miðvikudagur, 3. desember 2003

Að gefnu tilefni skal tekið fram að bloggfærslan frá í fyrradag um mannvonsku vinnufélaganna byggist ekki á misskilningi eins og einhverjir héldu. Ó nei – hún byggist á vísvitandi oftúlkun og útúrsnúningum. Það væri ekkert gaman ef maður mætti ekki ýkja pínulítið.

Komment Kristbjarnar um að við í X-bekknum höfum öll verið meira og minna afbrigðileg er hins vegar hárrétt. Blessunarlega hef ég iðulega fengið að vera langdvölum í vernduðu umhverfi, bæði í skóla og vinnu. (Þ.e. umkringd fólki sem er a.m.k. jafnskrýtið og ég sjálf.) :-)

En fyrst ég er farin að klaga vinnufélagana get ég ekki látið hjá líða að minnast á kvikindislega og markvissa framkvæmd beitingar þöggunaraðgerða gagnvart mér í síðustu viku. Atvikin áttu sér stað á kaffistofunni, bæði fyrir og eftir hádegi einn daginn. Fólk hafði eitthvað á móti því að ég læsi upphátt fyrir það úr Bændablaðinu og Úr verinu. Óskiljanlegt hvað fólk getur verið tregt til að fræðast um undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli