laugardagur, 4. október 2003

Þáttur úr leikritinu:
Þrautir á þingsetningardegi


Bjartur og fagur haustdagur í miðbæ Reykjavíkur.
Erna og Dísa – búrókratar í þjónustu hins opinbera – þjóta út úr skrifstofuhúsi við norðvesturhorn Austurvallar og skeiða yfir völlinn. Við kaðalgirðingu á jaðri hans er hópur fólks með kröfuspjöld, innan girðingarinnar einkennisklæddir lögreglumenn.
  • Erna: Hvað er klukkan? Erum við orðnar of seinar?
  • Dísa: Alveg á mörkunum – sleppum samt vonandi á undan þingmönnunum.
Þær nálgast kaðalgirðinguna. Taktföst talning heyrist og í ljós kemur einföld röð lögreglumanna sem marsera eins og strengjabrúður. Sumir mótmælenda hlæja dátt, aðrir flissa óskammfeilið – nokkrir láta sér nægja að brosa í kampinn.
Þegar Erna og Dísa ætla inn fyrir girðinguna stöðvar þær maður með derhúfu sem á stendur skýrum stöfum LÖGREGLAN.
  • E & D (óðamála): Við erum starfsmenn þingsins …
  • Löggan (tortryggin): Eruð þið með skilríki upp á það?
  • E & D (forviða): Neeeeiiii …
  • Löggan (valdsmannslega): Það getur hver sem er sagst vera starfsmaður þingsins.
  • (E & D eru ráðvilltar að sjá.)
  • Löggan (óþolinmóð): Eruð þið með annars konar skilríki?
  • (Dísa hristir höfuðið.)
  • E: Jaaaá … (Rótar í allstórri tuðru (sem hefði getað geymt margar skyrdollur) og finnur á endanum bleikt spjald sem hún réttir fram. Löggan virðist það vandlega fyrir sér og skráir loks kennitölu skírteinishafa í minnisbók sína. Lítur jafnframt á klukkuna og nóterar tímasetninguna af samviskusemi en sýnir töskunni engan áhuga.)
  • Löggan (náðarsamlegast): Jæja, farið þá inn fyrir.
Þær taka aftur á rás og hverfa brátt inn í Dómkirkjuna.

Tjaldið.

--------------------------
(Næsti þáttur leikritsins gerist innan veggja Dómkirkjunnar rétt eftir að fyrra þætti lýkur. Erna og Dísa sitja hjá kollegum sínum. Prósessía þingmanna birtist í dyrunum og þegar allir hafa sest hefst messa. Prédikun prestsins markast mjög af fréttum um að væntanlegt sé frumvarp um aðskilnað ríkis og kirkju. Hann leggur sig ákaflega fram um að vara við yfirvofandi hættu á „afkristnun“ samfélagsins og helst er að skilja að hann telji slíkt myndu leiða af sér alls kyns hörmungar, þar á meðal fjölkvæni. En það er önnur saga.)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli