miðvikudagur, 23. júlí 2003

Ég missi bráðum allt traust á Amazon.co.uk. Nógu slæmt var að Harry Potter skyldi ekki vera sendur af stað fyrr en seint og um síðir um daginn (sbr. hér), en nýjustu horfur eru ennþá dularfyllri. Fyrir nokkrum dögum pantaði ég mér bækur (einu sinni sem oftar). Þær áttu svo sem ekki allar að vera tiltækar samstundis, en sú sem dýpst var á var þó sögð „usually dispatched within 8 days“. Af hverju í ósköpunum áætlar Amazon þá að bækurnar komist ekki til mín fyrr en 22.–26. apríl?! Þótt reikningskunnáttu minni hafi farið töluvert aftur síðustu árin er ástandið ekki svo dramatískt að ég geri mér ekki grein fyrir því að þangað til eru ekki bara nokkrir dagar heldur margir mánuðir. Ætlar Amazon að senda bækurnar hringinn í kringum hnöttinn fyrst? Með fótgangandi sendiboða? Er þetta eitthvert samsæri gegn mér?! Hvers á ég að gjalda?!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli