miðvikudagur, 5. mars 2003

Tiltekt í tenglasafninu hefur lengi staðið til, en einhvern veginn virðist mér ómögulegt að föndra við það oftar en á ársfjórðungsfresti eða þar um bil. Dugleysi mitt í þessum efnum er óheyrilegt. Það þýðir m.a. að sumir sem ég hef ætlað að setja tengil á lengi hafa hætt áður en mér tókst að tengja á þá, aðrir eru hættir og byrjaðir aftur og ég veit ekki hvað og hvað. En nú er ég allavega búin að stokka vinstri vænginn minn svolítið upp, og meira að segja búin að draga fólk í nokkra dilka. Sá dilkadráttur fer reyndar fyrst og fremst eftir því hvaðan ég þekki viðkomandi: flokkurinn „norðanmenn“ (minni á að konur eru líka menn) er til dæmis að mestu frátekinn fyrir fólk sem ég kynntist fyrir norðan. Engin regla er þó án undantekninga; ég set Ásu til dæmis í þennan flokk, þótt ég hafi ekki hitt hana nema einu sinni utan bloggheima. En grunnreglan er þó að flokkunin byggist ekki á því hvað eða hvaðan fólk er, heldur beiti ég hinu egósentríska viðmiði að mestu, semsé að grundvallaratriðið sé hvernig fólkið tengist mér.

Þótt aumingjabloggurum ætti eiginlega að varpa út í ystu myrkur fá einhverjir þeirra að lafa inni, a.m.k. í bili. Svo tími ég heldur ekki að henda út uppáhaldsbloggurum sem hafa yfirgefið blogg-tilverustigið formlega, og bjó því til flokkinn „dauðraríkið“ í veikri von um upprisu þeirra sem þangað hafa horfið. Ein ný krækja fer beint þangað inn; ég er búin að ætla að tengja á Hjört í marga mánuði og læt það ekki stoppa mig þótt hann sé nýbúinn að binda enda á nettilveru sína. Málfarsbrandarinn í dánartilkynningunni hans er líka svo lúmskur og skemmtilegur.

Fleiri nýir tenglar eru komnir til sögunnar. Gneistinn er til dæmis öflugur bloggari sem er lengi búinn að vera á leiðinni í tenglasafnið og er loksins kominn þangað núna. Nönnu Rögnvaldar þekki ég ekki í eigin persónu, en var búin að vera í hópi alls þögla fólksins á frábæra matarpóstlistanum hennar í óratíma, og gladdist mjög yfir því þegar hún ákvað að hefja nýtt líf í bloggheimum. Hildigunnur er svo annar snilldarbloggari (stutta kynningu á henni er að finna hér) sem lífgar stöðugt upp á tilveruna. Fyrir alllöngu síðan uppgötvaði ég svo bráðskemmtilegan bloggara, sem ég ætlaði alltaf að tengja á, en varð of sein, því viðkomandi var hrakin af netinu um tíma. En ef eitthvað er að marka ályktunarhæfni mína hefur hún skotið upp kollinum í bloggheimum á ný – í þetta sinn undir nafnleynd. Þetta ágæta nafnleyndarblogg er nú loksins komið í dálkinn hérna til hliðar.

Eins og venjulega hef ég ábyggilega gleymt einhverjum sem ég ætlaði að tengja á. Það verður bara að hafa það. Kvartanir má senda á kommentakerfið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli