þriðjudagur, 9. september 2003

Leit allt í einu á síðustu færslurnar svona saman og varð ekki um sel. Örstuttar og armæðufullar. En af þessu skal ekki draga þá ályktun að ég sé sokkin í þunglyndi, heldur er þetta bara til marks um hvað bloggið endurspeglar raunveruleikann stundum illa. Því að þótt líf mitt sé tiltölulega tíðindalaust þessa dagana er það alls ekki slæmt. Og þótt ég sé svolítið andlaus er ég engan veginn í fýlu.

Er bara að berjast við að klára verk sem ég átti að vera búin með fyrir svo óralöngu síðan en hefur ýmist skort tíma eða einbeitingu. Sem er synd, því verkið er í rauninni mjög skemmtilegt. En það er óþolandi að dragnast með svonalagað í eilífðartíma án þess að geta klárað. Nú er þetta samt að hafast – enda er ég orðin það hrikalega sein að ég er komin á gamalkunnar slóðir í tilraunum á sjálfri mér, semsé að athuga hversu miklum svefni er hægt að fórna fyrir vinnu.

Það bætir svo sem ekki úr skák að ég hef verið ótrúlega dugleg við að finna mér fáránlegustu hluti aðra að gera. (Sú veiki virðist reyndar hafa verið að ganga, m.v. þessa bloggfærslu Þórdísar og kommentin við hana). Ég tók m.a. til í handavinnudótinu mínu um helgina. Það hafði beðið í ótalmarga mánuði og var fjarri því að vera aðkallandi núna. En ég gerði það samt. Og það sem meira er: Ég horfði á allan landsleikinn á laugardaginn. Held að ég ætti að hafa áhyggjur af sjálfri mér – þessi hegðun er svo úr karakter að það hálfa væri nóg. (Reyndar rifjast það upp fyrir mér núna að árið sem ég bjó í Þýskalandi horfði ég ótrúlega mikið á íþróttastöðvarnar í sjónvarpinu, þ.e. miðað við aðrar stöðvar. En það segir reyndar meira um þýskt sjónvarp en margt annað.)

En jæja, burtséð frá þessu er allt gott að frétta. Þótt reyndar sé ekkert að frétta. En eru engar fréttir ekki (stundum) góðar fréttir?

Er ég að verða óþarflega steikt núna?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli