miðvikudagur, 29. október 2003

Komin heim. Því miður. Þegar ég fór að heyra íslensku á flugvellinum í gærkvöld reyndi ég að loka eyrunum og þegar flugfreyjurnar gengu um flugvélina til að selja DV gróf ég mig á kaf í breska blaðið mitt. Svo hafa flugfreyjurnar hjá Iceland Express tekið upp þann sið Flugleiða að segja „velkomin heim“ við lendingu í Keflavík. Ég fann hjá mér hvöt til að æpa: „Nei, neeeeeiiiiiiii – ég vil ekki vera á þessu landi! Mig langar aftur til London!“ Tókst þó að halda aftur af mér. Með naumindum.

föstudagur, 24. október 2003

Rétt í þessu braut ég næstum gleraugun mín. Það hefði nú aldeilis verið heppilegt, svona rétt áður en lagt er upp í langferð. En jæja, nú ætla ég að leita mér að mat, svo er það Hótel Loftleiðir, þá flugstöðin og svo: London! :-)
Nenni ábyggilega ekkert að blogga þar, held að það verði annað að gera.

fimmtudagur, 23. október 2003

Í gær var Nanna að spekúlera í lestarnámi, einkum af hvaða bókum fólk hefði lært að lesa, og heilmiklar umræður urðu á kommentakerfinu hennar. Ég reyndi að leggja mitt af mörkum, en gat þó fátt sagt, því ég lærði að lesa fyrir mitt minni og hef aldrei vitað almennilega hvernig það gerðist. Rámaði bara í að hafa heyrt að mjólkurfernur hefðu komið eitthvað við sögu. Fannst kominn tími til að vita meira um málið, þannig að ég sendi mömmu tölvupóst og bað um skýrslu. Skelli svarinu hér inn til að halda því til haga – og vonandi getur einhver haft af þessu gagn og einnig nokkurt gaman. Og – best að vera fyrri til áður en einhver skýtur á mig: að sjálfsögðu er tilgangurinn líka að segja frægðarsögur af sjálfri mér! Besta aðferðin við slíkt er nefnilega að hafa sögurnar eftir öðrum! ;-) En allavega: hér er bréfið frá mömmu:
Þetta er nú spurning sem erfitt er að svara með afgerandi hætti. Eftir því sem ég man best var lestrarnám þitt mjög sjálfsprottið og fór í byrjun þannig fram að við svöruðum spurningum þínum um hvernig ætti að fara að því að lesa.

Byrjunin var auðvitað sú að mikið var lesið fyrir þig – þér til mikillar ánægju. Það fyrsta sem ég man og kalla má nám var þegar ég sat á Grænavatni og var að undirbúa mig fyrir enskukennslu í Skútustaðaskóla. Þá hreifst þú mjög af einni bls. eða opnu í kennslubókinni fyrir byrjendur en þar var stórum og litfögrum stöfum dreift á síðuna.

Eftir að hafa lært alla stafina man ég að þú spurðir oft um hvernig ætti að lesa og ég útskýrði með aðferðinni sem ég lærði í Ísaksskóla, þ.e. að hver stafur segði ákveðin hljóð, sumir kynnu að segja nafnið sitt sjálfir en aðrir (samhljóðarnir) „segðu“ ákveðin hljóð. Þetta var auðvitað önnur aðferð en pabbi þinn og amma höfðu lært eftir (þ.e. að kveða að).

Ég veit satt að segja ekki hvaða bækur ég á að tilgreina – en man mjög vel að þú spurðir út í fyrirsagnir í blöðum – mjólkurfernurnar voru vinsælar til æfinga. En auðvitað voru uppáhaldsbækurnar á þessum tíma Tumi og Emma í ýmsum útgáfum.

En eins og við höfum örugglega oft sagt þér uppgötvuðum við að þú værir komin af stað og búin að ná tökum á galdrinum þegar við vorum í bíltúr niðri við Reykjavíkurhöfn og allt í einu heyrðist úr barnastólnum í aftursætinu: E- s- j- a.

Þá sáum við að ekki var bara um að ræða sjónminni á nýmjólk eða setningar sem þú kunnir utan að úr Tuma og Emmu. Nákvæma dagsetningu hef ég ekki en þetta var örugglega á tímanum frá sept.–des. 1977.

Eitthvað rámar mig í að síðan hafi ýmislegt verið notað til æfinga – man að einhvern tíma höfðum við undir höndum „Gagn og gaman“ bók – en man ekki hvort það var á þinni tíð eða síðar þegar bræður þínir voru að ná tökum á galdrinum.

Ég skal svo bera mig saman við pabba þinn – það er ekki ólíklegt að hann geti bætt einhverju við og e.t.v. einhverju tilkomumeira lesefni – þótt ég efist um að þú getir státað þig af að hafa lært að lesa með því að stauta þig fram út Íslendingasögunum eða Biblíunni. Það er kannski best að ég sýni pabba þínum bréfið frá þér og biðji hann að svara – það væri fróðlegt að sjá hvort minni okkar ber saman!
Þannig var nú það. Bíð spennt eftir að komast að því hvort minningar pabba eru allt öðruvísi. :)

miðvikudagur, 22. október 2003

Í síðustu færslu spurði ég hvort fólk vildi mæla sérstaklega með einhverju í London. Gerði ráð fyrir að yfir mig helltust skemmtilegar ábendingar – en þær hafa eitthvað látið á sér standa. Kannski hefði ég átt að orða þetta öðruvísi. Sko, ég geri mjög fastlega ráð fyrir að þið hafið mörg, kæru lesendur, a.m.k. komið til London og einhver séu jafnvel ágætlega kunnug þar. Viljið þið ekki segja mér frá einhverju sem er í uppáhaldi hjá ykkur í þessari ágætu borg? Það er svo gaman að vita hvað öðrum finnst skemmtilegt, hvort sem maður er sjálfur á sömu bylgjulengd eða einhverri allt annarri.
Dagurinn einkennist af tilhlökkun. Óendanlegri tilhlökkun. Er að fara til London eftir tvo daga og get varla beðið. Hef aldrei komið þangað áður og veit alveg að fjórir dagar endast engan veginn fyrir allt sem mig langar til, en geri ábyggilega mitt besta. :) Er búin að panta miða á eina leiksýningu og finnst trúlegt að ég fari a.m.k. á eina aðra (t.d. Músagildruna – þegar maður hefur verið forfallinn Agöthu Christie aðdáandi frá barnæsku hlýtur það eiginlega að vera ómissandi). Er síðan ákveðin í að fara á Tate Modern en hugsa að ég láti það ráðast dálítið af veðri hvað ég fer mikið á önnur söfn. Geri fastlega ráð fyrir að ganga bara mikið um – og ganga og ganga og ganga ... Svo veit ég um marga spennandi markaði og bókabúðir og fleira og fleira og fleira – er með gríðarlangan lista yfir ótalmargt sem ég gæti hugsað mér að gera, en er fátt búin að negla niður – ætla bara að spila þetta svolítið eftir hendinni.
Vill fólk mæla sérstaklega með einhverju?

þriðjudagur, 21. október 2003

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir eru tvö kommentakerfi á þessari síðu. Ástæðan er að þegar ShoutOut-ið fór verkfall í sumar setti ég inn Haloscan til vara. Síðan komst ég að því að mér þætti það betra kerfi og vildi helst nota það áfram, en þar sem ég á svo mörg skemmtileg gömul komment í ShoutOut-inu tímdi ég ekki að henda því endanlega. Það er samt búið að vera svolítið bjánalegt að vera með bæði kerfin hlið við hlið. Ákvað að prófa að lita linkinn á ShoutOut-ið ljósgráan þannig að hann sæist verr í von um að það beindi fólki frekar inn á Haloscan-ið. Svo víxlaði ég kerfunum líka þannig að Haloscan-ið væri fyrir framan – annars leit þetta svo undarlega út. Svo er bara að bíða og sjá hvernig þetta gefst.
Nú er úr vöndu að ráða. Allavega ef mann langar að finna sér það til dundurs að búa til vandamál. Málið er þetta: samstarfsfólkið uppgötvaði bloggið mitt á einu bretti um daginn. Spurningin er hvort það á að hafa áhrif á skrifin og hvaða áhrif þá. Augljóslega gæti ég núna farið að tala illa um fólkið – sem hefur verið ómögulegt fram að þessu þar sem það er ekkert gaman að tala illa og kvikindislega um fólk án þess að það heyri til! En í þessu tilfelli gæti svona illt umtal orðið svolítið erfitt ef maður er ekki þeim mun lygnari. Sannast sagna er fólkið nefnilega frekar skemmtilegt og ferlega gaman að vinna með því – en um slíkt er ómögulegt að fjölyrða. Það yrði bara væmið og asnalegt.

Best að ég velti þessu fyrir mér um stund. Á þessi uppgötvun raunheimsins að umbylta blogginu mínu? Eða er best að allt verði við það sama? ;-)

sunnudagur, 19. október 2003

Hrikalega er ég búin að slappa vel af um helgina. Ætla ekki að telja saman klukkutímana sem ég hef sofið – veit bara að talan yrði stjarnfræðilega há. En það veitti heldur ekki af eftir vikuna þar sem ég var búin að ganga svo á svefntímann að svefngalsi var orðinn varanlegt ástand. Þegar einstaka setningar í tyrfnum lagatexta eru farnar að vera fyndnar og/eða fallegar – þá er nokkuð ljóst að sálarheillinni hefur verið stefnt í voða.

Æ, já, mikið er búið að vera gott að eiga frí. Á föstudaginn tókst mér semsagt að skila af mér próförkinni sem ég hafði verið með í aukavinnu (og sem hafði valdið öllum svefnskortinum) og þar sem ég hafði lokið umfangsmiklu verkefni í vinnunni daginn áður var ljóst að spennufallið yrði töluvert. Ákvað að hafna öllu því skemmtilega sem mér stóð til boða á föstudagskvöldið; taldi fullvíst að það myndi slokkna á mér snarlega við að setjast niður og slaka á og fannst mun skynsamlegra að það gerðist heima hjá mér en t.d. á sófanum heima hjá vinafólki mínu. Eða á kórtónleikum – efast um að aukaundirleikur í hrotuformi hefði verið mjög vinsæll.

Sófinn heima og vídeóspóla varð niðurstaðan. En ofboðslega getur verið erfitt að finna sér mynd á vídeóleigu. Ég væflaðist um leiguna í lengri tíma án þess að finna nokkuð. Samt var þarna auðvitað hellingur af myndum sem ég ætla einhvern tíma að sjá. Bara einhvern tíma seinna. Eftir hálftíma vandræðagang lá við að ég tæki Bridget Jones (og horfði þar með á hana í fimmta eða sjötta skipti) eða leitaði á náðir spólusafns heimilisins og horfði á Hroka og hleypidóma í tvöþúsund tuttugasta og sjöunda skipti. Með harðfylgi tókst mér þó á endanum að finna mátulega heilalausa mynd sem ég hafði ekki séð áður. Hitt hefði hvort tveggja verið of líkt skrípamynd af föstudagskvöldi einhleyprar konu sem á sér ekki líf. Hefði bara vantað kött.

Á laugardaginn – eftir meira en tólf tíma svefn – vaknaði ég svo við símhringingu Og var spurð hvort ég vildi taka að mér eina litla próförk. Og – ótrúlegt en satt – ég sagði nei. Því ég ætlaði að eiga frí. Ó, já, ég get þetta stundum. Samt var þetta meira að segja próförk að bók sem ég hlakka til að lesa. Og ég náði samt að segja nei. Segir kannski sitt um það hversu mikið ég var búin að vinna yfir mig.

Hélt svo áfram að sofa, slæpast og gera ekki neitt á alla mögulega vegu. Stundum er það óendanlega gott.

þriðjudagur, 14. október 2003

Las stjörnuspána mina í Mogganum og gat ekki annað en skellt upp úr. Í henni segir nefnilega:
Áætlanir sem tengjast lögfræði, framhaldsmenntun, útgáfu- og ferðamálum líta illa út.
Hér kemur vel á vondan, það liggur við að hér sé líf mitt í hnotskurn. Best að taka þetta lið fyrir lið:
 1. LÖGFRÆÐI: Ja, „heilkenni lagamálfars“ (skilgreining Kristbjarnar) setur verulega mark sitt á tilveru vesæls skjalalesara þessa dagana. Óþarft að segja meira um það.
 2. FRAMHALDSMENNTUN: Er krónískt í rúst. Held stundum að einhvern tíma takist mér að sinna MA-náminu aftur. En það víkur alltaf fyrir brauðstritinu.
 3. ÚTGÁFUMÁL: Hmmm – heima bíður eftir mér próförk að óheyrilega langri bók sem ég átti eiginlega að vera búin að lesa, eða ætlaði allavega að skila af mér á morgun, en sé varla fram á að það takist, þrátt fyrir beitingu svefnskorts og ofneyslu á kaffi síðustu daga. Verð væntanlega orðin ennþá svefnlausari og vitlausari þegar yfir lýkur en núna; nóg er nú samt.
 4. FERÐAMÁL: Neeei, nú hafna ég því að mark sé á stjörnuspánni takandi. Tilhugsunin um Lundúnaferðina eftir tíu daga hefur verið ljósið í myrkrinu í dag. Þau plön eru ekkert að renna út í sandinn.

föstudagur, 10. október 2003

Er farin að drekka of mikið kaffi. Enn og aftur.

fimmtudagur, 9. október 2003

Minesweeper er ávanabindandi andskoti.
Metin mín þessa stundina eru:
Beginner: 5 sek.
Intermediate: 39 sek.
Expert: 125 sek.

mánudagur, 6. október 2003

Grænavatnsfrænkur mínar taka sér bólfestu í bloggheimum þessa dagana, hver af annarri. Mikið er ég ánægð með þær. Fyrir nokkru fór Brynja að blogga; en hún dvelur um þessar mundir við óperustörf í Cambridge. Og nú er Guðný byrjuð líka; um hana mætti segja margt og mikið, en akkúrat um þessar mundir er mér ein spurning efst í huga: Ætlar konan að stofna dýragarð í Garðabænum?! ;-) Dálæti Guðnýjar á dýrum kemur kannski ekki á óvart – ein af mörgum skemmtilegum bernskuminningum mínum snýst um það þegar Guðný tók mig með að skoða mýsnar úti í Nýhúsum – við sátum þar hrikalega hljóðar (maður þorði varla að anda) og biðum þess að mýsnar færu á kreik að éta hænsnamatinn. Helsta iðja okkar nokkrum sumrum seinna var þó allnokkurs annars eðlis – þá var Guðný komin með bílpróf og þau voru ófá kvöldin sem við keyrðum einn hring kringum vatnið (keyptum e.t.v. ís úti í Reykjahlíð á leiðinni), og horfðum svo á Dirty Dancing þegar heim var komið. Hef ekki tölu á því hvað við horfðum oft á þá ágætu mynd þetta sumar – né því hvað ég hef horft oft á hana síðan. Alltaf jafn gaman (mér er alveg sama hversu margt er hægt að tína til á móti myndinni). Verð að fara að koma því í verk að halda Dirty Dancing vídeókvöldið sem er búið að vera á verkefnalistanum í a.m.k. tvö ár.

laugardagur, 4. október 2003

Þáttur úr leikritinu:
Þrautir á þingsetningardegi


Bjartur og fagur haustdagur í miðbæ Reykjavíkur.
Erna og Dísa – búrókratar í þjónustu hins opinbera – þjóta út úr skrifstofuhúsi við norðvesturhorn Austurvallar og skeiða yfir völlinn. Við kaðalgirðingu á jaðri hans er hópur fólks með kröfuspjöld, innan girðingarinnar einkennisklæddir lögreglumenn.
 • Erna: Hvað er klukkan? Erum við orðnar of seinar?
 • Dísa: Alveg á mörkunum – sleppum samt vonandi á undan þingmönnunum.
Þær nálgast kaðalgirðinguna. Taktföst talning heyrist og í ljós kemur einföld röð lögreglumanna sem marsera eins og strengjabrúður. Sumir mótmælenda hlæja dátt, aðrir flissa óskammfeilið – nokkrir láta sér nægja að brosa í kampinn.
Þegar Erna og Dísa ætla inn fyrir girðinguna stöðvar þær maður með derhúfu sem á stendur skýrum stöfum LÖGREGLAN.
 • E & D (óðamála): Við erum starfsmenn þingsins …
 • Löggan (tortryggin): Eruð þið með skilríki upp á það?
 • E & D (forviða): Neeeeiiii …
 • Löggan (valdsmannslega): Það getur hver sem er sagst vera starfsmaður þingsins.
 • (E & D eru ráðvilltar að sjá.)
 • Löggan (óþolinmóð): Eruð þið með annars konar skilríki?
 • (Dísa hristir höfuðið.)
 • E: Jaaaá … (Rótar í allstórri tuðru (sem hefði getað geymt margar skyrdollur) og finnur á endanum bleikt spjald sem hún réttir fram. Löggan virðist það vandlega fyrir sér og skráir loks kennitölu skírteinishafa í minnisbók sína. Lítur jafnframt á klukkuna og nóterar tímasetninguna af samviskusemi en sýnir töskunni engan áhuga.)
 • Löggan (náðarsamlegast): Jæja, farið þá inn fyrir.
Þær taka aftur á rás og hverfa brátt inn í Dómkirkjuna.

Tjaldið.

--------------------------
(Næsti þáttur leikritsins gerist innan veggja Dómkirkjunnar rétt eftir að fyrra þætti lýkur. Erna og Dísa sitja hjá kollegum sínum. Prósessía þingmanna birtist í dyrunum og þegar allir hafa sest hefst messa. Prédikun prestsins markast mjög af fréttum um að væntanlegt sé frumvarp um aðskilnað ríkis og kirkju. Hann leggur sig ákaflega fram um að vara við yfirvofandi hættu á „afkristnun“ samfélagsins og helst er að skilja að hann telji slíkt myndu leiða af sér alls kyns hörmungar, þar á meðal fjölkvæni. En það er önnur saga.)

föstudagur, 3. október 2003

Kansellístíllinn er að verða mér ískyggilega tamur. Í morgun sendi ég vinnufélögum mínum svohljóðandi bréf:
Á grundvelli þeirrar staðreyndar sem óformleg athugun leiddi í ljós og fól í sér að formlegir þátttakendur í starfi skjaladeildar voru með örfáum undantekningum ekki tiltakanlega fúsir að fá í hendur þingskjöl á pappír á einstaklingsbundnum grunni, var tekin óformleg ákvörðun um að finna slíku efni hentuga staðsetningu með miðlægum hætti, og hefur henni nú verið hrundið í framkvæmd.
Og þetta er hluti úr skeyti sem fór frá mér síðdegis:
Í tilefni af nýaflokinni framkvæmd vistunar þess sem nálgast að vera heildarmagn pappíra skjaladeildar frá fyrra þingi í kössum með viðeigandi hætti ...
Með sama áframhaldi verð ég orðin fullkomlega óskiljanleg í vor. Blessunarlega ætla kollegarnir að vera á varðbergi og grípa í taumana ef í óefni stefnir. Ég vona að blogglesendur mínir geri slíkt hið sama.

fimmtudagur, 2. október 2003

Þetta er að verða aumingjablogg dauðans. Og um þessar mundir er takmarkað útlit fyrir að áformum um úrbætur verði hrundið í framkvæmd með fullnægjandi hætti í nánustu framtíð (er að verða skemmd af stofnanamáli). Í bili verða örfá orð að duga til að láta vita að ég sé lífs.

Eftirtalin atriði hafa einkennt líf mitt síðustu vikuna: vinna, vettlingaprjón og pönnukökur. (Hljómar kannski svolítið galið. Nánari skýringar koma kannski síðar. Kannski.)

Kristbjörn lýsir athæfi löggunnar í gær. Ég var líka á svæðinu – þó ekki í mótmælaskyni – og fannst marseringin líka fyndin, en náði því miður ekki að fylgjast almennilega með, því ég var upptekin við að sannfæra sérlega samviskusaman lögreglumann um að ég væri víst starfsmaður Alþingis, og það væri óhætt að hleypa mér inn fyrir kaðalinn og í þingsetningarmessuna (já, trúleysinginn ég lagði mig sérstaklega fram um að komast í messu – veit að það er saga til næsta bæjar). Þetta var skemmtilega súrrealískur leikþáttur sem verður kannski bloggað um síðar.