föstudagur, 9. ágúst 2002

Hvet alla til að taka Ísfólks-könnunina á bloggsíðunni hennar Svanhildar; hún er semsé að kanna hvort fólk hafi lesið Ísfólkið. Það hef ég sko gert. Allar fjörutíu og sjö bækurnar, oft og mörgum sinnum. Byrjaði meira að segja þegar ég var átta ára — já, ég var mjög einkennilegt barn. Held samt að ég hafi ekki beðið tjón á sálu minni við þetta. Til að byrja með las ég bækurnar alltaf hjá frænku minni en þar sem ég bjó næstum því á Amtsbókasafninu á Akureyri þegar ég var barn fór ég innan tíðar að nýta mér þjónustu þess til að nálgast þessar bækur eins og ótalmargar aðrar. Reyndar var alltaf nokkuð erfitt að fá nýjar Ísfólksbækur, en það leið ekki á löngu þangað til ég uppgötvaði hina ágætu pöntunarþjónustu safnsins, og lét skrá mig á pöntunarlista eftir nýjum Ísfólksbókum strax og þeir voru opnaðir. Innan tíðar hætti ég reyndar að þurfa að hafa fyrir því sjálf, þar sem ég var í góðu sambandi við bókaverðina (eins og fyrr segir bjó ég eiginlega á safninu), sem fóru að setja mig sjálfkrafa efst á biðlistana eftir Ísfólkinu. Þetta var sko almennileg þjónusta.

Og Ísfólkið var og er frábært, þótt fyrri helmingurinn af seríunni beri óneitanlega af þeim síðari. Ég lít ennþá öðruhverju í þessar bækur. Verst að ég á ekki allar. Hefur þó áskotnast meirihlutinn en vantar sitthvað inn í.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli