laugardagur, 14. september 2002

Það fór eins og ég vissi; þótt mér tækist að skjóta upp kollinum í bloggheimum fyrir viku sökk ég aftur ofan í hyldýpi aumingjabloggsins. Samt er ég aftur komin í netsamband, bæði í vinnunni og heima, en hektískasti tíminn í vinnunni er runninn upp og hæfileikar til hugsunar og tjáningar að mestu fráteknir fyrir hana. Það þýðir þó ekki að ég hafi engin afrek unnið í þágu bloggsins. Þvert á móti! Ég er enn lánsgripur á orðabókardeildinni — og í dag fékk ég það verkefni að nýskrá orð úr bloggheimum. Í nýrri útgáfu orðabókarinnar (þ.e. Íslenskrar orðabókar) sem kemur út 1. nóvember má fólk því búast við að geta flett upp prýðisorðunum blogg, blogga, bloggari o.fl. Ætli aumingjabloggari fái að vera með?!

P.S. Hérna til hliðar eru loksins komnar krækjur á flesta uppáhaldsbloggarana mína.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli