sunnudagur, 3. ágúst 2003

Af hverju er veðrið svona óheyrilega gott? Öll mín plön um vinnusemi þessa helgina eru á hraðri leið í vaskinn. Í dag var meiningin að fara í vinnuna fljótlega upp úr hádegi – og ég ætlaði sko að koma hrikalega miklu í verk – en ýmislegt hefur tafið fyrir. Kom mér auðvitað alltof seint af stað (einu sinni sem oftar), og þar sem sólin skein svo fallega asnaðist ég til að ganga niður í bæ til að taka strætó þar (í staðinn fyrir að taka hann beint að heiman), og þegar þangað var komið fylltist ég fullvissu um að það væri beinlínis syndsamlegt að njóta veðurblíðunnar ekki aðeins lengur þannig að ég hékk og slæptist drjúga stund, settist svo á grasið á Austurvelli og las Agöthu Christie í meira en klukkutíma. Á endanum sparkaði ég sjálfri mér þó af stað og er mætt í vinnuna núna, en efast stórlega um að ég endist lengi. Þótt ég sitji ekki við glugga og ætti því að geta leitt þetta dýrlega sumar hjá mér, þá veit ég alltof vel af því þarna úti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli