þriðjudagur, 29. júlí 2003

Ása hefur áhyggjur af bókafíkn sinni. Hún virðist óttast að það sé óeðlilegt hvað henni finnst: „... gaman að kaupa bækur, eiga bækur, lesa bækur, strjúka bókum, merkja bækur ...“

Ég kannast mjög vel við þessi einkenni af eigin raun, og skal alveg stofna sjálfsstyrkingarhóp fyrir bókafíkla með Ásu – en ég hafna algjörlega tólf spora kerfinu sem Ása kallar eftir. Minn sjálfsstyrkingarhópur á að standa undir nafni, þ.e.a.s. vera styrkjandi í orðsins fyllstu merkingu. Þar eiga bókafíklar að geta leitað eftir stuðningi og skilningi þegar umhverfið reynir að koma því inn hjá þeim að bókafíkn sé afbrigðileg og hættuleg. Þar verða haldnar æfingar í því að koma sem flestum bókum fyrir í sem minnstu rými (skortur á bókahillum er vandamál sem allir bókafíklar kannast við). Og þar verða veitt góð ráð um greiðsludreifingu þegar bókakaupin hafa alveg farið með vísa-kortið. Svo fátt eitt sé nefnt.

Hver vill vera með?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli