mánudagur, 26. maí 2003
Sumir morgnar eru svo mikið klúður hjá mér að það verður stórfellt vafamál að ég geti talist sjálfbjarga manneskja. Dagurinn í dag byrjaði reyndar á mjög hefðbundinn hátt, þ.e. á baráttunni við vekjaraklukkuna – hún reynir á hverjum morgni að telja mér trú um að það sé kominn nýr dagur og ég reyni að hafna þeirri staðreynd eins lengi og ég mögulega get. En það er bara fastur liður og ekkert sérstakt áhyggjuefni, enda vann vekjaraklukkan líka á endanum (eins og venjulega). Nokkru eftir að ég drattaðist upp úr rúminu komst ég hins vegar að því að úrið mitt var orðið galið. Ekki nóg með að það hefði seinkað sér verulega heldur var sekúnduvísirinn hættur að hreyfast eðlilega og tók fimm sekúndna stökk í staðinn. En ég hafði aðrar leiðir til að komast að því hvað tímanum leið, þannig að þegar hér var komið sögu hélt ég enn að þetta yrði hinn ágætasti dagur, þrátt fyrir allt. Sú skoðun staðfestist frekar á leiðinni út á strætóstoppistöð, því það var mesta blíðskaparveður, sólin skein, fuglarnir sungu o.s.frv. En þá fóru óþægilegar staðreyndir að dúkka upp. Ég opnaði töskuna og ætlaði að draga upp veskið mitt – en úpps, ég hafði gleymt því heima. Og úpps, þar með var græna kortið líka læst inni og – enn meira úpps – húslyklarnir höfðu líka orðið eftir heima, þannig að ég komst augljóslega ekki inn til að sækja veskið og græna kortið og það allt. Við tók göngutúr í vinnuna. Langur göngutúr. Ekki gott mál. Reyndar er ég vön að ganga um bæinn þveran og endilangan á undarlegustu tímum en þegar maður er þegar orðinn of seinn í vinnuna er þriggja kortera gönguferð kannski ekki það sem maður þarfnast mest. Það hefði ekki komið mér á óvart ef ég hefði klúðrað því að klæða mig líka, en blessunarlega reyndist ég vera í öllum fötunum og þau sneru líka öll rétt. Lít eiginlega á það sem meiriháttar afrek. Nú er bara að vona að aukalykillinn sem á að vera hjá frænku minni sé ekki týndur. En mér er spurn: Hvernig er hægt að vera svona misheppnuð á morgnana? Er mér almennt treystandi fyrir sjálfri mér? Ég er í mikilli tilvistarkreppu!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli