miðvikudagur, 30. júlí 2003

Um daginn kveinaði ég yfir Amazon.co.uk sem sagði að bækurnar sem ég var að panta myndu ekki komast til mín fyrr en í apríl á næsta ári. Síðan hef ég uppgötvað að ég laug því að ekki væri sögð lengri bið eftir neinni bókanna en átta dagar, því að ein bókin var ekki komin út þegar ég pantaði. En það átti að gerast 1. ágúst, þannig að ég sá ekki hvað átti að tefja svona hrikalega fyrir.
[Innskot: Er spennt að sjá á hvaða brautum Minette Walters er í þessari bók. Krimmarnir hennar eru nefnilega svo fjölbreyttir. Sú síðasta var hins vegar meiri þriller en krimmi – vonandi hefur hún fært sig til baka á krimmaslóðirnar, ég er meira fyrir þá deildina.]
Jæja, önnur bók í pöntuninni var líka svolítið sér á parti, því hún var sögð "print on demand" en engu að síður tiltæk innan 6–7 daga að jafnaði. Ástæðan fyrir útburði í apríl var því enn á huldu.

Ég ákvað samt að bíða róleg í nokkra daga áður en ég hellti mér yfir kvörtunardeildina – og stundum vinnur þolinmæðin þrautir allar (eða sumar), því rétt í þessu kom tölvupóstur um að pakkinn væri farinn af stað. En afhending er ennþá áætluð 22.–26. apríl. Það virðist því augljóst að dreifingardeildin hjá Amazon hafi tekið snigla í þjónustu sína. Nema dagatalið í tölvukerfinu þeirra sé í fokki. Hvort ætli sé líklegra?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli