miðvikudagur, 3. september 2003

Fastir liðir eins og venjulega:
Er (aftur) hætt störfum hjá Eddu (þótt ég eigi nú trúlega eftir að frílansa þar áfram) og byrjaði (enn og aftur) á nefndasviði Alþingis á mánudaginn. Er á sömu skrifstofu og síðast, björt og fín með útsýni yfir Austurvöll og finnst þetta ákaflega heimilislegt (enda er þetta þriðja skiptið sem ég vinn hérna). Svo er ég meira að segja ráðin í heilt ár sem er viðburður. Kannski er líf mitt að komast í pínulítið fastar skorður? Spurning hvort ég fríka út eftir nokkra mánuði af óhóflegu starfsöryggi?! Ég hef nefnilega verið mesta flökkukind og (næstum) aldrei verið ráðin nema tímabundið í vinnu, sjaldan meira en þrjá mánuði í einu, einstaka sinnum örlítið lengur. Starfsferillinn minnir einna helst á flókinn bútasaum.

Einu sinni á ævinni hef ég reyndar verið með ótímabundinn ráðningarsamning. En þá sagði ég upp eftir fjóra mánuði. (Vann einn og hálfan mánuð eftir það en náði semsagt ekki hálfu ári á vinnustaðnum.) - Óhófleg öryggistilfinning var reyndar ekki ástæðan, heldur ákvað ég einfaldlega að starfsöryggi væri ekki nógu góð ástæða til að vinna á stað þar sem ég væri óánægð. Síðan eru liðin rúm tvö ár og sífellt staðfestist sú skoðun mín að þetta sé einhver besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli