mánudagur, 1. desember 2003

Hvað er annars búið að gerast síðan ég bloggaði síðast? (Þ.e. síðast m.v. bloggdaga, næstsíðast m.v. bloggfærslur.) Ja, það er nú það. Á tímabili velti ég því fyrir mér hvort ég gæti flutt lögheimilið í vinnuna. Í skilgreiningunni á lögheimili kemur fram að það sé m.a. sá staður þar sem bækistöð manns er að jafnaði [þ.e. í vinnunni í mínu tilfelli á þessum tíma] og þar sem hann dvelur í frístundum sínum [átti eiginlega ekki svoleiðis]. En svo kemur reyndar líka fram að lögheimilið skuli vera þar sem maður hefur svefnstað sinn. Þar með er kannski ekki lengur grundvöllur fyrir lögheimilisflutningi. Kannski ætti ég að reyna að fá dívan á skrifstofuna mína til að geta flutt almennilega hingað.

En jæja, þótt ég hafi ekki gert yfirþyrmandi margt annað en að vinna og sofa hefur mér þó blessunarlega hefur mér öðru hverju tekist að eiga félagslíf inn á milli. Eddupartýið um daginn var t.d. stórskemmtilegt – en hverjum datt eiginlega í hug að halda það á fimmtudagskvöldi? Mér fannst það nógu vond hugmynd fyrirfram, en þegar ég mætti í vinnuna klukkan níu morguninn eftir fannst mér hugmyndin beinlínis kvikindisleg. Eftir svona partý ætti að vera lágmark að geta sofið fram að hádegi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli