föstudagur, 30. ágúst 2002

Á blogginu hennar Ásu í dag getur fólk lesið um húsleit hjá „hundakonunni“ á Akureyri. Ég held að enginn sem hefur alist upp á Akureyri velkist í vafa um það hver konan er, enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem hún hefur komið sér í kynni við lögregluna, hafi ég getið mér rétt til.
Ása er annars líka með bráðskemmtilega könnun á síðunni sinni um það hvaða gömlu sjónvarpsþætti fólk vilji láta endursýna (einkum unglingaþætti). Hvet alla til að taka þátt í henni – enn sem komið er virðist ég vera sú eina sem hef greitt Fame atkvæði – trúi ekki öðru en til séu fleiri sem vildu sjá þá ágætu þætti aftur! Auðvitað mætti bæta ýmsum þáttum við listann hennar Ásu – þó sakna ég ekki verulega nema eins: þáttanna um Parker Lewis. Þeir voru ótrúleg snilld og hafa auk þess óvænta tengingu við Bráðavaktina! Þegar hún byrjaði í sjónvarpinu (þ.e. fyrsta serían) gat maður ekki annað en hrópað upp yfir sig: „Nei sko – Kubiac er í afgreiðslunni!!!“
Bráðavaktarþátturinn um daginn var annars töluverð vonbrigði. Svona er að hlakka of mikið til einhvers. Þarna hélt áfram sú ískyggilega þróun sem einkenndi síðustu seríu mjög, að handritshöfundarnir voru að gera stöðugar tilraunir með formið. Í sjónvarpsþáttum eins og þessum er það umtalsvert áhyggjuefni, því það vekur þá spurningu hvort fólkinu detti ekkert í hug til að skrifa um.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli