þriðjudagur, 13. ágúst 2002

Svansý og Kristbjörn eru farin að skipuleggja endurfundi bekkjarins okkar, eins og lesa má í kommentunum við þetta blogg hennar Svansýjar. Þar hefur verið nefndur sá möguleiki að halda vöfflu- eða pönnukökukaffiboð, en niðurstaðan virðist orðin að smala fólki út að borða. Það líst mér vel á. Vöfflu/pönnukökuhugmyndin er samt frábær og væri mjög í anda bekkjarins. Það hafa ekki allir bekkir (nota bene í menntaskóla) haldið bekkjarpartí þar sem mestallt kvöldið var spilað á spil og það eina blandaða sem inn fyrir varir fólks kom var bland í poka. Helsta frávikið frá þröngum stíg dyggðarinnar fólst í því að ekki var spiluð félagsvist heldur morðingi.

Fleiri partí voru mjög í þessum anda. Önnur voru hins vegar umtalsvert líflegri; orðin annaðhvort–eða lýsa sennilega partíhaldi bekkjarins í hnotskurn. Ég man til dæmis vel (mesta furða) eftir góðu partíi heima hjá Svansý. Þegar nokkuð var liðið á kvöldið og innbyrt áfengismagn farið að segja til sín voru flestir komnir ofan í heita pottinn á sólpallinum, ýmist í sundbolum af Svansý eða stuttbuxum af Svansý eða bolum af Svansý eða náttkjólum af Svansý. Eða fáklæddari.

Spurning hvort það væri réttast að skipuleggja sundlaugarpartí til að halda minningunni á lofti? Reyndar ætlaði bekkurinn alltaf í nætursund og var stundum kominn vel áleiðis með að framkvæma þá hugmynd. Einu sinni (reyndar eftir fyrrgreint morðingjapartí) var nokkur hópur til dæmis kominn út á Svalbarðseyri og einhverjir búnir að klifra yfir sundlaugargirðinguna. Það leit út fyrir að loksins ætlaði ekkert að standa í vegi fyrir því að við kæmumst í nætursund. Þangað til í ljós kom að það var ekkert vatn í sundlauginni!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli