föstudagur, 11. júlí 2003

Mikið verður maður skrýtinn í hausnum af að föndra nafnaskrár í bækur. Ég ætlaði að sitja yfir próförkum í kvöld, en held að það verði ekkert af því. Nokkuð viss um að hver einasta villa og allt mögulegt klúður færi framhjá mér. Vona að mér takist að vera dugleg um helgina, það eru að myndast ískyggilega miklir haugar á skrifborðinu mínu. Ef ekkert verður að gert fer þetta fer að enda með ósköpum. Kannski finnur samstarfsfólk mitt bráðum torkennilegan haug – þegar farið verður að róta í ruslinu kemur í ljós eitthvað sem einu sinni virðist hafa verið manneskja. Dánarorsök: (pappírs)drukknun.

Þetta eru ískyggilegar framtíðarhorfur en þrátt fyrir allt held ég að það sé gáfulegast að taka frí í kvöld. Veit samt ekki hvað ég á að gera. Hef takmarkaða orku til annars en að liggja uppi í sófa og glápa á sjónvarpið, en þar sem föstudagskvöld eru sjónvarpskvöld dauðans er það ekki nógu vænlegur kostur. Nenni ekki út á vídeóleigu þótt ég hefði ábyggilega gott af því að rölta út í góða veðrið – og reyna jafnvel að komast í gott skap yfir þessu fallega sumarveðri. Akkúrat þessa stundina finnst mér sumarið vera leiðindatími, en trúlega væri skynsamlegt að snúa við blaðinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli