Í gær komst ég loksins eitthvað á bókmenntahátíðina. Stalst úr vinnunni til að fylgjast með glæpasagnaumræðunum klukkan þrjú (tímasetningin á þessum pallborðsumræðum er ekki alveg hönnuð fyrir fólk í venjulegri vinnu). Það var mjög skemmtilegt, Kata stjórnaði þessu ákaflega vel, og ég komst að því að Boris Akúnin (eða Gregorí Tsjkhartísvílí eins og hann heitir víst í alvörunni) er augljóslega snillingur! Hann var mjög fyndinn og skemmtilegur, og allt sem hann sagði var flott. Best fannst mér hvernig hann líkti texta við rússneskar matrúsku-dúkkur: plottið væri kannski stærsta matrúskan og sú sem allir sæju, en sumir lesendur opnuðu hana og gætu fundið fleiri matrúskur inni í henni. Kannski væri til ein matrúska fyrir lesendur sem hefðu forsendur til að skilja sögulegar tilvísanir, önnur matrúska fyrir lesendur með þekkingu á einhverju öðru, og þannig mætti lengi telja, ein matrúska væri fyrir vini hans, önnur fyrir konuna hans, og svo ein pínulítil bara fyrir hann sjálfan.
Báðar bækurnar sem hafa verið þýddar á íslensku eftir Akúnin, Ríkisráðið og Krýningarhátíðin eru verulega flottar; fyndið sambland af Sherlock Holmes, Tolstoj og ótalmörgu öðru. En svo eru þær líka skemmtilega ólíkar þótt þær séu um sama spæjarann. Vona að það verði þýtt meira eftir Akúnin fljótlega.
Svo fór ég líka á upplesturinn í gærkvöld þar sem m.a. lásu Mikael Niemi og Arto Paasilinna. Rokkað í Vittula eftir Niemi er dásamleg bók, og það var frábært að heyra hann lesa úr henni, hann las svo skemmtilega. Paasilinna var líka mjög góður, enda er Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð einhver fyndnasta bók sem ég hef lesið (eins og fram hefur komið áður). Hún er nýkomin út, kostar bara um 1600 kr. í bókabúð (og á Edduvefnum er tilboð með 20% afslætti). Kaupið hana! Núna!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli