Tíminn líður skelfilega hratt. Í gær fór ég í klippingu – og þótt einhverjir kynnu að halda að það væri ekki í frásögur færandi væri það mesti misskilningur því að núna voru heilir níu mánuðir liðnir síðan ég hafði síðast hleypt skærum í hausinn á mér. Þá var reyndar liðið ár frá því næst á undan, þannig að ég er augljóslega á réttri leið. Kannski tekst mér að koma mér næst af stað eftir hálft ár. Aldrei að vita.
Svo ætlaði ég eiginlega að sitja heima í gærkvöld og vinna – en fannst ég alltof mikil pæja svona nýklippt og í nýjum skóm og í nýju pilsi til að það væri réttlætanlegt að hanga ein heima, svo ég hringdi í Kristjönu Nönnu og dró hana á kaffihús. Á leiðinni heim gerði ég svo (enn eina) tilraun til að hvetja hana til að byrja að blogga – en þá varð hún kindarleg á svipinn og aulaði svo út úr sér uppljóstrun: Nanna byrjaði semsagt blogg í vor án þess að segja nokkrum manni frá því en hætti fljótt vegna þess að henni fannst bloggið ekki henta sér. Þvílíkt og annað eins. Reyndar er það að sumu leyti skiljanlegt fyrst hún hélt þessu leyndu. Blogg er fullkomlega tilgangslaust í tómarúmi, það verður fyrst skemmtilegt þegar einhvers konar díalógur er kominn á við önnur blogg.
Þess vegna ætla ég að vera andstyggileg og kvikindisleg vinkona og vísa hér á bloggið hennar Nönnu í von um að það geti rekið hana af stað aftur. Nanna vildi reyndar ekki gefa mér upp slóðina – en það var nú ekki mikill vandi að giska á hana; hér fann ég semsagt þetta efnilega blogg. Hvet eindregið til þess að þráðurinn verði tekinn upp á ný – ég skal alveg hjálpa til við linkagerð og þess háttar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli