mánudagur, 30. september 2002

Þreytt og rugluð í hausnum. Er að reyna að föndra nafnaskrá við Bréf Vestur-Íslendinga II en puttunum gengur ógurlega illa að fást við lyklaborðið. Lenda stöðugt á vitlausum stöfum. Búa samt ekki til hefðbundnar innsláttarvillur, heldur eru meira í skúríbúríkrassbúmm-fílíngnum. Ef sænski kokkurinn kæmist í tæri við tölvu yrði útkoman eitthvað svipuð og hjá mér í dag.

föstudagur, 27. september 2002

Sögur Svanhildar af ástamálum sonar síns (6 ára) eru snilld (1. kafli, 2. kafli). Efnileg framhaldssaga – bíð spennt eftir næsta kafla.
Susan Lewis er mætt aftur í Bráðavaktina! Hún var skemmtilegur karakter á sínum tíma og sárt saknað þegar hún hætti, en þessi endurkoma lofar einhvern veginn ekkert sérlega góðu. Held að það séu ekki útlitsfordómar, þótt á þessum árum sem liðin eru hafi henni tekist að finna sér ljótustu hárgreiðslu í heimi!
Já, margt hefur breyst í Bráðavaktinni. Í fyrra lífi Susan þar var Mark Greene til dæmis ekki kominn efst á óþolandi-listann minn, en þar trónir hann tvímælalaust núna.

þriðjudagur, 24. september 2002

Jæja, óvissan um framtíð mína hefur minnkað aðeins; ég verð alla vega ekki atvinnulaus strax eftir helgi, því það er búið að framlengja ráðninguna til 1. nóvember. Ég er þá með vinnu rúman mánuð fram í tímann, þannig að lífið er í nokkuð föstum skorðum á minn mælikvarða!

laugardagur, 21. september 2002

Kannski ætti ég að breyta heitinu á þessari síðu í Laugardagsblogg. Alla vega virðist mér ganga heldur illa að blogga á öðrum vikudögum núorðið, enda fer heilastarfsemin að mestu í vinnuna. Þaðan er það helst að frétta að ég er ekki lengur í orðabókinni; „lánstíminn“ á mér rann út á mánudaginn eftir nokkrar framlengingar, þannig að ég er komin aftur í önnur verk, þar á meðal þau sem ég vanrækti meðan á orðabókarvinnunni stóð.

Sú lífsreynsla að verða „lánsgripur“ var verulega athyglisverð. Lánuð, leigð, gerð út af öðrum í undarlegum tilgangi … Að því kom að augu mín lukust upp: ég var greinilega komin í vændið! Hlutgerving mín varð þó fyrst alger þegar framlenging lánstímans réðst af úrslitum í einhverjum fótboltaleik, og ég varð því eins konar vinningur í veðmáli!!!

(Reyndar var ég ekki eins viljalaust verkfæri og ég læt! Það er frábært fólk að vinna við orðabókina, og mér fannst ofsalega gaman að vinna með því. Auk þess blundar i mér orðabókapervert sem gladdist mjög yfir því að fá að fikta pínu við orðabókina!)

Annars er það helst að frétta af mér og vinnunni að ég er bara ráðin fram að mánaðamótum og það er ennþá óljóst um framlengingu. Þannig að kannski verð ég atvinnulaus eftir rúma viku. Ef einhver veit um skemmtilega vinnu handa furðufugli eins og mér má alveg láta mig vita (þótt ég vilji samt helst vera áfram þar sem ég er núna).


P.S. Hilmu og Stefáni má benda á hjálpina í Bloggernum þar sem þetta svar fæst við vandamáli þeirra.

P.P.S. Ég ætla ekki að bætast í hóp þeirra bloggara sem hæðast að nýja bakgrunninum á síðunni hans Stefáns og telja hann afbrigðilega ljótan – þvert á móti finnst mér liturinn frekar sætur!

P.P.P.S. Þórdís átti alltaf að vera á listanum yfir flesta uppáhaldsbloggarana mína hérna til hliðar. Nú er hún loksins komin þangað.

laugardagur, 14. september 2002

Það fór eins og ég vissi; þótt mér tækist að skjóta upp kollinum í bloggheimum fyrir viku sökk ég aftur ofan í hyldýpi aumingjabloggsins. Samt er ég aftur komin í netsamband, bæði í vinnunni og heima, en hektískasti tíminn í vinnunni er runninn upp og hæfileikar til hugsunar og tjáningar að mestu fráteknir fyrir hana. Það þýðir þó ekki að ég hafi engin afrek unnið í þágu bloggsins. Þvert á móti! Ég er enn lánsgripur á orðabókardeildinni — og í dag fékk ég það verkefni að nýskrá orð úr bloggheimum. Í nýrri útgáfu orðabókarinnar (þ.e. Íslenskrar orðabókar) sem kemur út 1. nóvember má fólk því búast við að geta flett upp prýðisorðunum blogg, blogga, bloggari o.fl. Ætli aumingjabloggari fái að vera með?!

P.S. Hérna til hliðar eru loksins komnar krækjur á flesta uppáhaldsbloggarana mína.

laugardagur, 7. september 2002

Þá er ansi löng blogghvíld að baki í bili. Ástæðurnar?
1) Annir í vinnunni
2) Skortur á netsambandi.
3) Andleysi.

Nánari ástæður fyrir lið 2):
a) Er búin að vera „í láni“ inni á orðabókardeild í vikunni og kemst ekki á netið í tölvunni þar (en hefði hvort eð er varla haft tíma til að blogga).
b) Innhringisambandið við Reiknistofnun (sem ég nota heima) hefur verið í misgóðu lagi, mér til óánægju og óyndisauka.

Auk þess er að renna upp sá tími ársins þegar ég hef svo mikið að gera við að gera athugasemdir við það sem aðrir skrifa að ég verð hálfófær um að tjá mig sjálf. Tóm í hausnum fyrir og eftir vinnu, og í mestu vandræðum með að koma út úr mér óbrenglaðri setningu!

Þannig að ég get ekki lofað bloggdugnaði á næstu vikum. Stefni samt auðvitað að bót og betrun. :)