mánudagur, 7. febrúar 2005

Eftir heilmikið eip á ýmsum kommentakerfum í dag sé ég mig eiginlega tilneydda að blogga svolítið. Ómögulegt að vera bara sníkjubloggari. Annars held ég að það sé fátt að frétta. Ég er komin með tveggja vikna reynslu af því að vera þrítug og það er bara harla gott þótt afmælispartíið hafi mun rólegra að þessu sinni en það hefur verið síðustu ár. Ætli hækkandi aldur minn komi fyrst og fremst fram í aukinni stillingu gesta? (Þetta var nú samt ósköp gaman.)

Þegar ég hugsa mig um er reyndar ýmislegt að frétta. Byrja á sorgarfréttunum um snilldarhundinn Lubba (hund foreldra minna) sem er ekki lengur þessa heims. Það var keyrt á hann um daginn þegar hann var með pabba í hesthúsunum, einu sinni sem oftar, og það er sko ekki sanngjarnt.

Gleðifréttir nr. eitt eru hins vegar þær að ég verð allan júlí í málaskóla í Bologna á Ítalíu og hlakka óendanlega til. Skráði mig um daginn og borgaði staðfestingargjald og fékk um hæl staðfestingu til baka og var strax úthlutað stað til að búa á og fékk meira að segja sent kort sem búið var að merkja staðinn inn á og líka gönguleiðina í skólann. Finnst þetta allt lofa góðu og hlakka óendanlega til.

Það er aftur á móti allsherjarskandall að Sjónvarpið skuli ekki hafa látið sér nægja að henda Bráðavaktinni út af dagskrá síðustu tvo miðvikudaga (fyrir heimskulegan handbolta og tónlistarverðlaunin) heldur ætli að ryðja henni út af dagskrá í sjö vikur í viðbót fyrir fjandans Gettu betur. Mjög undarlegt að slíta seríuna svona í sundur og afar súrt í broti fyrir forfallna aðdáendur eins og mig sem hafa ekki misst af þætti í tíu ár, þrátt fyrir allar lægðirnar sem þátturinn hefur tekið á þessum tíma (enda hefur hann oftast komist upp úr þeim).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli