Blogglaus helgi að baki – og blogglaus mánudagur reyndar líka. En aumingjablogg ber að forðast og svo ekki verði hægt að væna mig um slíka skömm (í þetta skiptið) kemur hér eitt stykki tepokablogg. Meira verður það nú ekki því andleysið er yfirþyrmandi og fátt að frétta. Helgin var sú skrilljónasta í röð þar sem áform um ofurdugnað runnu út í sandinn – allan tímann var ég ofsalega mikið á leiðinni að stefna að því að fara bráðum að koma mér að því að vera hrikalega dugleg að vinna ...
En það fór nú eins og það fór. Ég hefði sennilega alveg getað farið á Norlit-ráðstefnuna sem ég hafði samt ekki tíma til því ég þurfti að koma svo mörgu í verk. En stundum verða afköstin í að gera ekkert bara óendanleg. Eini dugnaðurinn sem ég sýndi af mér um helgina fólst í strauingum. Slíka iðju hef ég ekki stundað í óhófi síðustu ár, enda straujaði ég mér eiginlega til óbóta sumrin þegar ég var þrettán, fjórtán og fimmtán og stundaði barnapíustörf (ásamt óendanlegum strauingum) hjá frændfólki mínu „heima“ á Grænavatni.
[Viðbót nokkru eftir að þetta var skrifað: Á einhverri stærðfræðisíðu (mjög neðarlega) fann ég ofsalega fínar Grænavatns-myndir. Fyndið hvað maður grefur upp á ólíklegustu stöðum á netinu. Ef myndir á borð við þessar færa ekki öllum heim sanninn um það að sveitin mín sé sú fallegasta í heimi er fólki ekki viðbjargandi!]
Þegar ég fór að búa ein beitti ég árum saman snilldartrikki til að forðast strauingapervertisma: ég tók nefnilega meðvitaða ákvörðun um að eiga ekki strauborð. Með því móti verður svo mikið vesen að strauja (maður þarf þá að rýma til á einhverju borði og tína til eitthvert drasl til að breiða á það) að slíkur verknaður verður ekki stundaður nema einstaklega brýna nauðsyn beri til. En paradísarmissir varð í fyrra þegar móðir mín ákvað að þetta væri ófremdarástand og keypti handa mér strauborð (án þess að biðja mig um leyfi). Síðan hefur straujárnið verið notað mun oftar en áður. Og ég skal gera þá játningu að ég er aftur farin að strauja rúmfötin mín. Og bendlaböndin með ef svoleiðis dót er að þvælast fyrir. (Lengra nær strauingabilunin samt ekki. Ég hef heyrt um fólk sem straujar handklæði og nærbrækur, en það ætti nú bara að leggja inn á stofnun.)
Svo horfði ég slatta á vídeó og á HM í frjálsum. Mæli með skrifum rafmagnsbloggarans um hið síðarnefnda. (Sá pistill er ekki svo galinn þótt sama sé ekki að segja um villigötur Stefáns í Andrésar-málum. Ég hef sagt það áður og segi það enn: Íslenskur Andrés flokkast undir menningarspjöll.)
Já, alveg rétt, jarðskjálftinn. Í miðju vídeóglápi aðfaranótt laugardagsins truflaði einhver bölvaður hvinur mig. Skildi ekkert í því að flugvélum væri leyft að taka á loft klukkan tvö að nóttu, sérstaklega svona háværum kvikindum. En fljótlega eftir að bylgjuhreyfingar gengu um fleira en gluggarúðurnar og risahönd virtist kippa snöggt í húsið áttaði ég mig á þeim möguleika að náttúrufræðilegri skýringar gætu verið á málinu. Var samt tiltölulega róleg þangað til ég kveikti á útvarpinu og heyrði mann segja ofurrólegri röddu að gott væri að leita skjóls í bílum og hafa með sér vasaljós. Þar sem ég á hvorki vasaljós né bíl virtist augljóst að dagar mínir væru taldir. Í stöðunni var ekkert til ráða nema taka örlögunum af stóískri ró og fá sér meira rauðvín.
Útvarpið var annars stórfyndið þessa nótt. Lesið endilega absúrdleikritið hans Palla, þar eru nokkur prýðisdæmi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli