þriðjudagur, 20. júní 2006

Af hverju er svona erfitt að ferðast innanlands á þessu landi nema vera á bíl? Og af hverju í ósköpunum eru ferðamálavefsíður í landi sem stærir sig oft af tölvuvæðingu eins svakalega takmarkaðar og raun ber vitni.

Sko. Málið snýst um þetta: Ég er að fara í lítið ferðalag innanlands. Kári bróðir minn sem er lögga á Akureyri ákvað að nota sumarfríið sitt í að vera lögga á Ísafirði. Mér fannst tilvalið að nota tækifærið til að heimsækja hann og flýg vestur seinnipartinn á morgun. Hann fær síðan tvo vini sína í heimsókn um helgina og ég ætla ekkert að þvælast fyrir þeim - en þar sem mér fannst synd ef helgin nýttist ekki í ferðalagið datt mér í hug að það gæti verið stórsniðugt að taka rútu suður og gista einhvers staðar á leiðinni.

Þá upphefst leit að rútuáætlunum - ég skoða ýmsar síður vandlega en finn engin merki um rútur frá Ísafirði (nema strætó í nærliggjandi bæi sem dugar skammt). Á opinberum íslenskum ferðaþjónustuvef er fyrirsögnin "áætlunarleiðir fyrir allt landið" í linkalista en enginn linkur á orðinu "sumar" þar fyrir neðan. Ég fylgi vetrarlinknum en hann er dauður. En þar sem það sést að þetta á að vera undirsíða undir vef BSÍ fer ég á upphafssíðuna og kemst þaðan á undirsíðu með sumaráætlunum. Engin merki um rútuferðir frá Ísafirði eða nágrenni. Finn ekki heldur neitt eftir öðrum síðum, t.d. linkalista á Vestfjarðavefnum, og ýmiss konar gúgl ber ekki heldur árangur.

Á endanum hringi ég í BSÍ og byrja á því að spyrja hvort allar rútuáætlanir á landinu séu á síðunni þeirra. Því er svarað játandi. Þá spyr ég hvort það geti virkilega verið að ekki sé hægt að taka rútu frá Ísafirði til Reykjavíkur. Þá kemur í ljós að konan hafði sennilega ekki skilið fyrri spurninguna því hún segir mér að "Stjörnubílar" séu með áætlunarferðir frá Ísafirði (sem eru semsagt ekki tilgreindar á heimasíðu BSÍ). Stjörnubílar voru reyndar nefndir í áðurnefndum lista á Vestfjarðavefnum en þar var enginn hlekkur þannig að ég dró þá ályktun að þeir væru ekki með heimasíðu. Núna áðan gúglaði ég heitið og fann heimasíðuna. Og ef smellt er á "áætlunarferðir" kemur í ljós að það er hægt að taka rútu áleiðis frá Ísafirði.

Hefði ekki verið sniðugt að uppfæra tenglalista og svoleiðis á almennum ferðaþjónustuvefjum fyrir sumarið? Og af hverju í ósköpunum er ekki til heimasíða með gagnagrunni yfir rútuferðir o.fl. á Íslandi þannig að maður geti einfaldlega slegið inn hvaðan maður vill fara og hvert og fengið skýrt og greinargott svar um það hvernig maður fer að því? En nei, á þessu svokallaða "tölvuvædda" landi þarf maður að nota símann. Og konan sem svaraði símanum á BSÍ upplýsti mig um það hvernig væri hægt að komast með rútu frá Ísafirði til Reykjavíkur. Ef maður ætlar á einum degi verður ferðalagið svona samkvæmt henni:
- Rúta frá Ísafirði (10.30) til Hólmavíkur (14.15).
- Beðið á Hólmavík í þrjá klukkutíma.
- Rúta frá Hólmavík (17.15) að Brú (19.30).
- Beðið á Brú í klukkutíma og korter.
- Rúta frá Brú (20.45) til Reykjavíkur (22.45).

Fyrst hljómaði þetta eins og það gæti alveg samræmst hugmyndum mínum. Mér fannst ágætis tilhugsun að taka rútu frá Ísafirði til Hólmavíkur, gista þar eina nótt og halda svo áfram suður. En nei, það er ekki hægt. Rútuferðir milli Ísafjarðar og Hólmavíkur, og frá Hólmavík að Brú eru bara á sunnudögum, þriðjudögum og föstudögum.

Bílaleigubíll er ekki inni í myndinni. Þeir eru á viðráðanlegu verði á veturna og fram á vor, en 1. júní hækkar verðið upp úr öllu valdi. Bíll í minnsta flokki kostar um 10 þús.kr. á dag - og ef maður tekur bíl á einum stað og skilar honum annars staðar bætist við skilagjald sem er töluvert hærra en daggjaldið. Ef ég vildi vera með minnstu gerð af bílaleigubíl í tvo daga, tæki hann á Ísafirði og skilaði honum í Reykjavík þyrfti ég að borga næstum 34 þúsund.

Það er nokkuð ljóst að ég flýg aftur suður þannig að ég skil ekki eftir krónu í vestfirskri ferðaþjónustu um helgina sem ég hefði annars svo gjarnan viljað gera.

Niðurstaðan í bili er að ég er einu sinni sem oftar í kasti yfir því hvað þetta land getur verið fullkomlega óþolandi. Og mér finnst stórmerkilegt að það skuli vera til útlendingar sem láta sér detta í hug að koma hingað.

þriðjudagur, 13. júní 2006

Það er mögulegt að horfa á fótbolta í ruglaðri útsendingu. Maður hefur svosem ekki hugmynd um hver er með boltann - en boltinn sést þó - og líka hvort liðið er með hann.

sunnudagur, 11. júní 2006

Það er ekki vinnufriður á skrifstofum í miðbænum fyrir einhverri skelfilegri músík niðri á Miðbakka.

fimmtudagur, 8. júní 2006

Myndavél, ég, Empire State, Manhattan

Enn á ég eftir að blogga um síðustu dagana í New York - en þessir tíu dagar sem liðnir eru síðan ég kom heim hafa liðið svo hratt að ég hef ekki gefið mér tíma til þess (það er búið að vera býsna mikið að gera). Í gærkvöld dreif ég hins vegar í því að skella myndum inn á flickr-síðuna mína; eins og glöggt fólk sér er New York albúmið efst í hægri dálkinum. Einhvern tíma seinna skrifa ég kannski texta við einhverjar af myndunum og tagga þær betur en þetta verður að duga í bili. Og í tilefni af því að ég átti fjögurra ára bloggafmæli um daginn (eða ekki af neinu tilefni) er hér mynd af sjálfri mér að taka mynd uppi í Empire State byggingunni. Speglar eru til margra hluta nytsamlegir.