að þeir eigi a.m.k. að hafa rænu á að athuga hvernig á að skrifa nafnið ef þeir eru ekki vissir.
Rusltölvupóstur er stundum (óvart) fyndinn. Eða kannski hlægilegur. Ég er allavega búin að flissa töluvert yfir því að einhver úti í heimi skuli halda að ég þurfi að bæta þremur skálastærðum við brjóstin á mér. Það er nokkuð ljóst að viðkomandi hefur aldrei séð mig.

fimmtudagur, 14. ágúst 2003

Held að ég sé með krónískan einbeitingarskort.

þriðjudagur, 12. ágúst 2003

Skífusystemið í sundlaugunum er ótrúlega þreytandi. Pirrandi að þurfa að leita uppi starfsmann til þess eins að geta opnað skápinn aftur OG lokað honum líka. Alla vega fyrir rata eins og mig sem uppgötva stundum í sturtunni að gleraugun eru enn á nefinu.

mánudagur, 11. ágúst 2003

Ái! Var að uppgötva að ég er búin að sitja heimskulega lengi við tölvuna án þess að hreyfa mig – með hausinn fáránlega skakkan í sömu stellingu allan tímann. Teygjuæfingar eru greinilega tímabærar – þótt fyrr hefði verið.

föstudagur, 8. ágúst 2003

Jóna Finndís, vinkona mín, var að flytja upp í Grafarholt – af öllum stöðum. Hún er búin að bjóða mér í mat í kvöld, og ég hlakka mikið til, en er þó ekki laus við áhyggjur. Ferðalagið krefst nefnilega umtalsverðrar skipulagningar, allavega ef maður ferðast bara um á tveimur jafnfljótum og með stóru, gulu bílunum. Blessunarlega er þó ljóst að ég rata á staðinn, því Jóna Finndís hélt afbragðs innflutningspartí fyrir nokkru síðan og mér tókst bæði að komast þangað og aftur til byggða – en ég get því miður ekki endurnýtt ferðaplanið síðan þá, af ýmsum ástæðum, þannig að ég þarf að gera nýtt. Einfaldast væri að fara beint úr vinnunni, en ég var ekki nógu forsjál í morgun og neyðist því til að fara heim fyrst. En ég er búin að föndra nákvæma áætlun sem er svo nördaleg að hún hlýtur að eiga eftir að virka (ó, hvað ég er bjartsýn!).
Hjartarbúð, sem var nefnd hér að neðan, er merkileg sjoppa. Eitt af því athyglisverðasta er að eigandinn nefnist alls ekki Hjörtur. Ó nei, hann heitir nefnilega Óli.

Þetta er eitt af mörgum dæmum sem sanna það að tungumálið er alls ekki gagnsætt og/eða lógískt fyrirbæri.
Ó mig auma! Um nokkurt skeið – á þriðju viku – hef ég sýnt af mér ótrúlega heilsusamlega hegðun. Í því hefur m.a. falist bindindi á allt sem fellur undir skilgreiningu mína á súkkulaði og öðru sælgæti. (Til að öllu sé til skila haldið skal tekið fram að súkkulaðikaka skilgreinist ekki sem sælgæti. Hún er matur.)

Þessu skeiði er lokið í bili. Ég er fallin. Rétt áðan æddi ég stjórnlaust út í Hjartarbúð og sit nú hér við tölvuna og graðga í mig lakkrísdraum. Einhver reynir kannski að halda því fram að þetta sýni veiklyndi og staðfestuskort, en því hafna ég alfarið. Ég lenti í því um daginn að ættleiða lögfræðikennslubók og þetta er augljóslega allt henni að kenna. Eða einhverju. Bara einhverju allt öðru en sjálfri mér!
casablanca
"You must remember this, a kiss is still a kiss".
Your romance is Casablanca. A classic story of love in trying times,
chock full of both cynicism and hope. You obviously believe in true love,
but you're also constantly aware of practicality and societal expectations.
That's not always fun, but at least it's realistic.
Try not to let the Nazis get you down too much.

What Romance Movie Best Represents Your Love Life?
brought to you by Quizilla

Samkvæmt þessu ágæta nördaprófi (linkur frá Nönnu) er ég 24,44379% nörd sem telst vera „total geek“, og ég ýkti ekkert tiltakanlega mikið. Er það ekki skikkanlegur árangur?

miðvikudagur, 6. ágúst 2003

Dauði og djöfull. Af hverju eru nælonsokkabuxur svona mikið drasl? Af hverju?! Eins og þetta er mikil ágætis uppfinning að ýmsu leyti – nælonsokkabuxur eru stórlega vanmetnar sem skjólflíkur. Ef þær gætu bara enst lengur en örfáa klukkutíma áður en grípa þarf til björgunaraðgerða með naglalakki.
Kertafleyting í kvöld. Skyldumæting.

þriðjudagur, 5. ágúst 2003

Held að ég nenni ekki að blogga í dag.

sunnudagur, 3. ágúst 2003

Af hverju er veðrið svona óheyrilega gott? Öll mín plön um vinnusemi þessa helgina eru á hraðri leið í vaskinn. Í dag var meiningin að fara í vinnuna fljótlega upp úr hádegi – og ég ætlaði sko að koma hrikalega miklu í verk – en ýmislegt hefur tafið fyrir. Kom mér auðvitað alltof seint af stað (einu sinni sem oftar), og þar sem sólin skein svo fallega asnaðist ég til að ganga niður í bæ til að taka strætó þar (í staðinn fyrir að taka hann beint að heiman), og þegar þangað var komið fylltist ég fullvissu um að það væri beinlínis syndsamlegt að njóta veðurblíðunnar ekki aðeins lengur þannig að ég hékk og slæptist drjúga stund, settist svo á grasið á Austurvelli og las Agöthu Christie í meira en klukkutíma. Á endanum sparkaði ég sjálfri mér þó af stað og er mætt í vinnuna núna, en efast stórlega um að ég endist lengi. Þótt ég sitji ekki við glugga og ætti því að geta leitt þetta dýrlega sumar hjá mér, þá veit ég alltof vel af því þarna úti.

föstudagur, 1. ágúst 2003

Kristbjörn segir að ég sé „kominn langt með að stofna stuðningshóp bókafíkla“.
Kominn?
Ég vissi ekki að ég hefði farið í kynskiptiaðgerð nýlega.
Nei sko! Margumtöluð bókasending frá Amazon.co.uk er komin, jafnvel þótt apríl sé ennþá víðs fjarri. Það er gleðiefni.
Namm. Dökkt súkkulaði. Namminamm.

Dark Chocolate
You are Dark Chocolate. Very mysterious.
People want to like you, but you scare them a little.

What Kind of Chocolate are You?
brought to you by Quizilla

fimmtudagur, 31. júlí 2003

Meira af bókafíkn. Ég er nefnilega svo langt leidd að ég hef keypt bók (!) um efnið. Hún heitir einfaldlega Biblioholism! og á forsíðu er fyrirbærið skýrt svo: „the habitual longing to purchase, read, store, admire and consume books in excess“. Þetta virðist falla fullkomlega að skilgreiningu Ásu á meintum vanda (þótt fyrir hönd sjálfsstyrkingarhópsins hafni ég því alfarið að um nokkurn vanda sé að ræða).

Í þessari ágætu bók eru m.a. persónuleikaprófin „Ertu bóka-alki?“ og „Hversu illa ertu haldin(n)?“ Í því síðarnefnda fæ ég niðurstöðuna: „If you don't have a problem now, it's only a matter of time until you hear the voices and see the hideous little insects crawling up and down your arm.“
Þá veit ég það.

Kannast fleiri en ég við að vera sérlega veikir fyrir bókum um bækur, lestur o.þ.h.? Í sendingunni sem er á leiðinni til mín frá Amazon eru m.a. Bibliotherapy (sem snýst, eins og nafnið gefur til kynna, um bækur sem krísumeðal) og bók um bókmenntaspæjara sem rannsakar m.a. bókmenntaglæpi og fer jafnvel inn í söguþráð bóka í því skyni! Þetta er fyrsta bókin af a.m.k. þremur, ég er búin að lesa miðbókina, Lost in a Good Book, og komst að því að ég þyrfti tvímælalaust að lesa meira.

Ég frestaði kaupum á Women who love Books too much en það líður ábyggilega ekki á löngu þangað til ég geri ráðstafanir til að komast yfir hana.

Ætli þetta sé sérstakt áhyggjuefni – eða á ég að halda því fram að tilgangurinn sé að byggja upp bókasafn fyrir sjálfsstyrkingarhópinn? (Hugmyndum um að með þessum orðum sé ég eingöngu að göfga og réttlæta óhófleg bókakaup er fyrirfram hafnað!)
Hvað skyldi orðið hljúfa merkja? Þórdís er að velta málinu fyrir sér.
Mikið er langt síðan heyrst hefur í nafnleyndarbloggaranum.
Maður fer að hafa áhyggjur.
Meðal þess síðasta sem heyrðist frá henni var annars:
„Vofa þess sem aldrei varð er að ofsækja mig.“
Þessi orð gæti ég alveg gert að mínum.
Orðskrípi dagsins:
  • staðgöngumæðrun

Mæðrun? Mæðrun?!!! Sko, ég get alveg séð að þetta er myndað á sma hátt og feðrun og er trúlega alveg lógískt. En þetta er samt viðbjóðslega ljótt.

miðvikudagur, 30. júlí 2003

Að baki eru töluverðar vangaveltur um það hvort ég eigi að:
a) vinna lengur og fara svo í sund, eða
b) fara í sund núna og mæta svo aftur í vinnuna.

Niðurstaða er fengin. Sambland af hvoru tveggja:
Ég er farin í sund núna – og síðan heim.
Ætla ekki aftur í vinnuna (fyrr en í fyrramálið).
Tilkynnist hér með.
Um daginn kveinaði ég yfir Amazon.co.uk sem sagði að bækurnar sem ég var að panta myndu ekki komast til mín fyrr en í apríl á næsta ári. Síðan hef ég uppgötvað að ég laug því að ekki væri sögð lengri bið eftir neinni bókanna en átta dagar, því að ein bókin var ekki komin út þegar ég pantaði. En það átti að gerast 1. ágúst, þannig að ég sá ekki hvað átti að tefja svona hrikalega fyrir.
[Innskot: Er spennt að sjá á hvaða brautum Minette Walters er í þessari bók. Krimmarnir hennar eru nefnilega svo fjölbreyttir. Sú síðasta var hins vegar meiri þriller en krimmi – vonandi hefur hún fært sig til baka á krimmaslóðirnar, ég er meira fyrir þá deildina.]
Jæja, önnur bók í pöntuninni var líka svolítið sér á parti, því hún var sögð "print on demand" en engu að síður tiltæk innan 6–7 daga að jafnaði. Ástæðan fyrir útburði í apríl var því enn á huldu.

Ég ákvað samt að bíða róleg í nokkra daga áður en ég hellti mér yfir kvörtunardeildina – og stundum vinnur þolinmæðin þrautir allar (eða sumar), því rétt í þessu kom tölvupóstur um að pakkinn væri farinn af stað. En afhending er ennþá áætluð 22.–26. apríl. Það virðist því augljóst að dreifingardeildin hjá Amazon hafi tekið snigla í þjónustu sína. Nema dagatalið í tölvukerfinu þeirra sé í fokki. Hvort ætli sé líklegra?
Persónuleikapróf dagsins!

Polygon

This quiz says absolutely nothing about your personality. Take it!

þriðjudagur, 29. júlí 2003

Ása hefur áhyggjur af bókafíkn sinni. Hún virðist óttast að það sé óeðlilegt hvað henni finnst: „... gaman að kaupa bækur, eiga bækur, lesa bækur, strjúka bókum, merkja bækur ...“

Ég kannast mjög vel við þessi einkenni af eigin raun, og skal alveg stofna sjálfsstyrkingarhóp fyrir bókafíkla með Ásu – en ég hafna algjörlega tólf spora kerfinu sem Ása kallar eftir. Minn sjálfsstyrkingarhópur á að standa undir nafni, þ.e.a.s. vera styrkjandi í orðsins fyllstu merkingu. Þar eiga bókafíklar að geta leitað eftir stuðningi og skilningi þegar umhverfið reynir að koma því inn hjá þeim að bókafíkn sé afbrigðileg og hættuleg. Þar verða haldnar æfingar í því að koma sem flestum bókum fyrir í sem minnstu rými (skortur á bókahillum er vandamál sem allir bókafíklar kannast við). Og þar verða veitt góð ráð um greiðsludreifingu þegar bókakaupin hafa alveg farið með vísa-kortið. Svo fátt eitt sé nefnt.

Hver vill vera með?
Enn eitt persónuleikapróf. Hlýt að vera komin langt fram úr ráðlögðum skammti af þeim síðustu vikuna.

Ambaga dagsins:
... þau tilboð sem eru í boði ...
P.S. Af hverju er orðið ambaga annars svona asnalegt í eintölu?
Mamma á afmæli í dag. Ég held að hún lesi bloggið mitt sjaldan eða aldrei en samt fær hún afmæliskveðjur hér.
Hrmpf! ShoutOut-ið virtist komið í lag, þannig að ég skellti því inn á ný, en nú er það að eipa einu sinni enn – birtist ekki en þyngir síðuna fáránlega mikið, þannig að ég er búin að henda því aftur. Þetta fer að verða svolítið þreytandi.
Þórdís er með mynd á síðunni sinni af hrikalega fallegum sólblómum sem hún er búin að rækta. Einhvern tíma ætla ég líka að gera svoleiðis.
(Þ.e. rækta sólblóm, ekki endilega vera með mynd af þeim. Þó er aldrei að vita.)

mánudagur, 28. júlí 2003

Meirihlutinn af samstarfsfólki mínu er í sumarfríi. Það þýðir að á hæðinni er ágætis vinnufriður, aldrei þessu vant, en það þýðir líka að allur fjandinn lendir á skrifborðinu mínu. (Mig minnir að ég hafi bloggað eitthvað svipað fyrir ári.) Reyndar hefur mér tekist að halda prjónauppskriftunum fjarri, en varð að gefast upp fyrir Andrési önd í dag þótt mér finnist enn sem fyrr mesta firra að gefa hann út á íslensku. Hefur dönskukunnáttu þjóðarinnar ekki hrakað verulega síðustu tuttugu árin? Það hlýtur að standa í beinu sambandi við íslenskan Andrés.

Reyndar er Andrés verðugt athugunarefni fyrir áhugamenn um málfar – einkum um upphrópanir. Æks! var mér t.d. fullkomlega ókunnug upphrópun þangað til í dag. Ó, já, orðaforði manns eykst stöðugt. Kannski ég ætti að skipta úr bókmenntanámi yfir í málfræðina og skrifa MA-ritgerð um upphrópanir í teiknimyndasögum með sérstakri áherslu á Andrés? Eða kannski gæti það orðið ágætis MA-ritgerðarefni í íslenskum bókmenntum. Með málfræðilegu ívafi.

Annars er það ekki bara Andrés sem tefur fyrir öðrum verkum, því ég hef líka lent í miklu kennslubókaprófarkaflóði sem virðist aldrei ætla að linna. Mun skemmtilegra hefur hins vegar verið að tefjast yfir barnabók eftir Madonnu (ákaflega sæt saga). En ég hef ekkert komist áfram í Rushdie-þýðingunni sem ég átti að vera búin að lesa yfir fyrir löngu. Úff.
Fyrir framan mig er próförk að kennslubók í stærðfræði. Hver í fjandanum bjó til orðið logri fyrir lógaritma? Held að þetta sé með því ljótasta sem ég hef séð. Jæja, gott og vel, lógaritmi á svosem aldrei eftir að komast langt í fegurðarsamkeppni orða – en samt ...

P.S. Ætli sami maðurinn (hvort heldur er karlkyns eða kvenkyns) beri ábyrgð á þessu og orðskrípinu vigri í staðinn fyrir vektor?

P.P.S. Augljóslega afhjúpar þetta röfl í mér allsherjar íhaldssemi, sem er ekki óalgeng í tengslum við orðaforða. Tilhneigingu til að vilja bara nota þau orð sem maður hefur sjálfur vanist. Ég vil t.d. líka diffra og heilda – sögnin tegra yfir það síðarnefnda kemst tvímælalaust í flokk með ljótustu orðunum ásamt þeim fyrrnefndu. Logri, vigri, tegra ... Oj bara. Hvað er þetta eiginlega með samstöfuna -gr-? Er einhver að reyna að troða henni inn í hvert einasta stærðfræðiorð?
Helgin er búin að vera ákaflega tíðindalaus. Vann lengi fram eftir á föstudagskvöldið, var algjörlega búin í hausnum og sársvöng að auki þegar ég hélt loksins heim á leið, íhugaði að koma við á Eldsmiðjunni á leiðinni og labba með pítsuna heim, ákvað að ég nennti því ekki og vildi frekar láta færa mér pítsuna, hringdi undireins og heim var komið, til þess eins að uppgötva að Eldmiðjan væri hætt að senda heim. Það lá við að ég legðist í alvarlegt þunglyndi en ég var of svöng til þess. Nennti þó ekki að elda, þannig að ég lét mig hafa það að panta frá þeim auma stað Domino's. Mundi ekki eftir neinum öðrum. Reyni svo sannarlega að rifja aðra möguleika upp áður en pítsuhungrið sverfur að næst, því miðað við bragðið af Domino's botnunum geta þeir tæplega verið úr öðru en plasti. Reyndi að horfa á heilalausa vídeómynd fyrir svefninn, en rotaðist uppi í sófa.

Svaf alltof lengi á laugardeginum (ekki í fyrsta skipti), kom mér af stað í vinnuna seint og um síðir, freistaðist til að slæpast alltof lengi í danska bakaríinu á leiðinni (stórhættulegt að eiga leið framhjá því), komst í vinnuna á endanum, var ekki eins lengi og ég ætlaði, gekk heim með viðkomu á Vegamótum (af hverju er steikarsamlokan þar svona hrikalega góð?), gerði aðra tilraun til að horfa á heilalausa mynd, gekk betur í þetta skiptið ...

Já, eitthvað á þessa leið er þetta allt búið að vera. Ætlaði að vera dugleg að vinna, góðu áformin fóru út um þúfur, er meira búin að hanga og hangsa og slæpast o.s.frv. Jamm og já.

Þessi færsla er trúlega skólabókardæmi um tepokablogg.
Haha! Þetta er fyndið!

I'm going to Hell because I like Harry Potter!
You like Harry Potter, you scum.
It's the deepest pit in Hell for you.
Your very existence is a crime against Nature.

Why Will You Go To Hell?

brought to you by Quizilla

sunnudagur, 27. júlí 2003

Man ekki hvort ég var einhvern tíma búin að taka þetta próf. Að sjálfsögðu trúi ég öllu sem þarna stendur, en einhvern veginn hefur mér samt tekist að missa af því að ég unni mér aldrei hvíldar fyrr en gólfin hjá mér séu tandurhrein. Reyndar væri ég alveg til í að gólfin væru alltaf hrein, en mér hefur tekist ótrúlega (?) vel fram að þessu að sofa rólega þótt reyndin sé stundum önnur. Einhverra hluta vegna. Ég verð greinilega að gerast taugaveiklaðri yfir þessu – á maður ekki annars alltaf að taka fullkomið mark á persónuleikaprófum?

HASH(0x873fa68)
obsessive compulsive


Which Personality Disorder Do You Have?
brought to you by Quizilla

föstudagur, 25. júlí 2003

Ég er svöööööng. Mig langar í eitthvað gott að borða. Akkuru er ég enn í vinnunni? [Lesist allt í yfirgengilegum vælutón.]
Ármann lætur eins og eitthvað sé athugavert við það að blogga niðurstöður úr persónuleikaprófum. Ég er svolítið að spekúlera í orðalaginu hjá honum. Má ekki túlka þetta svo að hann taki persónuleikapróf en vilji ekki að aðrir viti af því? Skammast hann sín fyrir verknaðinn – og/eða niðurstöðurnar?! ;)

fimmtudagur, 24. júlí 2003

Hmmm ...

Unsure
You're unsure whether you really want to smile or
not.You just curl your lips up at the corners a
bit and let that get you through your day.You
don't have all the answers,and you certainly
don't feel like going out to look for them.Stop
being so indecisive.
What Kind of Smile are You?
brought to you by Quizilla
Sjaldan er ein báran stök. Það verður sífellt skýrara að deginum í dag er sérlega illa við mig. Var að uppgötva að ofan á allt annað hef ég gleymt farsímanum mínum heima. Og ég sem hélt að útáþekju-kastið sem ég tók um daginn hefði dugað fyrir árið.
Arg ... Ekki nóg með að kommentakerfið mitt sé í klessu – eða kommentakerfin, ShoutOut-ið er í verkfalli, og Enetation sem ég var með tilbúið til vara er líka búið að vera í kasti; nú er ég búin að skella inn Haloscan sem vara-vara-kerfi, en ég vil ekki týna öllum gömlu kommentunum. En allavega, það eru ekki bara kommentin sem eru í klessu, heldur fjandans Blogger líka, hann birtir allavega engar færslur hjá mér núna. Það er greinilega ekki minn dagur í dag. Mér er skapi næst að fara heim og breiða upp fyrir haus, en það er þetta með pappírshaugana á skrifborðinu mínu ...
Ég er mesta svefnpurka í heimi. Í gærkvöld fór ég að sofa á tiltölulega skikkanlegum tíma. Las svo sem aðeins lengur en ég ætlaði, en það gerist næstum því alltaf og telst því ekki afbrigðilegt. Svo tékkaði ég sérstaklega á því hvort vekjarinn væri ekki rétt stilltur og kveikt á honum og svoleiðis. Þá sofnaði ég. Og svaf og svaf og svaf ... mjög rækilega. Vaknaði án þess að heyra í vekjaranum, og hélt að ég væri að hrökkva upp alltof snemma. Þangað til ég leit á klukkuna. Hana vantaði fimm mínútur í eitt.

Þetta er svo sem ekki frumraun mín í að sofa yfir mig eftir hádegi. Það hefur gerst einu sinni áður – síðan eru reyndar liðin um tíu ár, en atvikið varð samstundis frægt að endemum. Eitt vorið í menntaskóla átti ég að mæta í stærðfræðipróf klukkan eitt. Útsaumsfélagið (hún og ég) var nokkuð duglegt við að snúa sólarhringnum við í próftíð á þessum árum (og setti hvert metið af öðru í því að koma ógrynni af upplýsingum inn í skammtímaminnið daginn fyrir próf). Í þetta skiptið varð viðsnúningur sólarhringsins þó fullmikill hjá mér, því ég fór ekki að sofa fyrr en milli tíu og ellefu um morguninn, og missti algjörlega af því þegar vekjarinn hringdi skömmu seinna. Mætti einum og hálfum tíma of seint í þriggja tíma próf.

En núna var ég búin að sofa ágætlega lengi, þannig að ég get ekki borið við svefnleysi í þetta skiptið. Sennilega eru vandkvæði mín við að komast á fætur á morgnana séu farin að ganga út í öfgar. Fyrsta (?) lögmál Newtons (tregðulögmálið) sannast ískyggilega oft á mér. Hvernig er þetta aftur: hlutur í ákveðnu ástandi leitast við að halda því ... (æ, eitthvað á þessa leið, er það ekki?). Í mínu tilfelli virkar þetta svona: erfitt að komast í rúmið á kvöldin, erfitt að komast á fætur á morgnana. En þetta er orðið einum of.

miðvikudagur, 23. júlí 2003

Best að láta vinnu (og bloggi) lokið í dag. Farin í sund.
Ég missi bráðum allt traust á Amazon.co.uk. Nógu slæmt var að Harry Potter skyldi ekki vera sendur af stað fyrr en seint og um síðir um daginn (sbr. hér), en nýjustu horfur eru ennþá dularfyllri. Fyrir nokkrum dögum pantaði ég mér bækur (einu sinni sem oftar). Þær áttu svo sem ekki allar að vera tiltækar samstundis, en sú sem dýpst var á var þó sögð „usually dispatched within 8 days“. Af hverju í ósköpunum áætlar Amazon þá að bækurnar komist ekki til mín fyrr en 22.–26. apríl?! Þótt reikningskunnáttu minni hafi farið töluvert aftur síðustu árin er ástandið ekki svo dramatískt að ég geri mér ekki grein fyrir því að þangað til eru ekki bara nokkrir dagar heldur margir mánuðir. Ætlar Amazon að senda bækurnar hringinn í kringum hnöttinn fyrst? Með fótgangandi sendiboða? Er þetta eitthvert samsæri gegn mér?! Hvers á ég að gjalda?!
Þetta próf er ennþá betra:

Atheist
Threat rating: extremely low. You may think you can
subvert the government, but if you should try
you will be smited mightily because God likes
us best.

What threat to the Bush administration are you?
brought to you by Quizilla
Það er alltof langt síðan ég hef tekið persónuleikapróf. Hér er eitt ágætt:

sgt. pepper
Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band
Which Beatles Album Are You?
brought to you by Quizilla
Það er löngu kominn tími til að fjölga í tenglasafninu. En það dregst samt eitthvað lengur.
Alltof lengi hefur dregist að þakka Kettinum afbragðs pistil og vinsamlegar ábendingar um hættuna sem af pappír getur stafað.

Halda mætti að orsök bloggfalls að þessu sinni væri sú að martraðir mínar um pappírsdrukknun hefðu orðið að veruleika, en svo er ekki, þrátt fyrir allt. Pappír hefur þó flætt í stríðum straumum yfir skrifborðið mitt upp á síðkastið, en blessunarlega hefur að mestu tekist að halda flóðinu í skefjum. En ég hef þurft að berjast hetjulega til að ekki færi illa. Ó, já. Og að mestu má rekja bloggfallið til þess.

Ekki aðeins hefur verið barist við flóðið, heldur hefur einnig verið hugað að þeim pappírshaugum sem til staðar eru og uppröðuninni í þeim, með hliðsjón af réttmætri ábendingu Kattarins um að efnið á örlagavaldandi pappír skipti umtalsverðu máli. Fagur dauði er grundvallaratriði í þessu samhengi.

Annars virðast mögulegar pappírstengdar dánarorsakir að minnsta kosti geta verið þrjár:
  1. Drukknun (þ.e. köfnun), sbr. fyrri skrif mín um efnið.

  2. Högg, sbr. skrif Kattarins.

  3. Hlýtur ekki líka að vera hægt að skera sig svo illa á pappír að manni blæði út? Kannski væri það allnokkur fyrirhöfn, en tæknilega mögulegt engu að síður.
Sennilega er rétt að huga vel að því hvers konar dauðdagi verður fyrir valinu hverju sinni – og í öllum tilfellum er tvímælalaust rétt að gæta þess að pappírinn sé við hæfi og auki á fegurð dauðans fremur en að draga úr henni.

Höfundur þessara orða hefur ekki enn endurskipulagt bókahillurnar á heimili sínu með hliðsjón af þessum athugunum, en slíks er þó trúlega þörf. Málið verður athugað á næstunni, og nánari skýrsla gefin um framvinduna ef þurfa þykir.
Er töluvert annars hugar yfir ýmsu þessa dagana. Meðal annars er smá naflaskoðun í gangi (varúð, þetta er krísublogg!). Það sem er ekki síst að þvælast fyrir mér er þetta: Af hverju skyldi ég ótrúlega oft taka ólíkt á málunum eftir því hvort þau snúa fremur út á við eða inn á við?

Dæmi 1: Ég er yfirleitt mjög stundvís – þegar það breytir einhverju fyrir aðra en sjálfa mig hvenær ég mæti. Hef eiginlega alltaf komið stundvíslega á fundi, í kennslu (þ.e. þegar ég er kennarinn, ekki öfugt!) o.s.frv. En þegar skiptir engu fyrir aðra hvenær ég mæti fer iðulega allt í hönk. Auðvitað er oft þægilegt að geta sveigt hlutina til eftir því sem hentar. En stundum væri ekki slæmt að hafa hlutina í fastari skorðum.

Dæmi 2: Í vinnu o.þ.h. er ég oftast laus við ákvarðanafælni. Þá get ég oftast skorið úr um hlutina í snarhasti, allavega ef þess þarf. En ef ég stend frammi fyrir einhverju óvæntu prívat hef ég tilhneigingu til að þvæla málunum fyrir mér í það óendanlega. Hugsa mig um aftur og aftur og aftur ... Jafnvel í marga daga. Finnast ég þurfa að vera minnst 500% viss áður en ég tek ákvörðun. Minnst. – Og ef ég þarf að ákveða mig fljótt hef ég tilhneigingu til að vantreysta því sem mig langar til, og halda mig í farinu þar sem ég er vön að vera. Af því að það er „öruggara“ eða „auðveldara“ eða ég veit ekki hvað. Tek ekki áhættuna á einhverju nýju nema að svo vel athuguðu máli að stundum rennur tækifærið úr greipum manns. Þótt maður haldi að hægt sé að skipta um skoðun reynist það stundum of seint þegar til kemur.

föstudagur, 11. júlí 2003

Mikið verður maður skrýtinn í hausnum af að föndra nafnaskrár í bækur. Ég ætlaði að sitja yfir próförkum í kvöld, en held að það verði ekkert af því. Nokkuð viss um að hver einasta villa og allt mögulegt klúður færi framhjá mér. Vona að mér takist að vera dugleg um helgina, það eru að myndast ískyggilega miklir haugar á skrifborðinu mínu. Ef ekkert verður að gert fer þetta fer að enda með ósköpum. Kannski finnur samstarfsfólk mitt bráðum torkennilegan haug – þegar farið verður að róta í ruslinu kemur í ljós eitthvað sem einu sinni virðist hafa verið manneskja. Dánarorsök: (pappírs)drukknun.

Þetta eru ískyggilegar framtíðarhorfur en þrátt fyrir allt held ég að það sé gáfulegast að taka frí í kvöld. Veit samt ekki hvað ég á að gera. Hef takmarkaða orku til annars en að liggja uppi í sófa og glápa á sjónvarpið, en þar sem föstudagskvöld eru sjónvarpskvöld dauðans er það ekki nógu vænlegur kostur. Nenni ekki út á vídeóleigu þótt ég hefði ábyggilega gott af því að rölta út í góða veðrið – og reyna jafnvel að komast í gott skap yfir þessu fallega sumarveðri. Akkúrat þessa stundina finnst mér sumarið vera leiðindatími, en trúlega væri skynsamlegt að snúa við blaðinu.

miðvikudagur, 9. júlí 2003

Það er stórhættulegt fyrir mig að ganga framhjá fornbókabúðum – ég tala nú ekki um að reka nefið inn fyrir dyragættina. Eða öllu heldur: það er hættulegt fyrir vísakortið mitt og plássið (þ.e. plássleysið) í bókahillunum mínum. (Mig vantar fleiri bókahillur – reyndar er það krónískt vandamál.) Í dag rölti ég af rælni við hjá Gvendi dúllara á Klapparstígnum og rakst þar að sjálfsögðu á ýmsar bækur sem mig dauðlangaði í. Lít á það sem meiriháttar sjálfsaga-afrek að hafa bara keypt tvær. Og báðar vantaði mig nauðsynlega – en ekki hvað?!

Önnur bókin er Næturstaður eftir Snjólaugu Bragadóttur, fyrsta skáldsagan hennar, gefin út 1972. Þá á ég samlede værker Snjólaugar næstum því komplett, vantar bara síðustu bókina, Setið á svikráðum (frá 1986). En hún hlýtur að verða á vegi mínum fljótlega. Í nokkur ár er ég búin að ætla að skrifa ritgerð um bækur Snjólaugar, viðtökur þeirra og þvíumlíkt – með undirtitlinum „Eru ástarsögur mannskemmandi?“ Byrjaði meira að segja að safna að mér efni einhvern tíma, og fann m.a. blaðaviðtal við Snjólaugu undir fyrirsögninni: „Bækur mínar eru ekki mannskemmandi“! Klæjar reglulega í fingurna að komast í þetta; vonandi tekst mér að drífa í því áður en alltof langt um líður.

Seinni bókin sem ég keypti heitir Matreiðslubókin þín – í máli og myndum. Hún er órjúfanlegur hluti af bernsku minni og þess vegna keypti ég hana; þetta er þýdd matreiðslubók frá 8. áratugnum – einhverra hluta vegna stendur ekki í bókinni sjálfri hvenær hún kom út, en í Gegni sé ég að það hefur verið 1975 – árið sem ég fæddist! Við höfum greinilega fylgst að alla tíð, mamma átti (og á að sjálfsögðu enn) þessa bók og ég skoðaði hana hvað eftir annað þegar ég var krakki. Aftur og aftur og aftur ... Hún er mjög sérstök að því leyti að fremst eru myndir af öllum réttunum – oft er mörgum raðað saman á stórar myndir, jafnvel opnumyndir – uppskriftirnar koma svo aftast. Mér var nákvæmlega sama um uppskriftirnar en hefur alltaf fundist eitthvað sérlega heillandi við myndirnar, t.d. opnuna með pinnamatnum, síðuna með fylltu tómötunum, opnuna með öllu sænska saffranbrauðinu – og hvað þá pönnukökutertuna sem er ein á heilli opnu: hlaðin úr sjö þykkum pönnukökum með hindberjum og rjóma á milli, ofan á er svo hrúgað hindberjum og einhverjum öðrum berjum líka, litlum og dökkum (bláberjum?) – og svo hefur ekki bara verið stráð smávegis sykri yfir, heldur algjörri gommu. Dásamlegt. Ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tíma verið eldað upp úr bókinni á bernskuheimili mínu, og efast stórlega eftir um að ég eigi eftir að gera það. En ég á áreiðanlega eftir að skoða myndirnar oft og mörgum sinnum, alveg eins og þegar ég var krakki.
Af hverju í ósköpunum heitir eggaldin þessu nafni? Það er ekki einu sinni líkt eggi í laginu. Var það kannski einhvern tíma þannig?
Mig vantar nýja regnhlíf. Fína rauða regnhlífin mín er allavega heldur lasin. Kannski ætti ég samt að reyna að gera við hana einu sinni enn.

laugardagur, 5. júlí 2003

Svanhildur veltir því fyrir sér hvaða merking felist í draumi um að vera beðin að dæma í ljóðasamkeppni, sökum sterkrar stöðu á því sviði. Ekki ætla ég að reyna að ráða drauminn, en hins vegar þykir mér rétt að benda á að Svanhildur hefur lengi sýnt sérstaka hæfileika til ljóðgreiningar (leyfilegt er að skilja orðið sérstakir á ýmsa vegu), sem og yfirgripsmikla þekkingu á ljóðskáldum landsins (orðið yfirgripsmikil má sömuleiðis túlka margvíslega). Af þessu tilefni verður hér endurbirtur bútur úr Carminu-greininni um Svanhildi:
... Ljóð eiga ekki eins upp á pallborðið hjá henni, enda þótt hæfileikar hennar til ljóðgreiningar séu einstakir. Þekkja ekki allir kvæðið um „gaurana tvo sem urðu úti“?

Svanhildur er fyrsta Alzheimer-tilfelli bekkjarins, eins og glöggt sést ef umræður í íslenskutíma einum í 4. bekk eru skoðaðar:

Einhver: „Af hverju var Þorsteinn Erlingsson alltaf fátækur?“
Svansý: „Var hann kommúnisti?“ [Nokkru seinna:] „Jaaá, Þorsteinn frá Hamri. Var það hann sem dó úr berklum“ [Enn seinna:] „Kunni hann að mála? Nei annars, það var Muggur!“

Getraun dagsins er: Hvert er „kvæðið um „gaurana tvo sem urðu úti““? Verðlaunum er heitið.

föstudagur, 4. júlí 2003

Í sömu bók og vitnað var í hér að neðan er kafli um minnið – þar sem m.a. er fjallað um svokallaða minnisfestingu, minnisþrep, leifturminni o.fl. o.fl. Í tilefni af því ákvað skammtímaminnið hjá mér að fara í verkfall. Ég var óratíma að lesa kaflann; þurfti að byrja á sömu síðunni hvað eftir annað – því ég mundi engan veginn hvað ég hafði verið að lesa.

Í sama kafla kom skammstöfunin SM fyrir hvað eftir annað. Ég virðist vera frekar dónalega þenkjandi, allavega datt mér alltaf bara eitt í hug – og það var ekki „skynminni“.
„Skilyrt áreiti er áður hlutlaust áreiti sem vekur skilyrta svörun eftir að hafa verið parað við óskilyrta áreitið ...“
– Æ, það er nú ekki allt jafn skemmtilegt sem lendir á skrifborðinu manns til yfirlestrar.

miðvikudagur, 2. júlí 2003

Orðin í persónuleikaprófinu um snilligáfuna harmónera mjög skemmtilega við lýsinguna á stjörnumerkinu mínu sem ég sá í gær – eintak af því furðulega blaði Vikunni lá á kaffistofunni, og þar var stjörnumerkjaumfjöllun sem var lesin upphátt fyrir alla á svæðinu og reyndist mikið skemmtiatriði. En þar sagði semsagt um vatnsberann (c'est moi) eitthvað á þá leið að hann væri framsýnn og þótt það væri ekki alltaf tekið mark á honum kæmi jafnan í ljós á endanum að hann hefði haft rétt fyrir sér! (Hverjum er ekki sama þótt þetta sé slitið rækilega úr samhengi?!) Ég er að hugsa um að klippa þetta út og ramma það inn. Eða ganga með það á mér svo ég geti alltaf dregið þetta fram ef einhver gerist svo ósvífinn að draga eitthvað í efa sem ég segi. Sigga vinkona mín hélt því fram að það gæti ekki verið hollt fyrir besservissera eins og mig að heyra svona lagað – ég læt slíka fásinnu að sjálfsögðu sem vind um eyru þjóta!
Hey, þetta er skemmtilegt persónuleikapróf!

Where is my Mind?
You're smart, shy, and often nonsensical. You have dreams of being famous, and you're quirky enough that you just might pull them off. Some would call you a genius, others would call you insane, but in reality you're pretty well-adjusted. Take a vacation once in a while- it'll help take your mind off of your troubles.
Which Pixies song are you?


Ráðleggingarnar um að frí séu holl eru ábyggilega ógalnar – en ég sé samt ekki fram á að neinu slíku verði hrundið í framkvæmd á næstunni. Kannski ég eignist sumarfrí þegar (/ef) ég verð stór!

mánudagur, 30. júní 2003

Nei sko. ShoutOut-ið komst í lag akkúrat þegar ég setti hitt kerfið inn, þannig að ég henti því strax aftur.
Var að setja inn vara-kommentakerfi; það virðist ætla að dragast óhóflega að ShoutOut-ið komist í lag.
Tjáið ykkur nú endilega, kæru lesendur.

sunnudagur, 29. júní 2003

Eftir óralanga bið og mikla mæðu er ég loksins búin að fá nýju Harry Potter bókina. Og lesa hana. Tilveran er allt í einu orðin mun bjartari en áður (ég horfi algjörlega framhjá svartaþokunni fyrir utan gluggann). Ég var farin að halda að Amazon.co.uk ætlaði að svíkja mig, því að á heimasíðunni hjá þeim stóð um eintakið mitt: "dispatching soon" alveg frá föstudegi og fram á miðvikudag. Geðvonskan var orðin óheyrileg og ég var að farast úr afbrýðissemi út í fólk eins og Nönnu sem fékk sitt eintak strax á mánudaginn. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt!

Á miðvikudaginn kom loksins tilkynning um að bókin mín væri farin af stað (þá var ég búin að senda tölvupóst og kvarta, mjög kurteislega og fékk ennþá kurteislegra bréf til baka – ég held að manneskjan hjá kvörtunardeildinni hljóti að hafa klippt svarbréfið saman úr öllum tiltækum fyrirframskrifuðum kurteisisbréfum).

En allavega: fyrst bókin fór af stað á miðvikudeginum taldi ég vonlaust að hún yrði komin fyrir helgi, líklegast var að hún kæmi á mánudaginn, þannig að ég sá fram á að verða óhjákvæmilega frekar svefnlaus framan af vikunni. En hún kom semsagt á föstudaginn – og þvílík tilviljun að ég skyldi vera heima til að taka á móti henni. Eins og sumir vita hendir það öðru hverju (og óþarflega oft) að ég missi af strætó. Slíkar hörmungar valda að jafnaði umtalsverðum pirringi, en á föstudaginn urðu þær í fyrsta skipti á ævinni (og trúlega það síðasta líka) uppspretta gleði og hamingju!

Aðstæðurnar voru þessar: Ég var á leiðinni í vinnupartí og var dálítið mikið á hlaupum að taka mig til. Klukkan var orðin alltof margt og strætóinn sem ég ætlaði að taka nálgaðist óðfluga, þannig að í miðju andlitsföndri sópaði ég málningardraslinu niður í tösku og hljóp út úr húsi, með það að markmiði að setja á mig maskarann og varalitinn í strætó (ekki í fyrsta skipti). En stóri guli bíllinn var kominn lengra en vonir mínar stóðu til. Tímaáætlanir okkar fóru augljóslega ekki saman. Jæja, við því var ekkert að gera, ég fór þá bara heim aftur, kláraði að setja á mig andlitið, og ætlaði svo að gera tilraun númer tvö til að ná strætó. Ég gekk að útidyrunum, lagði höndina á hurðarhúninn, en þá hringdi dyrabjallan – og nei sko: var ekki pósturinn mættur með Harry Potter bókina mína. Ef ég hefði náð strætó í fyrstu tilraun hefði ég ekki verið heima til að taka á móti henni – þannig að þegar ég hefði komið heim um kvöldið hefði beðið eftir mér miði um að pakkinn minn væri á pósthúsinu – þannig að ég hefði þurft að kveljast yfir biðinni alla helgina, meðvituð um að ef ég hefði bara haldið mig heima væri ég komin með bókina í hendurnar. En þetta fór semsagt allt á besta veg – og ég kláraði bókina í morgun. Þarf ekki að vera svefnlaus í vikunni, nema þá af einhverjum öðrum orsökum.

föstudagur, 27. júní 2003

Á fyrri hluta nýliðins blogglægðartímabils tók ég rækilegt útáþekju-kast. Reyndar var farið að örla á því áður (sjá hér) en utanviðsigheit mín ríða sjaldnast við einteyming. Núna bar þetta hæst:
  • Nokkrum dögum eftir að ég læsti mig úti eins og áður hefur verið lýst var ég búin að vera í vinnunni í nokkra klukkutíma þegar ég uppgötvaði að hálsmálið á bolnum mínum var eitthvað skrýtið. Það var svo undarlega hátt að framan. Við nánari athugun kom að sjálfsögðu í ljós að bolurinn sneri öfugt.
  • Skömmu seinna læsti ég töskuna mína inni í vinnunni (með lyklum og peningaveski og öllu).
  • Örfáum dögum eftir það sat ég í strætó á leiðinni í vinnuna. Stoppistöðin mín nálgaðist óðfluga og ég hringdi bjöllunni. – Nota bene: ég hringdi bjöllunni. – Skömmu seinna stoppaði strætó á stoppistöðinni minni, fólk fór út, strætó keyrði áfram – og ég sat ennþá í honum. Ég mundi semsagt eftir því að hringja bjöllunni, en steingleymdi að standa upp og fara út úr vagninum.
Blessunarlega er þetta kast gengið yfir, ég hef allavega verið tiltölulega eðlileg upp á síðkastið (held ég). En trúlega er það bara lognið á undan næsta stormi.
Mér tókst að losna við spurningarmerkjavandamálið sem hefur tröllriðið bloggheimum áður en ég sendi færsluna frá mér – nema í nafninu mínu undir færslunum. Getur einhver sagt mér hvernig stendur á því? (Ef kommentakerfið kemst einhvern tíma í lag.)
Sko: Ástæðan fyrir því að ég lendi stundum (eða oft og iðulega) í illvígri blogglægð er ósjaldan sú að eitthvað skemmtilegt gerist sem ég ætla að blogga rækilega um en svo finn ég mér ekki tíma til þess strax. Undireins og nokkrir dagar eru liðnir er orðið átak að blogga og af því að maður ætlaði að blogga um eitthvað ákveðið en er ekki búinn að því, þá bloggar maður ekki heldur um öll kjánalegu smáatriðin í daglega lífinu sem maður myndi annars blogga um – af því að það á ekki að gerast fyrr en maður er búinn að blogga um það sem blogga átti vandlega um. (Ef einhverjum finnst þessar útskýringar ruglingslegar er það alls ekki mér að kenna. Bara lesandanum sjálfum. Er það ekki?)

Allavega: Það sem ég ætlaði (hérna einu sinni) að blogga vandlega um var landsbyggðarráðstefnan á Akureyri en ætli minningarnar um hana verði ekki að mestu að varðveitast í huganum og í munnlegri geymd í staðinn. Við lentum ekki í neinni alvöru lífshættu í þetta skiptið (ólíkt svaðilförinni út í Flatey á landsbyggðarráðstefnunni í hittiðfyrra) en ferðin var eftirminnileg engu að síður og stórskemmtileg; smaladans/smalahopp prófessoranna var tvímælalaust einn af hápunktunum, sem og það að kynnast Hilmu í raunheiminum.

Á þessum tæpa mánuði sem síðan er liðinn er heilmargt skemmtilegt búið að gerast, en ég man næstum ekkert af því eins og er. Jú, annars, tveimur vikum eftir ráðstefnuna fór ég aftur norður. (Norðurferðirnar á þessu ári eru þá orðnar þrjár sem er eiginlega óhóflegt. Held að það dugi alveg á árinu. Allavega fram að jólum.) Í þetta skipti var tilefnið það að Brynja frænka mín varð stúdent, sem var mjög skemmtilegt.

(Það minnir mig reyndar á að á næsta ári verð ég tíu ára stúdent. Það verður ábyggilega hrikalega gaman – en það er svolítið ískyggilegt hvað tíminn líður hratt!)

fimmtudagur, 5. júní 2003

Fyndnasta prentvilla dagsins:
  • þrumuverður

mánudagur, 2. júní 2003

Fögnuður og gleði! Bloggari dauðans er hættur að vera dauður og byrjaður að blogga aftur. Til hamingju með upprisuna, Ármann!

miðvikudagur, 28. maí 2003

Í dag á ég eins árs bloggafmæli. Hátíðahöld í tilefni dagsins verða engin, en ég vona að í kvöld takist mér að mestu að klára fyrirlesturinn minn fyrir landsbyggðarráðstefnuna. Getur einhver útskýrt af hverju mér virðist fyrirmunað að gera hlutina öðruvísi en á síðustu stundu?

Á þessu ári sem liðið er frá upphafi bloggs hef ég annars:
  1. Unnið hjá Alþingi, svo hjá Eddu, þá aftur hjá þinginu, síðan tók líf mitt glænýja stefnu því ég fór að kenna í MH, en nú er kennslan að baki og ég er komin aftur til Eddunnar. En dvölin hér verður tæplega löng.

  2. Hmm ... hvað get ég haft númer tvö? Ja ... það er nú það ...
Einhvern veginn finnst mér fátt standa eftir nema vinnan. Auðvitað hef ég gert ótalmargt skemmtilegt, en það er líka svo margt sem ég hef ekki gert (m.a. af því að ég hef alltaf verið að vinna). Ég hef t.d. ekkert komist áfram í MA-náminu. En það á nú samt eftir að hafast á endanum. Einhvern tíma.

þriðjudagur, 27. maí 2003

Ja hérna! Léttúðarhjal um bloggáfanga hér fyrir neðan (í kommentum við þessa færslu) hefur leitt til þess að ég er orðin tilefni könnunar á þessari síðu. Minnir mig á að í eitt af þeim (ófáu) skiptum þegar ég blandaði Bráðavaktinni í íslenskukennsluna spurði nemendurnir hvort ég vildi ekki bara kenna sérstakan Bráðavaktaráfanga. Kannski ég ætti bjarta framtíð í námskeiðahaldi um léttúðug efni sem byrja á b. Blogg, Bráðavaktin ... það er ábyggilega hægt að finna eitthvað fleira. Hvað ætli lausleg athugun á orðabókinni leiði í ljós? Badminton og bakaraiðn væru kannski ekki alveg mín deild og bestukjarasamningar tæplega heldur (já, það virðist vera til sem orð í alvörunni!). Nei, upp úr orðabókinni hef ég ekkert í fljótu bragði, nema að sjálfsögðu ýmis skemmtileg orð, t.d. bínarður, boðvangur, bogmekktur, bogstafasýki, bókadoppa, bragþjófur, bráðaþeyr, breddufluga, breksamur, Brettívumessa, bréferfingi, brigðinn, brytöxi, buddingjaspýta, buklari, burtfararbiti, búdd-búdd (!), búsúkí, böðlastaup o.fl. o.fl. Já, það er gaman að lesa orðabækur. En þetta eru varla efnileg námskeiðsefni. Held áfram að leggja höfuðið í bleyti.

mánudagur, 26. maí 2003

Sumir morgnar eru svo mikið klúður hjá mér að það verður stórfellt vafamál að ég geti talist sjálfbjarga manneskja. Dagurinn í dag byrjaði reyndar á mjög hefðbundinn hátt, þ.e. á baráttunni við vekjaraklukkuna – hún reynir á hverjum morgni að telja mér trú um að það sé kominn nýr dagur og ég reyni að hafna þeirri staðreynd eins lengi og ég mögulega get. En það er bara fastur liður og ekkert sérstakt áhyggjuefni, enda vann vekjaraklukkan líka á endanum (eins og venjulega). Nokkru eftir að ég drattaðist upp úr rúminu komst ég hins vegar að því að úrið mitt var orðið galið. Ekki nóg með að það hefði seinkað sér verulega heldur var sekúnduvísirinn hættur að hreyfast eðlilega og tók fimm sekúndna stökk í staðinn. En ég hafði aðrar leiðir til að komast að því hvað tímanum leið, þannig að þegar hér var komið sögu hélt ég enn að þetta yrði hinn ágætasti dagur, þrátt fyrir allt. Sú skoðun staðfestist frekar á leiðinni út á strætóstoppistöð, því það var mesta blíðskaparveður, sólin skein, fuglarnir sungu o.s.frv. En þá fóru óþægilegar staðreyndir að dúkka upp. Ég opnaði töskuna og ætlaði að draga upp veskið mitt – en úpps, ég hafði gleymt því heima. Og úpps, þar með var græna kortið líka læst inni og – enn meira úpps – húslyklarnir höfðu líka orðið eftir heima, þannig að ég komst augljóslega ekki inn til að sækja veskið og græna kortið og það allt. Við tók göngutúr í vinnuna. Langur göngutúr. Ekki gott mál. Reyndar er ég vön að ganga um bæinn þveran og endilangan á undarlegustu tímum en þegar maður er þegar orðinn of seinn í vinnuna er þriggja kortera gönguferð kannski ekki það sem maður þarfnast mest. Það hefði ekki komið mér á óvart ef ég hefði klúðrað því að klæða mig líka, en blessunarlega reyndist ég vera í öllum fötunum og þau sneru líka öll rétt. Lít eiginlega á það sem meiriháttar afrek. Nú er bara að vona að aukalykillinn sem á að vera hjá frænku minni sé ekki týndur. En mér er spurn: Hvernig er hægt að vera svona misheppnuð á morgnana? Er mér almennt treystandi fyrir sjálfri mér? Ég er í mikilli tilvistarkreppu!