miðvikudagur, 27. ágúst 2003

Umdeildanlegt getur verið hvaða spendýr skuli teljast íslensk. Nú er unnið að stórri og mikilli bók um íslensk spendýr sem kemur trúlega út á næsta ári. Bjarni hefur gerst spendýrafræðingur vinnustaðarins og hefur umsjón með verkinu, en er reglulega hafður að háði og spotti fyrir þá sök að þarna sé notast við nokkuð víða skilgreiningu á íslenskum spendýrum. Einkum hefur Páll Valsson verið duglegur við að fussa og sveia yfir þeirri fásinnu (að eigin mati) að þarna verði fjallað um fleiri dýr en tófuna.

Í gær uppgötvaði ég hins vegar að sjónarhornið er fjarri því að vera of vítt – þvert á móti virðist það ætla að vera svívirðilega þröngt. Menn hafa nefnilega hengt sig óhóflega í hefðbundna rökhugsun og einhvern leiðinda hlutveruleika við afmörkun efnisins.

Brýnt er að tveimur köflum verði bætt við bókina:
  1. Kafla um yfirfærða merkingu. Eins og allir vita er fjöldi fólks (ekki síst Íslendinga) apar, asnar og jafnvel svín.
  2. Kafla um þykjustudýr. Í íslenskum þjóðsögum er sagt frá mörgum skemmtilegum dýrum sem eiga skilyrðislaust að teljast með. Nykur, urðarköttur, skoffín og álíka dýr eru augljóslega rammíslenskust allra spendýra.
Hér með er þessu komið á framfæri sem vinsamlegri ábendingu. Búast má við harkalegri aðgerðum ef málið verður hunsað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli