mánudagur, 28. júlí 2003

Helgin er búin að vera ákaflega tíðindalaus. Vann lengi fram eftir á föstudagskvöldið, var algjörlega búin í hausnum og sársvöng að auki þegar ég hélt loksins heim á leið, íhugaði að koma við á Eldsmiðjunni á leiðinni og labba með pítsuna heim, ákvað að ég nennti því ekki og vildi frekar láta færa mér pítsuna, hringdi undireins og heim var komið, til þess eins að uppgötva að Eldmiðjan væri hætt að senda heim. Það lá við að ég legðist í alvarlegt þunglyndi en ég var of svöng til þess. Nennti þó ekki að elda, þannig að ég lét mig hafa það að panta frá þeim auma stað Domino's. Mundi ekki eftir neinum öðrum. Reyni svo sannarlega að rifja aðra möguleika upp áður en pítsuhungrið sverfur að næst, því miðað við bragðið af Domino's botnunum geta þeir tæplega verið úr öðru en plasti. Reyndi að horfa á heilalausa vídeómynd fyrir svefninn, en rotaðist uppi í sófa.

Svaf alltof lengi á laugardeginum (ekki í fyrsta skipti), kom mér af stað í vinnuna seint og um síðir, freistaðist til að slæpast alltof lengi í danska bakaríinu á leiðinni (stórhættulegt að eiga leið framhjá því), komst í vinnuna á endanum, var ekki eins lengi og ég ætlaði, gekk heim með viðkomu á Vegamótum (af hverju er steikarsamlokan þar svona hrikalega góð?), gerði aðra tilraun til að horfa á heilalausa mynd, gekk betur í þetta skiptið ...

Já, eitthvað á þessa leið er þetta allt búið að vera. Ætlaði að vera dugleg að vinna, góðu áformin fóru út um þúfur, er meira búin að hanga og hangsa og slæpast o.s.frv. Jamm og já.

Þessi færsla er trúlega skólabókardæmi um tepokablogg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli