miðvikudagur, 2. júlí 2003

Orðin í persónuleikaprófinu um snilligáfuna harmónera mjög skemmtilega við lýsinguna á stjörnumerkinu mínu sem ég sá í gær – eintak af því furðulega blaði Vikunni lá á kaffistofunni, og þar var stjörnumerkjaumfjöllun sem var lesin upphátt fyrir alla á svæðinu og reyndist mikið skemmtiatriði. En þar sagði semsagt um vatnsberann (c'est moi) eitthvað á þá leið að hann væri framsýnn og þótt það væri ekki alltaf tekið mark á honum kæmi jafnan í ljós á endanum að hann hefði haft rétt fyrir sér! (Hverjum er ekki sama þótt þetta sé slitið rækilega úr samhengi?!) Ég er að hugsa um að klippa þetta út og ramma það inn. Eða ganga með það á mér svo ég geti alltaf dregið þetta fram ef einhver gerist svo ósvífinn að draga eitthvað í efa sem ég segi. Sigga vinkona mín hélt því fram að það gæti ekki verið hollt fyrir besservissera eins og mig að heyra svona lagað – ég læt slíka fásinnu að sjálfsögðu sem vind um eyru þjóta!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli