fimmtudagur, 24. júlí 2003

Ég er mesta svefnpurka í heimi. Í gærkvöld fór ég að sofa á tiltölulega skikkanlegum tíma. Las svo sem aðeins lengur en ég ætlaði, en það gerist næstum því alltaf og telst því ekki afbrigðilegt. Svo tékkaði ég sérstaklega á því hvort vekjarinn væri ekki rétt stilltur og kveikt á honum og svoleiðis. Þá sofnaði ég. Og svaf og svaf og svaf ... mjög rækilega. Vaknaði án þess að heyra í vekjaranum, og hélt að ég væri að hrökkva upp alltof snemma. Þangað til ég leit á klukkuna. Hana vantaði fimm mínútur í eitt.

Þetta er svo sem ekki frumraun mín í að sofa yfir mig eftir hádegi. Það hefur gerst einu sinni áður – síðan eru reyndar liðin um tíu ár, en atvikið varð samstundis frægt að endemum. Eitt vorið í menntaskóla átti ég að mæta í stærðfræðipróf klukkan eitt. Útsaumsfélagið (hún og ég) var nokkuð duglegt við að snúa sólarhringnum við í próftíð á þessum árum (og setti hvert metið af öðru í því að koma ógrynni af upplýsingum inn í skammtímaminnið daginn fyrir próf). Í þetta skiptið varð viðsnúningur sólarhringsins þó fullmikill hjá mér, því ég fór ekki að sofa fyrr en milli tíu og ellefu um morguninn, og missti algjörlega af því þegar vekjarinn hringdi skömmu seinna. Mætti einum og hálfum tíma of seint í þriggja tíma próf.

En núna var ég búin að sofa ágætlega lengi, þannig að ég get ekki borið við svefnleysi í þetta skiptið. Sennilega eru vandkvæði mín við að komast á fætur á morgnana séu farin að ganga út í öfgar. Fyrsta (?) lögmál Newtons (tregðulögmálið) sannast ískyggilega oft á mér. Hvernig er þetta aftur: hlutur í ákveðnu ástandi leitast við að halda því ... (æ, eitthvað á þessa leið, er það ekki?). Í mínu tilfelli virkar þetta svona: erfitt að komast í rúmið á kvöldin, erfitt að komast á fætur á morgnana. En þetta er orðið einum of.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli