föstudagur, 28. mars 2003

Þótt ég sé búin að vera ansi þögul hér hefur sú þögn ekki náð yfir allar víðáttur netsins. Ég er allavega búin að tjá mig mikið í kommentunum við þessa færslu hjá Þórdísi – þar eru búnar að vera skemmtilegar umræður um bloggformið og bækur. Þegar ég var að verða búin að skrifa þriðju langlokuna þar komst ég að því að sennilega væri betra að hafa umræður af þessu tagi inni á bloggsíðunum sjálfum en kommentakerfum (þau eru svo hverful). Ef þau sem ég hef verið að ræða málið við gefa mér leyfi ætla ég að kópera umræðurnar hingað inn á síðuna fljótlega.

fimmtudagur, 20. mars 2003

Alveg sammála Steinunni; aukafréttatíminn í sjónvarpinu um miðnættið var virkilega óhuggulegur. Ég sá upphafið á honum fyrir tilviljun; augun urðu á stærð við undirskálar strax í byrjun en voru orðin ennþá stærri en Sívaliturn eftir nokkrar mínútur; svo forviða var ég á þessu uppátæki. Ákvað svo að hætta að horfa áður en ennþá verr færi fyrir augunum. Og skapinu. Nógu ósmekklegt fannst mér að vera með aukafréttatíma, sem virtist eiga að þjóna þeim tilgangi einum að sýna upphaf stríðsins í beinni útsendingu ef fréttastofan yrði „heppin“ – en niðurtalningin sem Steinunn minntist á sló allt út. „Nú er hálftími þangað til fresturinn rennur út ... Nú eru tuttugu mínútur þangað til ...“

Annars er ekki rétt að eyða of mikilli orku í að fárast yfir fréttastofunni; það sem er að gerast í heiminum er auðvitað aðaláhyggjuefnið. Minni á mótmælin á Lækjartorgi kl. 17.30 í dag. Vona að sem allra, allra flestir mæti til að fordæma þetta viðbjóðslega stríð.

föstudagur, 14. mars 2003

Ég er snillingur! – Það stóð allavega á tölvuskjánum þegar ég var búin að taka vefpróf Eddu sem þykist mæla hvort maður er bókmenntaséní. Ágætis próf en samt óþarflega létt; ég bjóst allavega við álíka kvikindislegu prófi og því sem prófar íslenskukunnáttuna, en þar fékk ég háðulega útkomu svo ekki sé meira sagt. En í þessu bókmenntaprófi gat ég 19 af 20 og átti reyndar líka að vita tuttugasta svarið, þótt ég asnaðist til að merkja við annað. Vonast eftir framhaldsprófi sem mætti að ósekju reyna aðeins meira á heilasellurnar.

miðvikudagur, 12. mars 2003

Annað gott próf:


test yourself at fontlover.com!
Þetta var fróðlegt! Hvað ætli nemendur mínir myndu segja um málið?





Ég er Ármann Jakobsson!
Þú hefur miklar hugsjónir varðandi stjórnmál og ert mjög vinstrisinnaður en samt
hefurðu áhuga á eins jarðbundnum hlutum og hvað einhverjir bændur voru að gera
fyrir 1000 árum. Þú ert vægur við nemendurnar og talar ekki niður til þeirra en
getur verið kvikindislegur þegar kemur að prófum. Ágætur maður.



Taktu "Hvaða kennari 4.B ert þú?" prófið

Mér finnst að ég eigi að fara á Lilja 4-ever í bíó – en veit ekki hvort ég hef taugar í það. :( Hvað á ég að gera?

laugardagur, 8. mars 2003

Hefur kommentakerfið sjálfstæðan vilja? Var ekki fyrr búin að kvarta yfir vannýtingu þess en það fór í feluleik. Lagði á flótta, gufaði upp, var numið á brott af geimverum ... Eða eitthvað. Til þess mun þó hafa sést öðru hverju í dag, en í þessum skrifuðum orðum er það fullkomlega týnt. Er þetta til marks um að kerfið vilji bara vera til skrauts? Telji sig ekki ætlað til notkunar? Lýsir þetta skítlegu eðli þess? Eða einfaldlega brigðulleik nútímatækni? Æ, nei, það er svo einföld og leiðinleg skýring. Trúi ekki öðru en eitthvað flóknara liggi þarna að baki.
Akkuru er undantekning að fólk noti kommentakerfið hérna á síðunni?!!!

föstudagur, 7. mars 2003

Ég kannast vel við austurþýsku umferðarljósakallana sem Stefán bloggar um í dag og herferðina til að bjarga þeim. Rettet die Ampelmännchen! Á meira að segja bók sem heitir Das Buch vom Ampelmännchen og er „tileinkuð öllum fótgangendum“.Í henni er m.a. að finna kaflana „Das Ampelmännchen oder: Kleine östliche Verkehrsgeschichte“ og „Ampelmänner im zweiten Frühling“. Og hún er bara að öllu leyti frábær. Þar eru lika myndir af umferðarljósaköllum víðsvegar að úr heiminum – þeir austurþýsku eru langsætastir. Held að niðurstaðan hafi orðið sú að það hafi verið hætt að skipta austurþýsku köllunum kerfisbundið út – en held að ef ljós biluðu hafi samevrópska draslið átt að koma í staðinn. Veit ekki hvernig staðan er núna – verð greinilega að fara að komast til Þýskalands til að kanna málið. Man vel þegar ég var einhvern tíma búin að vera í München í nokkra daga og kom svo „heim“ til Leipzig, hvað það var notalegt að láta þessa gönguljósakalla taka á móti sér þegar ég gekk út af brautarstöðinni. Því miður keypti ég aldrei bol með myndum af þeim, það var alltaf á dagskrá en komst aldrei í verk. Ætli það sé enn hægt að fá þessa boli?

fimmtudagur, 6. mars 2003

Hótanir skila árangri! Hér að neðan gaf ég í skyn að aumingjabloggarar gætu þurrkast út úr tenglasafninu ef þeir bættu ekki ráð sitt, og þessi frýjuorð urðu til þess að Bjarni er búinn að gefa frá sér blogglífsmark – í fyrsta sinn í hálfan annan mánuð. Hann fær því sjens eitthvað lengur, en það þýðir ekki að hann sé laus undan „tengla-morðhótunum“ um aldur og ævi. Ó nei, ef hann dettur enn og aftur ofan í aumingjabloggræfildóm verður engin miskunn sýnd!

miðvikudagur, 5. mars 2003

Tiltekt í tenglasafninu hefur lengi staðið til, en einhvern veginn virðist mér ómögulegt að föndra við það oftar en á ársfjórðungsfresti eða þar um bil. Dugleysi mitt í þessum efnum er óheyrilegt. Það þýðir m.a. að sumir sem ég hef ætlað að setja tengil á lengi hafa hætt áður en mér tókst að tengja á þá, aðrir eru hættir og byrjaðir aftur og ég veit ekki hvað og hvað. En nú er ég allavega búin að stokka vinstri vænginn minn svolítið upp, og meira að segja búin að draga fólk í nokkra dilka. Sá dilkadráttur fer reyndar fyrst og fremst eftir því hvaðan ég þekki viðkomandi: flokkurinn „norðanmenn“ (minni á að konur eru líka menn) er til dæmis að mestu frátekinn fyrir fólk sem ég kynntist fyrir norðan. Engin regla er þó án undantekninga; ég set Ásu til dæmis í þennan flokk, þótt ég hafi ekki hitt hana nema einu sinni utan bloggheima. En grunnreglan er þó að flokkunin byggist ekki á því hvað eða hvaðan fólk er, heldur beiti ég hinu egósentríska viðmiði að mestu, semsé að grundvallaratriðið sé hvernig fólkið tengist mér.

Þótt aumingjabloggurum ætti eiginlega að varpa út í ystu myrkur fá einhverjir þeirra að lafa inni, a.m.k. í bili. Svo tími ég heldur ekki að henda út uppáhaldsbloggurum sem hafa yfirgefið blogg-tilverustigið formlega, og bjó því til flokkinn „dauðraríkið“ í veikri von um upprisu þeirra sem þangað hafa horfið. Ein ný krækja fer beint þangað inn; ég er búin að ætla að tengja á Hjört í marga mánuði og læt það ekki stoppa mig þótt hann sé nýbúinn að binda enda á nettilveru sína. Málfarsbrandarinn í dánartilkynningunni hans er líka svo lúmskur og skemmtilegur.

Fleiri nýir tenglar eru komnir til sögunnar. Gneistinn er til dæmis öflugur bloggari sem er lengi búinn að vera á leiðinni í tenglasafnið og er loksins kominn þangað núna. Nönnu Rögnvaldar þekki ég ekki í eigin persónu, en var búin að vera í hópi alls þögla fólksins á frábæra matarpóstlistanum hennar í óratíma, og gladdist mjög yfir því þegar hún ákvað að hefja nýtt líf í bloggheimum. Hildigunnur er svo annar snilldarbloggari (stutta kynningu á henni er að finna hér) sem lífgar stöðugt upp á tilveruna. Fyrir alllöngu síðan uppgötvaði ég svo bráðskemmtilegan bloggara, sem ég ætlaði alltaf að tengja á, en varð of sein, því viðkomandi var hrakin af netinu um tíma. En ef eitthvað er að marka ályktunarhæfni mína hefur hún skotið upp kollinum í bloggheimum á ný – í þetta sinn undir nafnleynd. Þetta ágæta nafnleyndarblogg er nú loksins komið í dálkinn hérna til hliðar.

Eins og venjulega hef ég ábyggilega gleymt einhverjum sem ég ætlaði að tengja á. Það verður bara að hafa það. Kvartanir má senda á kommentakerfið.
Ævisagnamálþingið tókst glimrandi vel. Er óheyrilega glöð yfir því.

laugardagur, 1. mars 2003

Nú verða lesnar auglýsingar. Á morgun (laugardag) ætlar Félag íslenskra fræða að halda frábært ævisagnamálþing. Það verður í Rúgbrauðsgerðinni (Borgartúni 6) og stendur frá morgni til kvölds; fyrsti fyrirlesturinn byrjar klukkan 9.30 og svo verður haldið áfram fram eftir degi. Fyrirlestrarnir verða ellefu alls, að þeim loknum taka við pallborðsumræður, og síðasti dagskrárliðurinn er svo „léttar veitingar“ milli kl. 18 og 19. Vona innilega að sem flestir mæti.
Best að ég fari að koma mér í rúmið svo ég verði ekki alveg ónýt á morgun, og haldi kannski smávegis einbeitingu í sessjónunum tveimur sem ég þarf að stjórna. Finnst ég vera búin að stunda óþarflega mikið af verklegum tilraunum upp á síðkastið í því hversu lítinn svefn hægt er að komast af með; síðustu nótt vann ég til dæmis fram yfir fjögur, sem er kannski ekki alveg nógu sniðugt þegar maður þarf að byrja að kenna kl. 8.10. Sem betur fer tókst mér að komast á lappir og drösla mér af stað á tilsettum tíma – en þetta er ekki alveg nógu sniðugt. Veit ekki hvar þetta endar. Jú, trúlega endar þetta með ósköpum. Vona bara að það sé ennþá langt þangað til.