miðvikudagur, 29. maí 2002

Er Ármann hættur að kunna að telja? Í grein á Múrnum segist hann ætla að rifja upp brot úr átta íslenskum sjónvarpsleikritum en ég sé ekki betur en brotin séu tíu. Svo skrifar hann seint í fyrstu línunni í staðinn fyrir sýnt! Þetta er mjög ískyggilegt!

En greinin er bráðskemmtileg, enda úr miklu að moða; það er ótrúlegt hvað sjónvarpinu hefur tekist að búa til mörg einkennileg leikrit. Var fyrri hluti níunda áratugarins ekki einn helsti blómatími vondra sjónvarpsleikrita?

Hrædd um að ég standi mig ekki nógu vel í getrauninni hans Ármanns en kannast þó við hluta af þessu. Hét leikrit nr. 1 ekki Glerbrot? Kristín Jóhannesdóttir leikstýrði ábyggilega. Nr. 2 hringir líka einhverjum bjöllum - átti ábyggilega að vera e-r nútímaútgáfa af Djáknanum á Myrká — kannski hét það Djákninn?
Nr. 5 hlýtur að vera Bleikar slaufur e. Steinunni Sig. Og nr. 8 hét ábyggilega Ást í kjörbúð. Snilldarlegt nafn! Kannast mjög við nr. 3 en get ekki munað hvað það heitir. Þetta er ekki leikritið sem gerðist að hluta í sjónvarpshúsinu - þar sem einhver gekk um með ákaflega rauða hárkollu — er það nokkuð? Raunir háskólastúdentsins (nr. 6) eru mér í fersku minni þótt ekki geti ég munað nafnið. Þetta var sérstaklega fyndið leikrit fyrir Árngerðinga — en ótrúlegt svindl að skrifstofa Matthíasar væri höfð í Aðalbyggingunni. Leikritið um Snorra Sturluson (nr. 4) hlýtur að hafa verið fyrir mitt minni. Átta mig ekki á 7, 9 og 10, en Dísa frænka mín heldur að það síðastnefnda hafi heitið Félagsheimilið. Hún furðar sig hins vegar á því að Ármann skuli ekki nefna Lénharð fógeta sem mun hafa verið sýndur á svipuðum tíma og verið afar slæmur. Telur þó að það kunni að hafa verið fyrir hans minni.

Þessar upplýsingar frá Dísu, að á 8. áratugnum hafi Lénharður fógeti verið sýndur sem sjónvarpsleikrit, opna mér nýja sýn á litla senu í hinni prýðilegu bók Enginn veit hver annars konu hlýtur eftir Snjólaugu Bragadóttur, sem gerist á þessum tíma. Þar kemur við sögu persóna sem kallast Lenni, en heitir Lénharður — og þegar hann upplýsir um það nafn lætur hann vita að það sé lélegur brandari ef einhver bæti við „fógeti“ — hann hafi heyrt það heldur oft! Þetta virðist sem sé vera vísun í samtíma bókarinnar sem ég hef aldrei gert mér grein fyrir. Svona er maður alltaf að læra eitthvað nýtt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli