föstudagur, 27. júní 2003

Sko: Ástæðan fyrir því að ég lendi stundum (eða oft og iðulega) í illvígri blogglægð er ósjaldan sú að eitthvað skemmtilegt gerist sem ég ætla að blogga rækilega um en svo finn ég mér ekki tíma til þess strax. Undireins og nokkrir dagar eru liðnir er orðið átak að blogga og af því að maður ætlaði að blogga um eitthvað ákveðið en er ekki búinn að því, þá bloggar maður ekki heldur um öll kjánalegu smáatriðin í daglega lífinu sem maður myndi annars blogga um – af því að það á ekki að gerast fyrr en maður er búinn að blogga um það sem blogga átti vandlega um. (Ef einhverjum finnst þessar útskýringar ruglingslegar er það alls ekki mér að kenna. Bara lesandanum sjálfum. Er það ekki?)

Allavega: Það sem ég ætlaði (hérna einu sinni) að blogga vandlega um var landsbyggðarráðstefnan á Akureyri en ætli minningarnar um hana verði ekki að mestu að varðveitast í huganum og í munnlegri geymd í staðinn. Við lentum ekki í neinni alvöru lífshættu í þetta skiptið (ólíkt svaðilförinni út í Flatey á landsbyggðarráðstefnunni í hittiðfyrra) en ferðin var eftirminnileg engu að síður og stórskemmtileg; smaladans/smalahopp prófessoranna var tvímælalaust einn af hápunktunum, sem og það að kynnast Hilmu í raunheiminum.

Á þessum tæpa mánuði sem síðan er liðinn er heilmargt skemmtilegt búið að gerast, en ég man næstum ekkert af því eins og er. Jú, annars, tveimur vikum eftir ráðstefnuna fór ég aftur norður. (Norðurferðirnar á þessu ári eru þá orðnar þrjár sem er eiginlega óhóflegt. Held að það dugi alveg á árinu. Allavega fram að jólum.) Í þetta skipti var tilefnið það að Brynja frænka mín varð stúdent, sem var mjög skemmtilegt.

(Það minnir mig reyndar á að á næsta ári verð ég tíu ára stúdent. Það verður ábyggilega hrikalega gaman – en það er svolítið ískyggilegt hvað tíminn líður hratt!)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli